Sunday, June 23, 2024
spot_img
HomeErlentLeikgreining: Yan vs Sterling

Leikgreining: Yan vs Sterling

Fyrsti titilbardagi helgarinnar fer fram í bantamvigt karla. Þar mætir meistarinn Petr Yan glímumanninum Aljamain Sterling sem hefur sannað trekk í trekk að hann sé besti áskorandinn í þyngdarflokknum.

Aljamain Sterling er frábær glímumaður en hefur sýnt í síðustu bardögum sínum miklar bætingar standandi. Hann notar mikið af spörkum og þá sérstaklega mikið af framspörkum. Hann er með mjög langan faðm fyrir þyngdarflokkinn og því frábært vopn fyrir hann til að halda andstæðingum í fjarlægð þar sem þeir ná ekki til hans. Sterling skiptir oft um fótastöðu en berst mest úr örvhentri stöðu (hægri fótur fyrir framan).

Ef andstæðingurinn nær að loka fjarlægðinni skýtur Sterling vanalega í „single leg“ fellu og notar það til að ná „bodylock“ upp við búrið (sjá mynd 1). Úr „clinchinu“ blandar Sterling hnjám vel saman við stöðubaráttuna. Sterling hefur þó einnig sýnt bætta hnefaleikakunnáttu í síðustu bardögum, með bættum höfuðhreyfingum og gagnárásum, og því ekki víst að hann skjóti þótt andstæðingurinn loki fjarlægðinni.

Mynd 1

a) & b) & c) Sterling skýtur í „single leg“ en d) breytir því síðan í „double leg“ og ýtir Rivera e) upp við búrið. f) Þaðan stendur hann upp og nær „bodylock“.

Í gólfinu er Sterling einn sá besti í flokknum og sækir mikið í uppgjafartök, sama hvort hann er undir eða ofan á. Þar nýtast löngu lappirnar hans til að sækja í „triangle“ hengingu af bakinu eða tryggja „body triangle“ þegar hann sækir aftan að andstæðingnum (sjá mynd 2).

Mynd 2

a) Sterling byrjar með báða fætur krækta innan á fætur Sandhagen. b) Hann réttir úr hægri fætinum og c) kemur vinstri ristinni á sér á hægri hnésbótina. d) Sterling læsir stöðunnni alveg með því að krækja tánum á hægri löppinni aftan á hné Sandhagen.

Petr Yan hefur bakgrunn í hnefaleikum og er einn sá höggþyngsti í þyngdarflokknum. Hann hefur bætt við sig góðum þungum spörkum sem hann notar mest í skrokkinn. Yan notar mikla pressu til að króa andstæðinginn af upp við búrið þar sem hann notar gabbhreyfingar til að fela árásir sínar og halda andstæðingnum á tánum milli þess sem hann lendir þungum höggum.

Yan er með nákvæma fremri hendi sem hann notar mikið en ef að hún er ekki að finna skotmarkið hleður Yan oft í sprengju með aftari. Yan skiptir reglulega um fótastöðu en berst mest úr rétthentri stöðu (vinstri fótur fyrir framan). Hann blandar einnig vel saman höggum, spörkum, hnjám og olnbogum sem gerir andstæðingnum erfitt fyrir að spá hvernig árás kemur næst.

Yan á það líka til að blanda fellum inn í árásirnar sínar sem hjálpar að gera hann óútreiknanlegan. Hann hefur sérstaklega góðar fellur þegar hann nær „back body lock“ á andstæðinginn (sjá mynd 3).

Mynd 3.

Í gólfinu notar hann þunga mjaðmapressu og stjórn á fótum andstæðingsins úr „guardinu“ hjá andstæðingnum til að loka á árásir andstæðingsins og lendir þaðan þungum höggum (sjá mynd 4).

Mynd 4.

a) Yan stjórnar hægri fæti Aldo meðan hann stendur yfir Aldo og nær að halda pressu án þess að setja sig í hættu. Yan reiðir sig til b) skrokkhöggs sem c) & d) meiðir Aldo það illa að Brassinn veltist um í sársauka.

Líklegt útspil bardagans

Líklega mun bardaginn fara að miklu leiti fram í opinni stöðu, þar sem Sterling verður í örvhentri stöðu og Yan í rétthentri. Þaðan getur Sterling lokað á fremri hendi Yan með því að grípa í hendur hans og fjarlægðin verður meiri sem hjálpar Sterling þar sem hann er með lengri faðm.

Yan er líklegur til að nota mikla pressu strax frá byrjun og reyna þannig að loka fjarlægð og loka á spörk Sterling. Hann gæti jafnvel skipt um fótastöðu í miðri fléttu til að loka fjarlægðinni. Sterling mun líklega svara pressunni með framspörkum og höggum en ef hann sér færi á því er einnig líklegt að Sterling skjóti í fellu.

Ef að Yan nær að halda bardaganum standandi mun hann líklega halda áfram pressunni og nota samsetningar af þungum höggum. Þá gæti Sterling byrjað að nota kálfaspörk til að létta á pressunni. Yan hefur lent í vandræðum áður með kálfaspörkin og Sterling getur notað þau úr mikilli fjarlægð. Líklega mun Yan reyna að svara slíkum spörkum með þungum höggum niður miðjuna en hann gæti einnig reynt að sækja í fellu.

Ef bardaginn fer í gólfið og Yan lendir ofan á verður áhugavert að sjá hvort hann geti lokað á sóknir Sterling með því að halda mjöðmunum þungum og stjórna löppunum. Einnig verður áhugavert að sjá hvort Yan láti reyna á að lenda sprengjunum sínum úr toppstöðunni. Ef Sterling nær að komast ofan á verður Yan í miklum vandræðum og Sterling gæti hæglega klárað bardagann þaðan.

Báðir menn eru í frábæru formi og hefur Yan haldið höggþyngd sinni yfir allar loturnar og er jafn líklegur að klára bardagann í seinustu lotu eins og fyrstu lotu. Sterling viðheldur þó miklum hraða í sínum bardögum í gegnum allar loturnar og því spurning hvort hann nái að þreyta Yan með stanslausum sóknum. Allt bendir til þess að bardaginn verði mikil veisla og mælum við eindregið með því að enginn missi af þessum.

Brynjólfur Ingvarsson
Brynjólfur Ingvarsson
- Brúnt belti í brasilísku jiu jitsu - Keppnisreynsla í MMA - Keppnisreynsla í hnefaleikum - Svart belti í Taekwondo
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular