spot_img
Wednesday, December 18, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaLeikgreining: Petr Yan vs. Cory Sandhagen

Leikgreining: Petr Yan vs. Cory Sandhagen

UFC 267 er yfirfullt af spennandi bardögum en þó er einn bardagi sem stendur upp úr. Bráðabirgðar titilbardagi í bantamvigt karla milli Petr Yan og Cory Sandhagen er ekki einungis þýðingarmikill fyrir þyngdarflokkinn, heldur hefur hann alla burði til að vera frábær bardagi. 

Petr Yan er gríðarlega höggþungur, agaður varnarlega og með góðar fellur sem hann blandar vel með höggum sínum og gerir andstæðingum hans gríðarlega erfitt fyrir að lesa hann. Við skoðuðum stílinn hans nánar fyrir bardaga hans gegn Aljamain Sterling.

Cory Sandhagen hefur góð löng högg, mjög góða fótavinnu og er með mikla fjölbreytni í sínum árásum þar sem hann ræðst á höfuð, skrokk og lappir. Við skoðuðum stílinn hans nánar fyrir bardaga hans gegn Frankie Edgar.

Líklegt útspil bardagans

Bardaginn mun líklega að mestu leiti fara fram standandi. Yan er sem fyrr segir agaður varnarlega, hefur hendurnar háar og er duglegur að „checka“ spörk í fætur og skrokk. Yan er þó oft kyrr á meðan hann tekur höggum og því líklegt að Sandhagen dansi í kringum hann með bein högg. Sandhagen mun líklega notfæra sér opnunina í skrokkinn og er spurning hvernig Yan bregst við því. 

Sandhagen á það þó til að standa í höggfjarlægð eftir fléttur og þar liggur hættan. Yan getur lent gríðarlega þungum höggum hratt og snúið þannig bardaganum sér í vil á stuttum tíma.

Annað sem Sandhagen gæti lent í veseni með er „clinchið“. Sandhagen gefur oft á sér bakið standandi, en þaðan er Yan mjög góður. Yan hefur bæði nýtt stöðuna til að taka andstæðinga niður og rota andstæðinga þegar þeir losa sig. Því þarf Sandhagen að vera agaður með snúnings högg og spörk, en hann tapaði síðasta bardaga sínum með því að gefa á sér bakið of oft þegar hann reyndi snúnings spörk.

Yan tekur flesta andstæðinga sína niður og er þetta ein leið sem hann notar til að blanda árásum sínum og halda andstæðingnum á tánum. Sandhagen er þó bæði virkur af bakinu að sækja lása og reyna að standa upp og því spurning hvort Yan nái að halda Sandhagen niðri. Hann mun þó klárlega notfæra sér fellurnar til að lenda höggum enda erfiðara fyrir Sandhagen að komast undan höggunum liggjandi á bakinu eða meðan hann er að standa upp.

Eitt það áhugaverðasta í bardaganum er munurinn á fjölda högga sem þeir nota. Sandhagen er stanslaust að fleygja út léttum höggum og gabbhreyfingum og notar þau til að setja upp stærri högg. Hann er alltaf í frábæru formi og getur því haldið fjöldanum uppi yfir allar fimm loturnar. 

Yan er lítið að fleygja höggum heldur bíður eftir að geta tímasett sprengjur. Með því að tímasetja höggin vel heldur hann höggþunganum yfir allar loturnar og lendir miklu hærri prósentu af höggum sínum en andstæðingarnir. Báðir eru duglegir að sækja í skrokkinn og verður áhugavert að sjá hvort annar þeirra lendi í vandræðum með þolið vegna þess.

Ljóst er að þetta er á blaði einn besti bardagi ársins og gríðarlega spennandi að sjá hvernig hann spilast út. Þennan má enginn láta framhjá sér fara.

spot_img
spot_img
spot_img
Brynjólfur Ingvarsson
Brynjólfur Ingvarsson
- Brúnt belti í brasilísku jiu jitsu - Keppnisreynsla í MMA - Keppnisreynsla í hnefaleikum - Svart belti í Taekwondo
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular