Kolbeinn Kristinsson keppir sinn fyrsta boxbardaga í langan tíma á morgun. Kolbeinn mætir þá Finnanum Gennadi Mentsikainen (5-1), sem þykir mjög efnilegur og er ein helsta vonarstjarna Finna á sviði hnefaleika.
Kolbeinn Kristinsson (9-0) hefur ekki barist síðan í apríl 2017. Kolbeinn hefur verið að glími við meiðsli en er nú kominn aftur af stað. Bardaginn á morgun fer fram í Finnlandi og verður næstsíðasti bardagi kvöldsins.
Kolbeinn þekkir vel til andstæðingsins og er spenntur fyrir því að stíga aftur í hringinn. „Þetta er skrambi góður boxari og alveg örugglega sá besti sem ég hef keppt við til þessa. Það óheppilega fyrir hann er að ég er líka klárlega besti gaur sem hann hefur keppt við,” sagði Kolbeinn er bardaginn var fyrst settur á laggirnar.
Vigtunin fór fram fyrr í dag en þar þurfti þungavigtarmaðurinn auðvitað ekki að hafa neinar áhyggjur. Kolbeinn var 111,7 kg í vigtuninni og virkar í flottu formi.
Streymi á bardagann á að vera til staðar á morgun, laugardag, en við birtum nánari fregnir af því á morgun.