Leon Edwards var auðvitað hæst ánægður með sigurinn á Gunnari Nelson í London í kvöld. Edwards vann eftir klofna dómaraákvörðun í hörku bardaga.
Leon Edwards heldur áfram að vinna en þetta var hans sjöundi sigur í röð í veltivigtinni í UFC. Edwards er sem stendur í 10. sæti á styrkleikalistanum og mun væntanlega stökkva upp um 1-2 sæti eftir sigurinn.
„Mér líður ótrúlega vel eftir þetta. Ég er á sjö bardaga sigurgöngu í sterkasta þyngdarflokki í heimi. Ég er mjög ánægður með framfarir mínar. Núna horfi ég á næsta bardaga. Ég vil mæta sigurvegaranum úr viðureign Till og Masvidal og koma með yfirlýsingu,“ sagði Edwards beint eftir bardagann.
Jorge Masvidal endaði á að rota Darren Till í aðalbardaga kvöldsins og verður áhugavert að sjá hvort Edwards fái Masvidal næst.