0

Leikgreining: Conor vs. Poirier 2

Fyrsta stóra UFC kvöld ársins er á laugardagskvöldið og í aðalbardaganum mætast Conor McGregor og Dustin Poirier. Báðir hafa náð á topp léttvigtarinnar og fær sigurvegarinn um helgina að öllum líkindum titilbardaga.

Þeir mættust fyrst fyrir 6 árum á UFC 178 sem endaði með rothöggi hjá Conor strax í 1. lotu. Förum yfir hvað hefur breyst og hvernig er líklegt að breytingarnar hafi áhrif.

Dustin Poirier

Dustin Poirier hefur sýnt miklar framfarir síðan hann mætti Conor McGregor fyrst og þá sérstaklega í standandi viðureign. Poirier er farinn að nota góða stungu og byggir á henni sem hefur leitt til þess að önnur högg lenda af meiri nákvæmni en áður. Poirier sækir mikið í fléttum og á það til að skipta um stöðu í miðri fléttu sem hjálpar honum að loka fjarlægð og setur upp þunga yfirhandar hægri (sjá mynd 1). Að skipta um stöðu í miðri fléttu er þó hættulegt því það skilur hann eftir án stöðu ef hann fær á sig gagnhögg í miðri fléttu og því meiri líkur á að hann sé sleginn niður.

Mynd 1.

a) Poirier setur fram stungu með hægri og b)&c) stígur fram með vinstri stungu til að loka fjarlægðinni til að setja upp d) yfirhandar hægri.

Poirier er oft bestur þegar hann hefur andstæðinginn upp við búrið og fléttar saman krókum, olnbogum og skrokkhöggum. Poirier hefur einnig góð spörk sem eru oft vanmetin og hann notar lítið. Hann byrjaði þó fyrri bardagann gegn Conor á að lenda góðum lágspörkum og ekki ólíklegt að hann reyni það aftur þar sem staðan sem Conor notar skilur hann eftir opinn fyrir lágspörkum.

Poirier hefur einnig bætt vörnina sína talsvert og byggir hún núna mikið á fótavinnu, höfuðhreyfingum og eigin útgáfu af „Philly shell“ þar sem hann heldur olnboganum hátt uppi. Fyrsta vörnin hjá Poirier er að setja aftari hendina upp til að verja sig, teygja fremri hendina út til að halda fjarlægð og byrja að bakka og hringsóla til vinstri. Ef hann finnur andstæðinginn vera kominn of nálægt lokar hann skelinni og heldur áfram að reyna að hringsóla út (sjá mynd 2).

Mynd 2.

a) Þegar Hooker lokar fjarlægðinni byrjar Poirier að bakka og hringsóla til vinstri, fyrst með b) ramma til að halda fjarlægð en síðan fer hann c) inn í skelina sína og d) ver höggið með olnboganum.

Þessi skel skilur þó eftir opnun fyrir skrokkhögg og Conor hefur alltaf verið góður í að velja högg og er því líklegur til að notfæra sér þessa opnun. Þótt Poirier reyni mest að koma sér út til hliðar bakkar hann stundum of mikið og endar með bakið á búrinu. Þar lokar hann skelinni og reynir að sveifla krókum eins fast og hann getur til að fá andstæðinginn af sér.

Poirier er góður glímumaður í gólfinu en sækir yfirleitt ekki í fellur nema honum gangi illa standandi. Það er ólíklegt til árangurs gegn Conor sem er mjög góður í að stjórna fjarlægð. Ef Poirier nær að loka fjarlægð er hann þó einnig líklegur til að stökkva á „arm in guillotine“ hengingu ef opnunin gefst en hann er mjög góður í þeirri hengingu og náði meðal annars næstum því að hengja meistarann Khabib með henni (sjá mynd 3).

Mynd 3.

a)&b) Poirier er með mjög þétt „arm in guillotine“ sem meistarinn neyðist til að c)&d) leggjast á hliðina til að verjast.

Conor McGregor

Conor McGregor hefur lengi verið þekktur sem einn sá besti í standandi viðureign. Af 22 sigrum hefur hann klárað 19 með rothöggi í fyrstu tveimur lotunum. Hann er þekktur fyrir hrikalega öfluga vinstri hendi og hafa sumir sagt að hann hafi „touch of death“ þar sem hann geti rotað hvern sem er. Hann er með mikla pressu og tekur miðjuna snemma í bardögum. Þaðan vinnur Conor sig fram þar til hann hefur króað andstæðinginn af upp við búrið. Conor sækir ekki mikið í fléttum heldur notar hann yfirleitt stakar og þungar árásir með aftari hönd eða fæti.

Besta högg Conor er gagnárás með vinstri hendi og hann elskar þegar andstæðingar sækja á hann með hægri handar höggi (sjá mynd 4). Honum líður best með andstæðinginn vinstra megin við sig og notar snúningsspörk og hægri krók í skrokkinn til að letja andstæðinga frá því að koma sér út hægra megin við sig (sjá myndir 5 og 6). Conor hefur einnig vanmetin spörk og vankaði til að mynda Donald ‘Cowboy’ Cerrone með hásparki í sínum síðasta bardaga.

Mynd 4.

a)&b) Diaz kemur inn með hægri stungu sem Conor slippar inn fyrir og c)&d) svarar með yfirhandar vinstri.

Mynd 5.

a)&b) Poirier hringsólar út til vinstri í burtu frá vinstri hlið Conor sem svarar c)&d) með snúningssparki í þindina.

Mynd 6.

a)&b) Diaz hringsólar til vinstri sem Conor svarar með því að c)&d) stíga fyrir hann með hægri skrokkhöggi.

Conor er ekki þekktur sem mikill glímumaður og öll hans töp hafa komið eftir uppgjafartak. Hann reynir aðallega að „sprawla“ á andstæðinginn ef hann skýtur í fellu og mynda ramma með höndunum til að búa til fjarlægð. Conor er þó óhræddur við að taka toppstöðu ef andstæðingurinn er sleginn niður eða fleygir sér á bakið í örvæntingu. Conor er með þungar mjaðmir og þung högg og hefur klárað nokkra bardaga í gólfinu.

Líklegt útspil bardagans

Þrátt fyrir að báðum bardagamönnum líði best með andstæðing sinn upp við búrið er líklegt að Conor taki stjórn á miðjunni og pressi Poirier til að byrja með. Conor er líklegur til að nota spörk úr fjarlægð til að fá Poirier til að vilja svara. Þegar Poirier stígur inn með stunguna mun Conor líklega slippa inn fyrir höggið og lenda yfirhandar vinstri. Þannig nær hann að pressa Poirier upp við búrið og þar lendir Conor sínum bestu höggum. Poirier hefur verið vankaður í mörgum bardögum og Conor er einn sá besti í að klára vankaða andstæðinga. Poirier vill þó meina að hann geti tekið höggum betur í léttvigt og líklega reynir á það í þessum bardaga.

Ef Poirier þolir fyrstu árásir Conor er hann líklegur til að fara að tvöfalda stunguna og reyna að nota hana til að komast frá búrinu. Poirier mun líklega nota lágspark með aftari fæti til að þreyta fætur Conor og draga úr höggþunga Írans. Þegar Írinn reynir að svara spörkunum með vinstra höggi mun Poirier setja upp skelina sína og bakka út til vinstri. Írinn mun líklega reyna að svara þessu með skrokkhöggi með hægri hendi eða snúningssparki í skrokkinn.

Conor McGregor hefur oft byrjað að þreytast þegar líður á bardagann og ekki oft sem hann hefur farið í þriðju lotu. Því er líklegt að Poirier fari að taka yfir ef hann nær að lifa af fyrstu tvær loturnar. Poirier hefur sagt að hann vilji vera í blóðugu stríði í búrinu og sjá hvort Conor geti komist í gegnum það eins og Poirier geti. Því er líklegt að hann noti öll tækifæri til að loka fjarlægðinni og reyna að þreyta Conor og gera bardagann ljótann. Það gerir hann með því að sækja í fellu og koma honum upp við búrið, olnboga og hnjáa hann úr „clinchinu“, grípa um hausinn á Conor og kýla hann þaðan með klassísku „dirty boxing“. En til að loka fjarlægðinni þarf Poirier að komast í gegnum þung högg Írans.

Þessi viðureign er mjög spennandi og þýðingamikil fyrir þyngdarflokkinn en sigurvegarinn gæti fengið bardaga við ríkjandi meistara Khabib (ef hann er ekki alveg hættur) og því mikið undir. Hér verður einnig stórum spurningum svarað en margir hafa verið óvissir um hversu alvarlega Conor hefur verið að taka þjálfun sinni síðustu ár og hvar hann passar í sterkasta flokknum í UFC.

Brynjólfur Ingvarsson
Latest posts by Brynjólfur Ingvarsson (see all)

Brynjólfur Ingvarsson

- Brúnt belti í brasilísku jiu jitsu - Keppnisreynsla í MMA - Keppnisreynsla í hnefaleikum - Svart belti í Taekwondo

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.