spot_img
Wednesday, December 18, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentLeikgreining á Glover Teixeira gegn Thiago Santos

Leikgreining á Glover Teixeira gegn Thiago Santos

Þeir Thiago Santos og Glover Teixeira mætast á laugardagskvöldið í mikilvægum bardaga í léttþungavigtinni. Þyngdarflokkurinn er galopinn eftir að sigursælasti meistari UFC fór úr þyngdarflokknum.

Glover Teixeira og Thiago Santos eiga báðir kröfu í titilbardaga í léttþungavigt með sigri um helgina. Bardaginn er áhugaverður kontrast á stílum þar sem annar er nánast aðeins boxari en sækir mikið í fellur á meðan hinn notar mikið spörk og eyðir sem minnstum tíma á gólfinu.

Standandi viðureign

Teixeira labbar menn niður en skortir hæfni til að skera búrið. Hann nær oft að króa þá af á endanum og hefur góðan vinstri krók sem refsar mönnum fyrir að hringsóla til vinstri við sig. Hann skortir hins vegar vopn til að hindra menn frá því að hringsóla einfaldlega til hægri við hann. Þetta gerði Nikita Krylov vel gegn Teixeira sem endaði loksins í annarri lotu á því að reyna að hægja á honum með sparki í skrokkinn þegar Krylov fór út til hægri.

Þessi vankanti í vopnabúri Teixeira er ekki gott tákn gegn Santos sem er mjög duglegur að hringsóla þegar hann er kominn upp við búrið. Þá skortir Teixeira leið til að loka fjarlægðinni almennilega en yfirleitt bíður hann eftir höggi frá andstæðingnum og beygir sig fram. Þaðan gerir Teixeira yfirleitt eitt af þrennu (sjá mynd 1): Hann setur höfuðið inn fyrir högg anstæðingsins og kastar yfirhandar hægri og vinstri krók á eftir. Hann beygir sig alveg fram og sækir fellu á lappir andstæðingsins. Eða hann setur höfuðið út fyrir högg andstæðingsins og hleður í upphögg. Þessa tilhneigingu Teixeira að setja höfuðið fram hafa margir andstæðingar hans lesið og notað sem opnun fyrir upphögg og hné.

Mynd 1. a) Teixeira slippar innfyrir og lendir yfirhandar hægri. b) Teixeira beygir sig alveg niður og sækir í fellu. c) Teixeira slippar út fyrir og sækir upphögg.

Santos gefur yfirleitt strax miðjuna og fer að hringsóla. Hann skiptir reglulega um fótastöður og hringsólar í báðar áttir. Úr mikilli fjarlægð notar Santos mikið spörk í fætur og er duglegur að nota hliðarspark með fremri fæti framan á hné andstæðinga. Í síðasta bardaga sínum gerði Santos vel að sparka í fætur langríkjandi meistarans Jon Jones. Þegar fjarlægðin minnkar byrjar Santos að sækja meira í kraftspörk og notar báða fætur jafnt en reynir að sparka með aftari fæti.

Úr miðlungsfjarlægð virðist Santos líða best og notar þar kraftspörkin sín í bland við beina aftari helst. Ef andstæðingurinn pressar of hart inn á Santos notar hann öflugan „check hook“ og fylgir því stundum eftir með beinni aftari. Ef að andstæðingurinn bakkar hratt hleypur Santos á eftir án þess að velta mikið fyrir sér fótastöðu sinni og kýlir leiftur hratt en sparkar ef andstæðingurinn kemst of langt í burtu.

Santos setur mikinn kraft í allt sem hann gerir sem gerir það að verkum að hann missir oft jafnvægið í höggunum og spörkunum. Það gæti komið sér illa ef hann hendir sér á bakið gegn Teixeira sem hefur meira sótt í glímuna í síðustu bardögum.

Mynd 2. Santos notar beittan „check hook“ og beina vinstri á eftir til að rota meistarann Jan Blachowicz.

Mynd 3. Santos hleypur á eftir Anders með krosshöggi og höfuðsparki með aftari fæti.

Fellur

Teixeira sækir mikið í fellur en hefur ekki haft erindi sem erfiði í seinustu bardögum. Hann hefur aðeins lent fjórum fellum af 23 tilraunum í seinustu fimm bardögum. Hann sækir mikið í fæturna en er ekki góður þar og það gæti verið hættulegt gegn Santos sem hefur notað grimma olnboga gegn andstæðingum sem eru of lengi að sækja í fæturna á honum.

Teixeira er aftur á móti góður í að fella andstæðinga með taki á efri líkamanum. Ef Teixeira nær báðum höndunum í „underhook“ stöðu færir hann sig á hlið við þá og setur fót fyrir aftan lærið á þeim og hallar sér þangað. Ef þeir ná að stíga aftur með hinn fótinn gerir hann það sama á hina hliðina. Þetta gæti reynst öflugt vopn gegn Santos sem er mjög góður að koma sér upp ef andstæðingurinn heldur í fæturna en gæti lent í vandræðum með fellur á efri líkamann.

Santos reynir sjálfur sárasjaldan fellur en er með ágætis felluvörn og hefur hrist af sér níu af seinustu 15 fellu tilraunum. Hann ýtir mjöðmunum aftur af miklum krafti, sækir „underhook“ og brýtur sér leið út. Ef hann er of seinn til að ná því rammar hann yfirleitt ofan á herðar andstæðingsins, tekur „overhook“ og kastar mjöðmunum aftur. Ef allt annað bregst reynir Santos að nota „front headlock“ til að stjórna efri líkama andstæðingsins meðan hann kemur mjöðmunum frá.

Mynd 4. a) Teixeira tekur Cirkunov niður með því að stjórna efri líkamanum og bregða síðan fótunum fyrir hann. b) Santos snýr fyrst burt til að verjast fellunni en síðan aftur að og notar ramma á hálsinn á Jones til að koma mjöðmunum sínum aftur

Í gólfinu

Í gólfinu er Teixeira með mikla pressu og notar klassískt brasilískt jiu-jitsu. Hann stjórnar efri líkamanum með þéttum gripum og lyftir mjöðmunum til að komast í „half guard“. Þar stoppar hann stundum til að lenda höggum en endar alltaf á því að ýta ytra hnénu niður og stíga í „mount“. Þaðan lendir Teixeira höggum og setur upp hengingu en oft snúa andstæðingarnir sér á magann og þá reynir Teixeira að hengja þá en klárar bardagann með höggum ef hengingin er ekki í boði.

Ef Santos lendir í gólfinu kemur hann sér strax upp á hendurnar og heldur sér uppi með annarri hendi en myndar ramma með hinni á herðar andstæðingsins. Þaðan dregur hann neðri fótinn undir sig og kemur sér þannig upp. Ef andstæðingurinn pressar á Santos bakkar hann einfaldlega á höndunum þar til hann kemst upp við búrið og ef hann kemst ekki upp þar notar hann olnboga til að fá andstæðinginn af mjöðmunum á sér. Santos hefur þó fórnað stöðu upp við búrið og gefið á sér bakið til að komast upp ef andstæðingurinn fer að stíga yfir lappirnar á honum. Þetta gæti reynst hættulegt gegn Teixeira sem er bæði góður að hengja og lenda þungum höggum af bakinu á andstæðingum sínum.

Mynd 5. a) Teixeira kemst framhjá fótunum og tekur bakið á Krylov þegar hann snýr sér yfir á hnén.
b) Santos setur ramma milli sín og Anders og notar hann til að koma fótunum sínum aftur undir sig.

Hvað ræður úrslitum?

Glover Teixeira er orðinn gamall og hægur. Hans sterkasta vopn er samt ennþá hversu mikill harðhaus hann er. Hann hefur lifað af ótrúlegustu barsmíðar og það þreytt andstæðinga hans. Hann hefur þá oft byrjað að lenda þungu sveiflunum sínum eða náð þeim niður og þaðan unnið bardagann. Thiago Santos hefur oft byrjað af miklum krafti og ef hann nær ekki að klára Teixeira snemma gæti hann lent í sömu vandræðum og fyrri andstæðingar Teixeira. Þá er ennþá spurning hvernig hnéð á Santos er eftir að hann margsleit það gegn Jones og hversu mikið hann þorir að sparka með hægri. Teixeira byrjaði að nota kálfaspörk í síðasta bardaga og gæti miðað nokkrum spörkum á hné Santos.

Santos hefur gríðarlegan sprengikraft og þarf Teixeira mikið að passa sig á bæði krókunum hans og spörkunum. Ef Teixeira reynir of mikið að halda mjöðmunum á Santos upp við búrið er Santos líka með hrikalega öfluga olnboga eins og Eryk Anders komst að. Santos er líklegur til að hægja enn meira á gamla manninum með því að sparka í fæturna á honum þar til Teixeira er hættur að geta hreyft sig. Þá byrjar Santos líklega að fleygja beinum aftari höggum með háspörkum. Ef Teixeira verður gráðugur og reynir að hlaupa inn gæti hann lent í því sama og ríkjandi meistarinn, Jan Blachowicz, lenti í þegar þeir mættust 2019.

Sama hvernig fer er þetta einn af þessum bardögum sem við getum næstum því lofað að verði flugeldasprengja.

spot_img
spot_img
spot_img
Brynjólfur Ingvarsson
Brynjólfur Ingvarsson
- Brúnt belti í brasilísku jiu jitsu - Keppnisreynsla í MMA - Keppnisreynsla í hnefaleikum - Svart belti í Taekwondo
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular