spot_img
Wednesday, December 18, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaLeikgreining: Poirier vs. McGregor 3

Leikgreining: Poirier vs. McGregor 3

Conor McGregor mætir Dustin Poirier í einum stærsta bardaga ársins en báðir menn hafa rotað hvorn annan. McGregor lenti í miklum vandræðum gegn Poirier í síðasta bardaga og er mikil spenna hvernig hann bregst við því.

Fyrir síðasta bardaga töluðum við um að Poirier væri líklegur til að nota lágspörkin til að þreyta fætur McGregor og draga úr höggþunga hans. Poirier notaði kálfaspörk gríðarlega vel og virtust þau hafa tilætluð áhrif. Spörkin drógu ekki aðeins úr getu McGregor til að setja þunga á fremri fótinn, heldur fór Conor að beygja sig niður til að reyna að grípa þau og endaði þar með í lélegri stöðu til að svara spörkunum með höggum (sjá mynd 1). 

Mynd 1

a) Poirier sparkar í kálfa McGregor, sem býr sig undir að b) svara því með vinstra skrokkhöggi en c) beygir sig einnig fram til að reyna að grípa það. d) Þegar McGregor reynir að fylgja skrokkhögginu eftir með fremra upphöggi er hann með höfuðið alltof langt fyrir framan lappirnar og e) því í lélegri stöðu þegar hann fær á sig hægri krók Poirier.

Flestir eru sammála um að lágspörkin hafi haft mikil áhrif á bardagann og að lykillinn að sigri Conor í þriðja bardaganum sé að takast betur á við þau. Þrjár áhrifaríkustu leiðirnar til að takast á við kálfasparkið eru líklega; framspörk með fremri fæti, að snúa sköflungnum út og „checka“ sparkið, og að draga fótinn til baka.

Framspark með fremri fæti væri góð leið til að verjast bæði sparkinu og draga vindinn úr Poirier sem virtist í betra formi í seinasta bardaga. Conor hefur áður sýnt frábært framspark með aftari fæti og þótt það væri betri vörn að nota fremri fótinn gæti framspark með aftari fæti einnig komið Poirier úr stöðu og latt hann frá því að nota kálfasparkið. McGregor gæti einnig notað hliðarspark í hné (e. oblique kick) með fremri fæti en hann hefur notað það áður.

Þar sem að Conor stendur mikið með hliðina að andstæðingnum er hann í lélegri stöðu til að snúa fætinum út og „checka“ en fram- og hliðarspörk í bland við að draga fótinn til baka væri áhrifarík leið til að takast á við kálfasparkið.

En það voru ekki aðeins kálfaspörkin sem ollu Conor vandræðum í síðasta bardaga því það voru gagnárásir Poirier sem urðu McGregor að lokum að falli. Eins og við töluðum um fyrir bardagann síðast var líklegt að Conor næði að pressa Poirier upp við búrið, Poirier myndi svara með stungunni og Conor svara stungunni með yfirhandar vinstri. En Poirier hafði einnig séð það fyrir, dró gagnhöggið út og kom sér undan vinstra höggi McGregor og svaraði með hægri krók (sjá mynd 2).

Mynd 2

a)&b) Báðir menn lenda stungum og McGregor stígur inn til að c) fylgja eftir með vinstra höggi en Poirier dregur höfuðið til baka og svarar síðan með hægri krók.

Flestir örvhentir bardagamenn eru með góðar sóknir með aftari og er McGregor þar engin undantekning en hann hefur gríðarlega þung högg með aftari hendi og fæti. En þegar tveir örvhentir bardagamenn mætast er það oft fremri hendin sem skiptir máli og var það hægri krókur Poirier sem skipti sköpum í seinni bardaga þeirra. Þó sýndi McGregor einnig hvers hann er megnugur með hægri og var hans þyngsta högg til að mynda hægri upphögg (sjá mynd 3). Fremri handar högg koma líklega til með að spila stóran þátt í þriðju viðureigninni og því þarf McGregor að passa að hægri hendin sé vel brýnd fyrir helgina.

Mynd 3

a)&b) McGregor lendir beinni vinstri og nær að c) koma höfðinu inn fyrir hægri krók Poirier og stíga upp í d) hægri upphögg.

Leiðir til sigurs:

Dustin Poirier

Þar sem Poirier sigraði síðustu viðureign nokkuð örugglega er ekki margt sem hann þarf að bæta við en hann gæti þurft að svara breytingum frá McGregor. Hans helstu leiðir til sigurs eru:

  • Draga út vinstra höggið með stungum og svara því með hægri krók.
  • Vel tímasett lágspörk.
  • Grípa fótinn ef Conor fer að nota spörk til að svara lágspörkum Poirier.
  • Sækja í fellur til að loka fjarlægð og þreyta McGregor upp við búrið.

Conor McGregor

Eins og áður segir þarf McGregor að finna leiðir til að svara lágspörkunum en einnig þarf hann svar við hægri krók Poirier. Hans helstu leiðir til sigurs eru:

  • Nota framspörk og hliðarspörk með fremri fæti til að svara lágspörkum.
  • Mikið af gabbhreyfingum til að draga út gagnárásir Poirier og svara þeim með eigin gagnárásum.
  • Nota lágspörk og skrokkhögg til að þreyta Poirier.
  • Nota fléttur og loka þeim með hægra höggi eða sparki.

Það verður afar áhugavert að sjá hvernig McGregor bregst við tapinu og hvort að Poirier sýni ný vopn í bardaganum. Við höfum áður séð McGregor tapa en þá hefur hann brugðist við með agaðri frammistöðu og góðri leikáætlun og má gera ráð fyrir að um helgina verði öll trixin í bókinni reynd til að ná sigrinum til baka.

spot_img
spot_img
spot_img
Brynjólfur Ingvarsson
Brynjólfur Ingvarsson
- Brúnt belti í brasilísku jiu jitsu - Keppnisreynsla í MMA - Keppnisreynsla í hnefaleikum - Svart belti í Taekwondo
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular