Thursday, September 19, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentLeikgreining: Oliveira vs. Chandler

Leikgreining: Oliveira vs. Chandler

Í titilbardaga helgarinnar mætast Charles Oliveira og Michael Chandler um léttvigtarbeltið. Beltið hefur verið laust síðan meistarinn Khabib Nurmagomedov lét hanskana á hilluna.

Charles Oliveira er með bakgrunn sem gólfglímumaður en hefur undanfarið sýnt framfarir sem gera hann álíka hættulegan standandi og í gólfinu. Hann skilur sig frá öðrum góðum glímumönnum með því að gera mikið af sinni bestu vinnu af bakinu. Í síðasta bardaga sínum sýndi hann einnig góðar fellur gegn sterkum glímumanni (Tony Ferguson).

Michael Chandler kemur úr bandarísku háskólaglímunni en er gríðarlega höggþungur með báðum höndum og hefur um helmingur sigra hans komið eftir rothögg.

Oliveira er með góð framspörk sem hann notar vel í bland við góða stungu og lágspörk. Hann hefur oft verið fórnarlamb þess að brotna undan pressu og virðist hans svar við þessu vera orðið að nota þunga pressu sjálfur. Hann berst vel í öllum fjarlægðum en virðist oft reiða sig á hökuna sem vörn í miðlungs fjarlægð sem er hættulegt gegn jafn höggþungum andstæðingi og Chandler.

Chandler hefur frekar stuttan faðm en notar mikla pressu með gabbhreyfingum til að fá svör frá andstæðingum sínum sem hann getur notað til að loka fjarlægðinni. Chandler er léttur á fæti og getur lokað fjarlægð með gríðarlegum hraða. Þannig nær hann oft að lenda hægri höggi áður en andstæðingurinn nær að svara fjarlægðarlokuninni (sjá mynd 1). Hann hefur einnig góðan vinstri krók sem hann setur oft upp með hægri skrokkhöggi (sjá mynd 2).

Mynd 1

a) Chandler stígur djúpt og kemst inn fyrir fremri hönd Outlaw sem reynir að svara með „check hook”. b) Chandler lendir beinni hægri á hökuna áður en c) Outlaw klárar krókinn og d)&e) slær Outlaw niður.

Mynd 2

a)&b) Chandler stígur djúpt inn og lendir beinni hægri í skrokkinn og í bæði skiptin hringsólar Hooker út til vinstri fyrir Chandler. c) Chandler stígur því aftur djúpt með hægri í skrokkinn en í þetta skiptið d) fylgir hann skrokkhögginu með því að stíga inn með vinstri krók og e) slær Hooker niður.

Oliveira hefur sýnt góðar fellur en hann sækir oft í frekar stórar fellur sem krefjast mikillar orku (sjá mynd 3). Chandler hefur þó sennilega yfirhöndina þegar kemur að fellum en hann hefur reitt sig á bakgrunn sinn sem háskólaglímumaður í gegnum ferilinn.

Mynd 3

a) Oliveira nær „bodylock” á Ferguson og ýtir honum upp við búrið. b) Ferguson reynir að búa til pláss á milli mjaðmanna þeirra með fætinum á sér en c) Oliveira stígur inn, lyftir Ferguson upp og d) skellir honum á bakið.

Ef bardaginn fer í gólfið hefur Oliveira aftur móti yfirhöndina og skiptir þá litlu hvort hann lendir undir eða ofan á. Chandler mun þó frekar reyna að lenda ofan á fari bardaginn í gólfið enda eru meiri líkur þar að hann geti losað sig frá löngu útlimum Oliveira þar og nái að standa upp.

Líklegt útspil bardagans

Í langri fjarlægð hefur Oliveira yfirhöndina en þar nýtast góð spörk hans og stunga vel. Hann hefur þó ekki sýnt mikið af gabbhreyfingum hingað til og þarf því að hafa áhyggjur af svörum Chandler við stungunni. Úr langri fjarlægð nýtast gabbhreyfingar Chandler vel og getur hann nýtt þær til að tímasetja hvenær hann lokar fjarlægðinni. Báðir munu sennilega reyna að taka yfir miðjuna og pressa hinn upp við búrið.

Í miðlungs fjarlægð gerir Chandler sína bestu vinnu standandi með gríðarlega hraðri hægri hendi, bæði í skrokk og höfuð, og vinstri krók. Oliveira notar „check hook“, ramma og berst um handastöðu (e. handfighting) í miðlungsfjarlægð til að setja upp „collar tie“ þaðan sem hann lendir hnjám og hægri upphöggi (sjá mynd 4). Oliveira þarf þó að vera varkár með krókinn til að Chandler komist ekki inn fyrir krókinn með hægri (sjá mynd 1). Oliveira endar oft samsetningar í miðlungs fjarlægð með lágspörkum. Lágspörkin munu líklega nýtast vel gegn Chandler en hann hefur áður átt í vandræðum með þau og gætu þau hægt á pressunni hans.

Mynd 4

a) Oliveira „slippar“ út fyrir stungu Lee og b) lendir „check hook”. c) Í stað þess að taka hendina til baka grípur Oliveira “collar tie” um höfuð Lee með vinstri hönd og d) kýlir upphögg með hægri.

Oliveira mun líklega vera fyrri til að sækja fellu og gæti verið að hann noti tilraunina til að draga Chandler í gólfið þótt hann lendi undir eins og hann gerði gegn Kevin Lee (sjá mynd 5). Þaðan mun hann festa sig við Chandler og sækja í hvað sem hendi er næst, armlás eða hengingu ef Chandler er á hnjánum en fótalás ef Chandler stendur upp. Líklega mun Chandler reyna að halda sig á hnjánum í „guardi” Oliveira og ýta Oliveira upp við búrið og hægja á sóknum hans þar. Þaðan getur hann lent stöku höggum án þess að setja sig í mikla hættu á að lenda í uppgjafartaki.

Mynd 5

a) Oliveira sækir í „double leg” fellu en b) breytir henni í „single leg” þegar Lee nær að verjast fyrstu sókninni. c) Oliveira nær Lee upp við búrið og stígur fyrir aftan hann með grip á mjöðm og læri, og d) snýr honum af búrinu en e) lendir undir og fer strax að sækja í uppgjafartök.

Það verður spennandi að fylgjast með hvernig bardaginn þróast þegar líður á en báðir bardagamenn hafa orðið þreyttir þegar líður á bardaga og báðir sækja mikið í skrokk andstæðingsins. Því er spurningin hvort skrokkhögg Chandler nái að brjóta Oliveira og stöðvi lengstu virku sigurgöngu í þyngdarflokknum, bætandi öðru belti við safn Chandlers. Eða hvort framspörk Oliveira nái að pirra Chandler þar til hann gerir mistök og við sjáum Oliveira loks halda á beltinu eins og margir bjuggust við þegar að hann steig inn í búrið í fyrsta sinn fyrir meira en áratug síðan.

Í mest spennandi þyngdarflokki UFC er þetta án efa einn besti bardagi sem hægt var að setja saman. Hér mætast stílar sem skarast algjörlega á við hvorn annan og gæti bardaginn endað snögglega eða spilast út yfir allar loturnar og verður þá áhugavert að sjá þróun bardagans. Ekki missa af þessum!

spot_img
spot_img
Brynjólfur Ingvarsson
Brynjólfur Ingvarsson
- Brúnt belti í brasilísku jiu jitsu - Keppnisreynsla í MMA - Keppnisreynsla í hnefaleikum - Svart belti í Taekwondo
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -spot_img

Most Popular