spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentKhabib Nurmagomedov: Þegar ég berst rústa ég andstæðingum mínum

Khabib Nurmagomedov: Þegar ég berst rústa ég andstæðingum mínum

Khabib Nurmagomedov er allur að koma til eftir aðgerð sem hann gekkst nýverið undir. Khabib vill mæta Tony Ferguson á UFC 219 í lok desember.

Khabib Nurmagomedov er að margra mati besti léttvigtarmaður heims. Hann hefur aftur á móti lítið barist undanfarin ár vegna meiðsla en síðast sáum við hann gjörsigra Michael Johnson í nóvember í fyrra. Hann átti svo að mæta Tony Ferguson í mars en í þriðja sinn féll bardagi þeirra niður. Khabib var í basli í niðurskurðinum fyrir bardagann og mætti ekki í vigtun.

Hann fór í sumar í aðgerð á baki og segir hann að það séu um 80% líkur á að hann berjist á UFC 219 þann 30. desember. Þá vill hann mæta Tony Ferguson og bæta fyrir klúðrið sitt fyrr á árinu.

„Í lok ársins vil ég fá allt til baka. Athyglina, beltin, ég vil fá þetta allt. Í lok árs ætla ég að laga allt. Við sjáum hvað setur en UFC þarf að setja saman bardagana. Conor gegn Nate Diaz og ég gegn Tony,“ sagði Khabib í The MMA Hour.

„Að mínu mati er Tony Ferguson alvöru meistarinn. Þess vegna tel ég að bardagi milli mín og Tony væri ekki um bráðabirgðarbeltið. Fólk vill sjá mig gegn Tony Ferguson. Ég held að það sé mun betri bardagi fyrir alla. Ef ég vinn Tony Ferguson og tek bráðabirgðarbeltið þá verður Conor vissulega alvöru meistarinn, en hann verður ekki meistari í augum fólksins.“

Conor er ríkjandi léttvigtarmeistari eftir sigur á Eddie Alvarez í fyrra. Hann á enn eftir að verja beltið og enn er óvíst hver hans næstu skref verða. Þriðja viðureignin gegn Nate Diaz hefur verið nefnd til sögunnar og svo auðvitað sameining beltanna í bardaga gegn Tony Ferguson.

Khabib hefur fjórum sinnum dregið sig úr bardaga á síðustu þremur árum og barist aðeins tvisvar. Þeir Khabib og Ferguson áttu að mætast árið 2015, 2016 og 2017 en aldrei hefur þeim tekist að mætast í búrinu. Khabib veit af áhyggjum aðdáenda og er með aðeins eitt markmið.

„Að reyna að koma til baka, æfa á fullu alla daga, það er ekki auðvelt. Ég er sammála aðdáendum, ég þarf að berjast. Ég þarf að ná vigt. Ég þarf að haga mér eins og atvinnumaður. Ég er sammála því. En þegar ég berst rústa ég andstæðingum mínum. Í hvert sinn sem ég berst. Nú er ég með eitt markmið og einn drauma bardaga og það er Tony Ferguson. Það er það sem ég vil.“

Eftir sigur Ferguson á Kevin Lee á UFC 216 sendi Khabib honum heillaóskir en báðir hafa þeir lengi eldað grátt silfur saman.

„Ég vil senda skilaboð; njóttu beltisins. Hann á það skilið, tíu bardaga sigurganga. Að mínu mati er hann alvöru meistarinn og hann verður að berjast við mig. Núna er ég tilbúinn, núna er ég hraustur. Ég var vandamálið síðast, það var mér að kenna og það veit ég. En þar á undan dró hann sig úr bardaganum, þið verðið að muna það. Núna er hann alvöru meistarinn, njóttu þess, sjáumst í lok ársins.“

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular