UFC hélt blaðamannafund í dag fyrir bardagakvöldið í London í mars. Þeir Leon Edwards, Darren Till, Jorge Masvidal og Nathaniel Wood sátu þar fyrir svörum.
Gunnar Nelson mætir Leon Edwards á UFC bardagakvöldinu í London í mars. Gunnar var ekki viðstaddur blaðamannafundinn í dag en aðeins fjórir bardagamenn kvöldsins voru viðstaddir.
Tveir hörku bardagar í veltivigtinni verða á dagskrá í London en þeir Darren Till og Jorge Masvidal mætast í aðalbardaga kvöldsins. Leon Edwards og Gunnar voru báðir að reyna að fá bardaga gegn þeim og var nokkuð um orðaskipti á milli Edwards og Till á blaðamannafundinum.
Edwards sagðist hafa verið svekktur að hafa ekki fengið aðalbardaga kvöldsins og taldi að hann ætti heima þar gegn Darren Till. Edwards skoraði á Masvidal og Till en sagði að báðir hefðu hafnað því. Hann sagði þó að bardaginn gegn Gunnari yrði góður og hlakkar til að mæta honum en telur að með sigri fái hann bardaga gegn sigurvegaranum í aðalbardaga kvöldsins.
Þeir Till og Edwards áttu í nokkrum orðaskiptum á blaðamannafundinum enda vill Edwards sanna að hann sé besti bardagamaður Bretlands. Blaðamenn spurðu nokkrum sinnum út í mögulega viðureign þeirra og sagði Edwards að bardagi hans og Till hefði átt að vera aðalbardagi kvöldsins. Masvidal var orðinn þreyttur á orðaskiptum Edwards og Till og bað um lykilorðið að þráðlausa netinu.
Things got a little spicy between @darrentill2 & @Leon_edwardsmma today ?
Wait for @GamebredFighter‘s question at the end ? pic.twitter.com/LGwFLVgiwh
— ESPN UK (@ESPNUK) January 30, 2019
Skömmu síðar áttu þeir Edwards og Till aftur í orðaskiptum.
Darren Till: Leon, helduru að ég sé hræddur við þig?
Leon Edwards: Mér er skítsama
Darren Till: Þú segir að ég vilji ekki berjast við þig?
Leon Edwards: Þú vilt ekki berjast við mig! Ef einhver skorar á mig í eitt ár berst ég við hann!
Darren Till: Ég er að hugsa um Masvidal, ekki þig. Þú þarft að hugsa um Gunnar því hann er að fara að tappa þig út!
Leon Edwards hlær: Hann er ekki að fara að tappa mig út.
Darren Till: Við sjáum til. Þú færð þitt á endanum.
Edwards sagði að lokum að hann væri ekki svekktur með að fá Gunnar. „Gunnar er stórt nafn. Hann er búinn að vera lengi að eins og ég, var í BAMMA og þetta hefur verið lengi í vinnslu. Núna erum við báðir í UFC og þetta hefði gerst fyrr eða síðar, gott að ljúka þessu af. Sigurvegarinn fær svo líklega þann sem vinnur aðalbardagann,“ sagði Edwards um Gunnar bardagann.
Edwards sagði einnig að hann væri tilbúinn að stíga upp ef Masvidal eða Till meiðast og vantar staðgengil. Blaðamannafundinn má sjá hér að neðan en orðaskipti Till og Edwards má sjá eftir um það bil 24 mínútur.