spot_img
Wednesday, December 18, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentLeikgreining á titilbardögum helgarinnar

Leikgreining á titilbardögum helgarinnar

Um helgina verður barist um báða fluguvigtartitlana í UFC. Meistararnir fá ólíkar áskoranir og kíkjum við á orrustur helgarinnar.

Í aðalbardaga kvöldsins reynir Deiveson Figueiredo að verja beltið sitt gegn glímumanninum Alex Perez, sem líður þó vel standandi og er jafn líklegur að klára bardagann með höggum eins og uppgjafartaki. Í næstsíðasta bardaga kvöldsins berst meistarinn Valentina Shevchenko við Jennifer Maia sem er bæði hnefaleikakona og svartbeltingur í brasilísku jiu-jitsu. Báðir meistararnir búa þó yfir miklum sprengikraft og geta endað bardagana á svipstundu og því á brattann að sækja fyrir áskorendurna.

Deiveson Figueiredo gegn Alex Perez

Aðalbardagi kvöldsins er um fluguvigtartitil karla og er líklegur til að vera hraður og skemmtilegur. Báðir bardagamenn nota mikla pressu en nota hana þó á allt öðruvísi hátt. Perez notar pressuna til að króa menn af og lenda samsetningu af höggum á meðan Figueiredo notar pressuna til að fá andstæðinginn til að ráðast á sig og þá refsar hann þeim með höggi með aftari hendi.

Perez notar lágspörk úr fjarlægð til að fá andstæðinginn til að vera kyrrstæður en þá setur Perez hausinn niður og notar samsetningu af krókum og upphöggum til að reyna að gera skaða. Hann gerir vel að blanda saman höggum í skrokkinn og höfuðið. Hann notar kyrrsetningu andstæðingsins einnig til að sækja í fellu en er frekar fyrirsjáanlegur þegar hann skýtur inn og gerir það úr nokkurri fjarlægð.

Figueiredo aftur á móti gerir lítið úr fjarlægð annað en að pressa, en í seinasta bardaga sínum notaði hann reyndar góð framspörk í skrokkinn. Þegar andstæðingurinn stöðvar notar Figueiredo öflugt högg með aftari en ef andstæðingurinn lokar fjarlægðinni notar Figueiredo oft olnboga til að svara þeim. Ef andstæðingurinn kemur hratt fram og Figueiredo sér tækifæri skýtur hann oft í fellu sem gagnárás.

Þegar Perez nær andstæðingum sínum niður er hann oft sáttur að sitja í „guardinu“ þeirra eða „halfguard“ og nota hamarshögg til að reyna að klára bardagann. Í næstsíðasta bardaga sínum náði hann svakalegri hengingu úr „halfguardi“ andstæðings síns sem sýnir bæði hversu sterkur hann er og að hann hefur uppgjafartök sem vopn auk högga.

Figueiredo notar mikinn sprengikraft til að standa upp af botninum ef hann fær pláss og gefur oft annan fótinn á sér til að standa upp og notar þá „limp leg“ til að sleppa alveg. Ef andstæðingurinn fer í lokaða „guardið“ hjá honum notar hann högg og olnboga frá gólfinu. Hann sækir lítið í uppgjafartök nema þegar verið er að taka hann niður og finnur yfirleitt opnun fyrir það í „scramblinu“.

Figueiredo notar þung högg ef hann nær andstæðingum sínum niður en gefur oft upp stöðu til að búa til pláss fyrir höggin sín. Hann stekkur á uppgjafartök ef þau eru í boði en virðist hvorki sækjast mikið í að bæta stöðu sína né sækja uppgjafartök. Hann tekur yfirleitt það sem andstæðingurinn gefur honum hverju sinni. Perez hefur nánast ekkert barist frá botninum í UFC og í eina skiptið sem hann var tekinn niður kom hann sér á hnén og sótti í fellu.

Líklegt útspil bardagans

Til að spá fyrir um hvernig bardaginn verður er best að brjóta hann niður í þrjár fjarlægðir standandi; löng fjarlægð, milli fjarlægð og lítil fjarlægð.

Í langri fjarlægð er Perez líklegur til að vera ráðandi og nota kálfaspörk til að hægja á hreyfingu meistarans. Perez er með mjög góð kálfaspörk sem hann notaði til að enda síðasta bardaga sinn. Hann beitir stungu til að halda fjarlægð og sparkar síðan af alefli ofarlega á kálfann eða í hnéð. Þar sem meistarinn er mjög hreyfanlegur ætti Perez að notfæra sér þetta vopn eins og hann getur.

Figueiredo hefur þó gert vel þegar hann hefur lent í að andstæðingar noti kálfasparkið gegn sér og dregið fótinn á sér til baka, pressað á andstæðinginn þannig að hann hafi ekki pláss til að sparka eða refsað andstæðingnum með aftari hendi. Hann skiptir einnig reglulega um fótastöðu og gæti notfært sér það ef annar fóturinn hættir að þola spörkin. Líklegt er að bardaginn ráðist að miklu leyti í þessari fjarlægð og þá spurningin hvort Perez fær að nota spörkin óáreittur eða hvort Figueiredo geti refsað honum nóg til að Perez gefist upp á þeim.

Mynd 1. a) Perez er með góð kálfaspörk sem hann notar stunguna til að finna fjarlægðina fyrir. b) Figueiredo ver sig þó vel með því að draga fótinn til baka eða c) nota gagnárás til að draga úr vilja andstæðingsins til að sparka.

Í millifjarlægð er líklegt að meistarinn verði ríkjandi. Þar sem Figueiredo er með lengri faðm en Perez og notar lengri högg er hann líklegri til að lenda úr millifjarlægðinni. Þó að Figueiredo noti pressu sjálfur gefur hann oft eftir og hleypur um fyrir aftan svörtu línuna. Líklega lætur hann Perez eftir að pressa og reynir að fá hann til að labba á þungt högg með aftari hendi.

Figueiredo notar fremri hendina aðallega til að mæla fjarlægð og hefur hana oft útrétta til að finna þegar andstæðingurinn er kominn í þá fjarlægð sem Figueiredo vill til að lenda aftari hendinni sinni. Perez skýtur oft í fellu úr millifjarlægðinni en þar sem andstæðingurinn er ekki að koma á móti honum er tímasetningin ekki góð og þarf Perez að reiða sig á styrk sinn og glímugetu.

Mynd 2. a) Figueiredo stjórnar fjarlægðinni með fremri höndinni og tímasetur þungt högg með hægri hendi. b) Perez teygir sig í fremri fót andstæðingsins til að reyna fellu en gerir lítið til að setja upp felluna eða tímasetja hana.

Í lítilli fjarlægð verður bardaginn líklega stál í stál, þar sem Figueiredo notar öfluga olnboga en Perez samsetningar af krókum í skrokk og höfuð. Þar sem Perez hefur mjaðmirnar mjög aftarlega og setur hausinn niður þegar hann byrjar fléttur gæti komið sér vel fyrir Figueiredo að nota fremri handar uppolnboga líkt og hann hefur gert nokkrum sinnum áður.

Meistarinn þarf að passa sig á að festast ekki upp við búrið því þar gæti hann verið tekinn niður. Perez sækir oft í fellur, jafnvel ef honum er að ganga vel standandi og hann hefur bakgrunn í ólympískri glímu. Ef Figueiredo lendir í gólfinu gæti það boðað vandræði þar sem Perez notar helst stöður sem gera andstæðingnum erfitt að standa upp eins og „closed guard“ og „half guard“ og Figueiredo hefur verið haldið þar áður. Figueiredo notar þó öll tækifæri til að koma sér aftur á fætur og er erfitt að ná honum niður fyrir. Þá hefur Perez aðeins tekist að klára 50% þeirra fella sem hann hefur sótt og því á brattann að sækja vilji hann ná fellunni.

Mynd 3. a) Perez setur höfuðið langt fyrir framan þyngdarpunktinn (rauða línan) þegar hann kemst nógu nálægt til að lenda krókum. Figueiredo hefur góð vopn sem hann getur notað við þessu eins og b) upphögg með aftari hendi og c) uppolnboga með fremri.

Valentina Shevchenko gegn Jennifer Maia

Í fyrri titilbardaga kvöldsins mætast þær Valentina Shevchenko og Jennifer Maia. Báðar eru þær færar bæði standandi og í gólfinu en hafa þó mjög mismunandi stíl. Maia er hnefaleikakona, með svart belti í brasilísku jiu jitsu og sýndi í sínum síðasta bardaga hversu hættuleg hún er af bakinu. Shevchenko er Muay Thai bardagakona sem hefur frábærar fellur sem hún notar óspart.

Jennifer Maia notar klassískar hnefaleikafléttur í bland við spörk með fremri fæti. Hún hefur góðan vinstri krók og beina hægri og notar stungu til að mæla fjarlægð eða setja upp hægri hendina. Hún hreyfir höfuðið vel og er með ágætis fótavinnu en þegar hún ætlar að sækja fer hún einungis fram og aftur í beinni línu og hausinn festist á miðlínunni. Þetta kemur sér ekki vel gegn Shevchenko sem er með frábærar gagnárásir. Þrátt fyrir að vera með svart belti í brasilísku jiu-jitsu sækir Maia ekki oft fellur.

Valentina Shevchenko virðist standa langtum framar en aðrar konur í hennar þyngdarflokki. Hún á það til að eiga ansi leiðinlega bardaga þar sem hún sækir nánast eingöngu í gagnárásir. Oft stendur hún kyrr og bíður eftir að andstæðingurinn komi nógu nálægt og þá stekkur hún fram með samsetningu af beinum höggum sem endar oftast á sparki. Þannig setur Shevchenko upp háspark með því að lenda þungum skrokkspörkum eftir að hafa náð höndum andstæðingsins upp með höggum. Ef andstæðingurinn heldur fjarlægð notar Shevchenko fremri fótar spörk í læri til að skora stig og á sama tíma hægja á andstæðingnum. Shevchenko notar þó einnig flottari spörk til að skora stig og er með frábært snúningsspark sem dæmi.

Ef að andstæðingur Shevchenko er að lenda höggum á hana standandi notar hún oft vel tímasettar fellur til að færa bardagann í gólfið. Shevchenko er með mjög góðar fellur þar sem hún nær stjórn á efri líkama andstæðingsins og dregur andstæðinginn þannig niður.

Shevchenko reynir síðan iðullega að komast framhjá fótum andstæðingsins í gólfinu og í „mounted crucifix“ þar sem hún notar fæturna sína til að stjórna annarri hönd andstæðingsins, höfuðið á sér og aðra hendina til að stjórna hinni hönd andstæðingsins og hefur þá eina hönd lausa sjálf til að lenda höggum og olnbogum.

Jennifer Maia er stór og sterk fyrir þyngdarflokkinn og hefur ágætis felluvörn. Maia er góð af bakinu ef hún lendir undir og reynir yfirleitt að standa upp fljótt eða ná stjórn á andstæðingnum sínum af bakinu. Hún stjórnar höndum andstæðingsins vel úr „closed guard“ og hefur lappirnar sínar ofarlega til að brjóta niður líkamsstöðu andstæðingsins. Ef andstæðingurinn réttir síðan úr sér sækir hún armlás á hendurnar en getur annars sett up hengingu með fótunum.

Líklegt útspil bardagans

Líklegt útspil þessa bardaga er nokkuð einfalt standandi þar sem sóknir þeirra passa vel við hver aðra. Líklega leyfir Shevchenko Maia að pressa og notar lágspörk til að minnka hreyfigetu hennar. Maia mun að öllum líkindum hoppa nokkrum sinnum í kringum hana, kannski nota lágspark sjálf áður en hún sækir í beina línu með höggum. Shevchenko er þá líkleg til að svara áður en fléttan klárast, elta Maia með beinum höggum og enda á sparki. Þegar líður á er líklegt að Maia verði sókndjarfari og þá opnist fyrir fellu hjá Shevchenko. Þá gæti hún opnað sig fyrir háspörkunum ef spörkin í skrokkinn eru farin að bíta á hana.

Mynd 4. a) Shevchenko notar spörkin í skrokkinn til að fá andstæðinginn til að lækka hendurnar b) og notar opnunina sem þá myndast til að lenda sparki í höfuðið.

Erfiðara er að segja fyrir um útspil bardagans í gólfinu. Valentina mun líklega lenda olnbogum úr „guardinu“ hjá Maia og reyna að komast framhjá fótunum en Maia mun gera það erfitt og reyna að stjórna efri líkama Shevchenko. Þegar Shevchenko réttir síðan úr sér til að opna fæturna á Maia eða lenda þyngri höggum er líklegt að Maia noti plássið til að koma sér á fætur aftur. Þó gæti líka verið að Shevchenko haldi sér frekar öruggri í „guardinu“ hjá Maia þar til dómarinn skipar þeim að standa upp.

Mynd 5. (T.v.) Shevchenko notar tvöfaldan „underhook“ til að stjórna andstæðingnum og fella hana yfir hægri fótinn á sér. Í gólfinu notar hún síðan „crucifix“ stöðuna til að lenda olnbogum á andstæðinginn.
(T.h.) Maia stjórnar líkamsstöðu andstæðingsins vel með því að hafa lappirnar hátt á bakinu á henni. Hún stjórnar höndum andstæðingsins og sækir í armlás þegar hann réttir úr sér.

Að lokum þarf að taka tillit til þess að Maia hefur ekki barist fimm lotu bardaga í þrjú ár á meðan að Shevchenko hefur nánast eingöngu barist í titilbardögum seinustu þrjú árin. Maia hefur einnig nokkrum sinnum ekki náð þyngd fyrir bardaga og því niðurskurðurinn greinilega erfiður. Því er líklegt að Shevchenko nái að þreyta hana þegar líður á bardagann, bæði með fellum og góðum spörkum í skrokkinn. Það verður því á brattann að sækja fyrir Maia ef bardaginn dregst í fjórðu og fimmtu lotu.

spot_img
spot_img
spot_img
Brynjólfur Ingvarsson
Brynjólfur Ingvarsson
- Brúnt belti í brasilísku jiu jitsu - Keppnisreynsla í MMA - Keppnisreynsla í hnefaleikum - Svart belti í Taekwondo
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular