Khamzat Chimaev hefur aftur neyðst til að bakka úr bardaganum gegn Leon Edwards. Chimaev er ennþá að glíma við eftirköst kórónuveirunnar.
Þeir Leon Edwards og Khamzat Chimaev áttu að mætast í aðalbardaganum á UFC bardagakvöldinu þann 13. mars. Dana White, forseti UFC, staðfesti við ESPN í gær að Chimaev gæti ekki barist.
Chimaev var nýliði ársins í fyrra og vann alla þrjá bardagana sína mjög sannfærandi. Hann fékk því stóran bardaga gegn Leon Edwards í desember en þá þurfti Edwards að hætta við þar sem hann greindist með kórónuveiruna.
Bardaginn var aftur bókaður þann 20. janúar en þá þurfti Chimaev að hætta við þar sem hann greindist með kórónuveiruna. Bardaginn var bókaður aftur í mars en nú hefur Chimaev þurft að hætta við þar sem hann er enn að glíma við veikindi eftir kórónuveiruna.
UFC ætlar að finna annan andstæðing fyrir Edwards og hefur gefist upp á að láta þá Edwards og Chimaev berjast.