Thursday, February 22, 2024
HomeForsíðaKonur keppa um að verða fyrsti strávigtarmeistari UFC í TUF 20

Konur keppa um að verða fyrsti strávigtarmeistari UFC í TUF 20

Carla Esparza vs Bec Hyatt
Bec Hyatt lendir höggi á Carla Esparza í strávigtartitilbardaga í Invicta FC í janúar. (Mynd: Esther Lin / Invicta Fighting Championships)

Stórar fréttir bárust frá UFC í gær. Fyrir nokkru tilkynnti Dana White, forseti UFC, að UFC myndi bæta við  strávigtardeild kvenna og í gær var tilkynnt að 11 konur úr Invicta FC munu koma yfir í UFC og keppa í 20. þáttaröð raunveruleikaþáttarins The Ultimate Fighter (eða TUF) í maí. Sigurvegarinn í keppninni verður fyrsti strávigtarmeistari UFC.

Þetta verður í fyrsta sinn sem eingöngu konur keppa í TUF. Innkoma Invicta kvennanna mun því fá verðskuldaða athygli og umfjöllun, en margar af bestu bardgakonum heims keppa í strávigt.

Strávigt er 115 punda þyngdarflokkur, flokkurinn fyrir neðan fluguvigt, sem er núna minnsti þyngdarflokkurinn í UFC. Enn sem komið er er eingöngu karladeild í fluguvigt og til að byrja með verður bara kvennadeild í strávigt.

Þetta var tilkynnt á Twitter-síðu UFC í gær.

Bardagakonurnar 11 sem koma frá Invicta eru: Carla Esparza, Claudia Gadelha, Felice Herrig, Joanne Calderwood, Tecia Torres, Rose Namajunas, Bec Hyatt, Emily Kagan, Alex Chambers, Julianna Lima, og Paige Van Zant.

Það er engin spurning að þessar konur eiga eftir að vera spennandi viðbót við UFC og að fleiri munu fylgja í kjölfarið, enda erfitt að halda 11 manna mót útsláttarmót. Það er mikið fagnaðarefni fyrir bardagaáhugamenn að UFC styrki á þennan hátt stöðu sína sem vettvangur bestu bardagamanna í heimi, í öllum flokkum og af báðum kynjum.

Sitt kann hverjum að sýnast um að láta meistarann í nýrri deild ráðast í raunveruleikaþætti, en það verður að hafa í huga að þessar bardagakonur eru í atvinnumenn í fremsta flokki í Invicta, en ekki bardagamenn sem eru að reyna að sanna sig, eins og venjan er í TUF. Þó Carla Esparza sé núverandi strávigtarmeistari Invicta þá hefur henni ekki tekist að festa sig í sessi sem sú besta í sínum flokki svo það er full ástæða til að láta hana sanna hvað í sér býr gegn bestu strávigtarkonum heims.

Á þennan hátt tekst UFC að kynna stóran hóp bardagakvenna fyrir nýjum áhorfendahóp í einu auk þess sem þeir vonast til að auka vinsældir TUF, sem hefur fengið eins mikið áhorf og vonast hefur verið eftir.

Oddur Freyr Þorsteinsson
Oddur Freyr Þorsteinsson
Greinahöfundur á MMAFréttir.is
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular