spot_img
Wednesday, October 30, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaKolbeinn Kristinsson mætir Bosníumanni á laugardaginn

Kolbeinn Kristinsson mætir Bosníumanni á laugardaginn

Mynd: Baldur Kristjánsson.

Atvinnuboxarinn Kolbeinn Kristinsson fær sinn níunda atvinnubardaga á laugardaginn í Svíþjóð. Kolbeinn mætir þá Bosníumanni að nafni Jasmin Hasic.

Bardaginn fer fram á Nordic Fight Night bardagakvöldinu sem fram fer í Sundsvall laugardaginn 22. apríl. Hasic (8-3) er 29 ára rétthentur Bosníumaður sem hefur klárað fimm af átta sigrum sínum með rothöggi. Það er því ljóst að um hættulegan andstæðing er að ræða.

Kolbeinn (8-0) hefur unnið síðustu fjóra bardaga sína með rothöggi og var farið hungra í annan bardaga eftir að hafa ekkert barist síðan í nóvember. Eins og áður segir fer bardaginn fram á bardagakvöldi sem heitir Nordic Fight Night og fer fram í Sundsvall í Svíþjóð. Kvöldið er haldið af Sauerland Promotions sem er einn stærsti mótshaldarinn í boxheiminum og er aðalbardagi kvöldsins titilbardagi í þungavigt innan WBC sambandsins. Þar takast á sænski rotarinn Otto Wallin (17-0) og ítalski boxarinn Gianluca Mandras (12-4).

„Seinustu tveir andstæðingar áttu í raun ekkert erindi á móti mér og ég er búinn að segja við alla í mínu teymi að ég nenni ekki að fara á móti fleiri pappakössum. Ég er á þeim stað á mínum ferli að ég þarf að fá að boxa við almennilega andstæðinga. Helst menn sem eru hærra skrifaðir en ég. Jasmin Hasic er á pappírunum öflugri en þeir sem ég hef mætt áður og ég er ánægður með það, en ég sé þó ekki fyrir mér að hann sé að fara að valda mér miklum vandræðum,” segir Kolbeinn.

Kolbeinn, sem er kallaður „Ísbjörninn“ eða ‘The Icebear’ innan íþróttarinnar er sem stendur skráður sem 174. besti þungavigtarboxari veraldar hjá Boxrec.com sem er helsti gagnabanki hnefaleikaíþróttarinnar. Á listanum eru 1286 boxarar og tilheyrir hann því í efstu 10% allra boxara í þungavigtinni.

„Ég er að sjálfsögðu ánægður með að vera kominn inná topp tvö hundruð en ég ætla mér miklu hærra en það. Ég er ennþá ungur á mælikvarða íþróttarinnar og á nóg eftir á tankinum. Ég finn miklar bætingar á mér á milli bardaga. Ég er lánsamur með þjálfara og æfingafélaga og það er haldið virkilega vel utanum þau mál hjá mér,” segir hinn 28 ára Kolbeinn.

„Undangengnar vikur hef ég dvalið og æft á Álandseyjum með Robert Helenius vini mínum sem er einmitt metinn nr. 21 á styrkleikalistanum og þar sem mér gengur nú ekkert svo illa á móti honum þá er ég nú nokkuð viss um að ég eigi fullt erindi í að færast hratt upp þennan lista.”

Kolbeinn er ekki í neinum vafa um hvernig bardaginn fer á laugardaginn. „Hann kyssir strigann áður en bjallan glymur, alveg eins og seinustu fjórir sem ég hef keppt við. Um leið og ég lendi fyrstu hægri hendinni þá á hann eftir að fatta að hann langar ekkert að vera þarna og á eftir að leita að stystu mögulegu leiðinni út úr hringnum. Fyrsta lotan fer í þreyfingar og þá stilli ég miðið og tímasetningarnar. Ég rota hann svo í annarri lotu. Þið lásuð það fyrst hér.“

Það er nokkuð öruggt að hægt verði að kaupa sig inn á straum frá bardagakvöldinu. Sá hlekkur liggur ekki fyrir ennþá en nánari upplýsingar um viðburðinn má nálgast hér.

Að lokum má nefna að stutt heimildarmynd um Kolbein verður sýnd í haust en hér má sjá stiklu fyrir heimildarmyndina.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular