Boxararnir Kolbeinn Kristinsson og Valgerður Guðsteinsdóttir unnu bæði sína bardaga með yfirburðum fyrr í dag. Bardagarnir fóru fram í Svíþjóð en Valgerður er fyrsta íslenska konan sem keppir sem atvinnumaður í boxi.
Boxkeppnin kallast Rising Stars og fór fram í Stokkhólmi í dag. Valgerður var í fyrsta bardaga dagsins en hún mætti hinni sænsku Angelique Hernandez. Bardaginn fór fram í bantamvigt og var Valgerður gríðarlega einbeitt og mátti ekki sjá neinn taugatitring hjá henni í upphafi bardagans. Valgerður byrjaði mjög vel og sló andstæðinginn niður strax í 1. lotu. Næstu þrjár lotur voru líflegar en Valgerður naut yfirburða allan tímann. Allir dómararnir dæmdu Valgerði sigur.
„Ég var búin að fara yfir þessa stund svo oft í huganum að þegar ég steig í hringinn þá var þetta bara mjög kunnuglegt allt saman. Það var smá stress í mér en það var eiginlega bara gott. Það virkaði bara eins og ég væri með auka orku enda var ég búin að æfa alveg svakalega vel. Ég boxaði bara minn bardaga og ég fann fljótt að höggin mín voru að lenda og að ég var með stjórnina. Þetta er virkilega góð tilfinning. Frábært að vera búin að stíga þetta skref og núna bíð ég bara spennt eftir að fá næsta bardaga. Héðan verður ekki aftur snúið,“ segir Valgerður (1-0) er fram kemur í fréttatilkynningu.
Kolbeinn Kristinsson mætti Georgíumanninum Archil Gigolashvili og var hann í þriðja bardaga dagsins. Það var mikill stærðar- og faðmlengdarmunur á þeim, Kolbeini í vil, og nýtti hann sér það óspart. Kolbeinn notaði stunguna vel til að stýra bardaganum og lenti henni trekk í trekk.
Í 2. lotu lenti Kolbeinn svo föstu skrokkhöggi með hægri og féll Georgíumaðurinn niður á annað hné. Dómarinn taldi yfir honum en Gigolashvili stóð ekki upp fyrr en dómarinn hafði blásið bardagann af. Bardaginn endaði því með tæknilegu rothöggi í 2. lotu, Kolbeini (8-0) í vil.
Kolbeinn heldur því sigurgöngu sinni áfram og er nokkuð ljós að hróður hans fer hratt vaxandi í boxheiminum.
„Þetta var þannig bardagi að ég fann að ég þurfti ekkert að flýta mér eða taka einhverja sénsa. Í fyrstu lotunni lenti ég hverri stungunni á fætur annarri en hann náði að hlaupa undan hægri höndinni þegar ég lét hana fylgja á eftir. Ég og þjálfararnir mínir vorum búnir að leggja upp það plan að vinna með vinstri stunguna og nýta hana til að stilla upp fyrir skrokkhögg og sú áætlun gekk óaðfinnanlega upp því strax þegar ég lenti fyrsta skrokkhögginu þá tók hann hné og lét dómarann telja sig út úr bardaganum. Hann vildi greinilega ekki meira,“ sagði Kolbeinn eftir bardagann.