Atvinnuhnefaleikamaðurinn Kolbeinn Kristinsson (17 – 0) stigur inn í hringinn í fyrsta skipti á nýju ári þann 31. maí. Andstæðingurinn í þetta skiptið er Mike lehnis (8 – 0) og mun bardaginn fara fram í Nurnberg, Þýskalandi. Kolbeinn er á sautján bardaga sigurgöngu eftir gott ár í fyrra og er ennþá ósigraður.
Kolbeinn Kristinsson átti gott ár í fyrra þar sem hann landaði þremur sigrum með sannfærandi frammistöðu, síðast gegn Piotr Cwik sem dró sig úr bardaganum áður en önnur lota hófst. Kolbeinn hafði smellhitt Piotr með upphöggi sem varð til þess að Piotr nefbrotnaði og dró sig úr leik í kjölfarið. Allir andstæðingarnir hans Kolbeins gáfust upp fyrir honum í fyrra og er hann því spenntur að komast aftur inn í hringinn og halda sigurförinni áfram.
Bardaginn gegn Mike Lehnis er upp á GBU heimsmeistaratitilinn en Kolbeinn er nú þegar Baltic Union meistari. Með sigri í Þýskalandi fengi Kolbeinn nýtt belti og yrði þar með tvöfaldur þungavigtarmeistari. Sigurinn myndi einnig fleyta Kolbeini enn hærra á styrkleikalistanum yfir bestu þungavigtarmenn í heiminum en hann situr eins og er í 79. sæti listans og stefnir á fyrsta sætið.
Kolbeinn hefur á undanförnum misserum fengið mörg tilboð og staðið til boða að berjast víðsvegar um heiminn. Bardaginn við Mike varð fyrir valinu þar sem að hann er efnilegur í hringnum og örvhentur (e. Southpaw) í þokkabót. Þetta er mjög mikilvæg áskorun fyrir Kolbein sem myndi njóta góðs af keppnisreynslu gegn örvhentum andstæðingi á meðan hann færir sig upp styrkleikalistann.
Mike Lehnis er ósigraður sem atvinnumaður og hefur verið mjög virkur síðan hann hóf atvinnumennskuna árið 2022. Bardaginn milli hans og Kolbeins verður tólf lotur eins og venjan er á efsta stigi atvinnumennskunnar.
