spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentKhabib: Þyngdin fullkomin

Khabib: Þyngdin fullkomin

Khabib Nurmagomedov segir að þyngdin sín sé í góðu lagi fyrir UFC 219 í næstu viku. Khabib Nurmagomedov mætir þá Edson Barboza og ríkir mikil spenna fyrir bardaganum.

Khabib Nurmagomedov (24-0) hefur ekkert barist síðan hann sigraði Michael Johnson á UFC 205 í nóvember í fyrra. Khabib átti að mæta Tony Ferguson í mars á þessu ári en gat ekki barist vegna veikinda. Veikindin mátti rekja beint til niðurskurðarins fyrir bardagann.

Stærstu áhyggjur aðdáenda fyrir bardagann er þyngd og meiðsli Khabib. Sá rússneski hefur nokkrum sinnum þurft að draga sig úr bardögum vegna meiðsla og síðast dró hann sig úr bardaga vegna veikinda. Núna þegar 10 dagar eru í bardagann er hann enn heill heilsu (eftir því sem best er vitað) og segir hann að þyngdin sín sé fullkomin. Hann er þó með plan ef þyngdin klikkar.

„Ég er með plan til að skera niður. Ég sker af mér vinstri eða hægri fótinn á föstudagsmorgni fyrir vigtunina. Hvort ætti það að vera hægri eða vinstri?“ spurði Khabib í gríni á sérstökum hádegisverði með blaðamönnum í vikunni.

„Það hefur margt breyst. Þyngdin mín er fullkomin og ég er í góðu formi. Ég á þrjá erfiða daga eftir og þá klára ég æfingabúðirnar og einbeiti mér að því að vera í tilsettri þyngd. Sjáum til. Ég er ekki í slæmu formi, ég er mjög spenntur og mig langar að sýna það.“

Mismunandi frásagnir hafa heyrst varðandi þyngd Khabib undanfarnar vikur. 44 dögum fyrir bardagana 30. desember sagði hann við Ariel Helwani að hann væri bara 170 pund (77 kg) en er vanur því að vera 188 pund (85,5 kg) á þeim tímapunkti.

Æfingafélagi hans hjá American Kickboxing Academy, Josh Thomson, hafði hins vegar aðra sögu að segja: „Khabib sker hrikalega mikið niður. Hann var 195 pund fyrir þremur vikum síðan, 191 pund þegar æfingabúðirnar byrjuðu. Núna er hann um 183 pund og er svipað þungur þegar hann berst,“ sagði Josh Thomson í The Big Brown Breakdown hlaðvarpinu.

Samkvæmt Thomson var Khabib því 195 pund (88,6 kg) á þeim tíma þegar Ariel fékk fregnir af því að Khabib væri bara 170 pund.

Khabib sjálfur virðist vera nokkuð þreyttur á spurningum um vigtina sína. „Það er ekki góð hugmynd að spyrja bardagamenn um þyngd þeirra og aldur. Aldur og þyngd eru tvær spurningar sem þú getur ekki spurt konur og bardagamenn um.“

Mikil tilhlökkun ríkir fyrir bardaga Khabib en sömuleiðis miklar áhyggjur yfir þyngd hans. Áhyggjur bardagaaðdáenda eiga rétt á sér enda hefur hann því miður oft valdið vonbrigðum. Vonandi fáum við að sjá hann í búrinu þann 30. desember upp á sitt allra besta.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular