Allt útlit er fyrir að Khamzat Chimaev fái ósk sína uppfyllta um að fá að mæta einum af stóru strákunum í veltivigtinni.
Svo virðist sem Leon Edwards verði ekki lengur í útlegð. Í viðtali í The Jim Rowe Show sagði Dana White frá því að samningsviðræður um bardaga milli Khamzat Chimaev og Leon Edwards væru frágengnar.
„Við kláruðum samninga við Leon og Khamzat á fimmtudaginn,“ sagði Dana í viðtalinu og hélt áfram: „Þeir munu berjast. Þetta á eftir að vera stórkostlegur bardagi og hann [Leon] getur núna hætt að kalla alla út á Twitter. Hann er kominn með bardaga.“
Enn á eftir að fá staðfesta dagsetningu á bardaganum en Ariel Helwani sagði frá því að bardaginn muni að öllum líkindum fara fram í veltivigt þann 19. desember í Las Vegas.
Leon Edwards var á fimmtudaginn tekinn af styrkleikalistanum í veltivigtinni vegna aðgerðarleysis en hann hefur ekki barist í rúmt ár og er sagður hafa hafnað nokkrum bardögum í röð. Leon barðist síðast í júlí 2019 þegar hann sigraði Rafael dos Anjos sem skaut honum upp í þriðja sæti styrkleikalistans. Leon er kominn aftur á sinn stað í styrkleikalistanum.
Chimaev hefur komið inn í UFC með látum þar sem hann flakkar á milli þyngdarflokka og jarðar þá sem á vegi hans verða. Leon Edwards verður óumdeilanlega langstærsta áskorun Chimaev til þessa en hingað til hefur þessi sænski Tjetseni barist við menn sem enn eru frekar langt frá því að komast á styrkleikalista UFC.
Dana lét einnig hafa eftir sér í viðtalinu að með sigri myndi Chimaev hraðspóla sjálfum sér upp á næsta stig í veltivigtinni.
Það er óhætt að segja að þetta sé mjög áhugaverð viðureign og sigur bráðnauðsynlegur fyrir báða aðila þó að forsendurnar gætu talist ólíkar.