0

Læknirinn sem stöðvaði Nate Diaz bardagann fær hótanir

Nate Diaz tapaði fyrir Jorge Masvidal á UFC 244 um síðustu helgi. Áður en fjórða lota hófst stöðvaði læknirinn bardagann og hefur honum verið hótað fyrir að taka þessa erfiðu ákvörðun.

Læknirinn Dr. Nitin K. Sethi leist illa á blikuna á laugardaginn í aðalbardaga kvöldsins. Skurðurinn á Nate Diaz var orðinn of slæmur að hans mati og ákvað hann því að stöðva bardagann en aðdáendur voru vægast sagt ósáttir með þessa ákvörðun hans. Nate Diaz var einnig mjög fúll yfir ákvörðun læknisins og vildi fá að halda áfram. Dana White var í fyrstu ósáttur en eftir að hafa séð skurðinn nálægt var hann ekki lengur á sama máli.

Sethi hefur óskað eftir lögregluvernd þar sem aðdáendur hafa persónulega hótað honum, póstað á netinu fölsuðum umsögnum um starf hans sem læknir og hringt á skrifstofu hans og urðað yfir hann.

„Ég er mjög góður taugasérfræðingur og mjög góður læknir. Það er búið að vera að hringja á skrifstofu mína og öskra á starfsfólkið mitt og hóta mér og ég óttast um öryggi mitt,“ segir Seth í viðtali við MMA Fighting.

„Ég tók hlutlausa ákvörðun byggða á mati mínu á bardagamanninum. Það var ekki bara skurðurinn heldur heildarmat mitt á bardagamanninum og hvernig bardaginn var að spilast. Um leið og ég vissi að ég gæti ekki tryggt öryggi hans og heilsu varð ég að taka þessa erfiðu ákvörðun.“

„Um leið og ég hætti að vera hlutlaus og fer að hugsa um hvað UFC, aðdáendur og fjölmiðlar hugsa er ég ekki lengur læknir á staðnum og er ekki lengur að sinna starfi mínu. Ég verð að vera hlutlaus og taka hlutlausar ákvarðanir.“

„Áður en þriðja lota byrjaði gat ég ekki tryggt öryggi hans og heilsu. Þú verður að gera það sem gera þarf til að tryggja öryggi keppenda ef þú ert í vafa. Heilsa hans og öryggi eru í fyrsta sæti.“

Sethi tekur allri gagnrýni fagnandi og er tilbúinn að hlusta á þá sem töldu að bardaginn hefði verið stöðvaður of snemma. Þegar gagnrýnin felst í hótunum og áreitni dregur hann hins vegar línuna.

„Ég ber mikla virðingu fyrir Mr. Diaz og er hann bardagamaður sem hættir aldrei. Hann vildi ekki hætta og sagði við mig að hann hefði viljað halda áfram. Ég kann að meta það. Það eru ekki allir sammála hvenær eigi að stöðva bardaga.“

Pétur Marinó Jónsson

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.