0

Spá MMA Frétta fyrir UFC 254

UFC 254 fer fram í kvöld þar sem þeir Khabib Nurmagomedov og Justin Gaethje mætast í aðalbardaga kvöldsins. Líkt og fyrir öll stóru kvöldin birta pennar MMA Frétta sína spá.

Titilbardagi í léttvigt: Khabib Nurmagomedov gegn Justin Gaethje

Pétur Marinó Jónsson: Einn sá besti og áhugaverðasti sem UFC getur sett saman á þessu ári! Get hreinlega ekki beðið! Khabib nær að taka alla niður og eru fáir jafn ógeðslega dominant og hann. Hann tapar varla lotu, aldrei fengið skurð, vankast eða lent í einhverju veseni. Það er því erfitt að tippa ekki á Khabib. En, það er ógeðslega erfitt að vera ósigraður í þessari íþrótt, þetta eru litlir hanskar og það þarf oft ekki nema eitt högg til að breyta öllu. Gaethje er líka góður að búa til smá chaos í búrinu. Justin Gaethje má ekki bakka gegn Khabib og ég held að hann geti mætt honum í miðjunni og gert þetta að meiri fight en Khabib kærir sig um. Khabib mun ná honum upp við búrið og taka hann niður á endanum þar. Gaethje gefur oft á sér bakið ef hann er tekinn niður og gæti Khabib alveg klárað hann þar eins og hann gerði við Poirier. En ef Gaethje nær að scrambla upp þegar það er kominn meiri sviti og sleipt þá er ég spenntur að sjá hvað gerist í seinni lotunum. Ég ætla að tippa á að Khabib vinni fyrstu tvær loturnar en þurfi að hafa fyrir því að taka hann niður. Síðan fer Gaethje að taka yfir og endar svo á að slá Khabib niður í 4. lotu og klárar með höggum í gólfinu. Gaethje með TKO í 4. lotu. Langt í frá sannfærður en gaman að tippa ekki alltaf á þá sigurstranglegri.

Brynjólfur Ingvarsson: Erfiðasti bardagi Khabib hingað til á blaði og ég held að hann verði það í raun. Gaethje er meðvitaður um þær stöður sem hann þarf að forðast, hefur fótavinnuna og kraftinn til að forðast þær, getuna til að komast úr þeim og höggþungan til að refsa Khabib fyrir öll mistök. Gaethje er auk þess með frábært teymi á bak við sig og þá sérstaklega Trevor Wittman sem ég held að setji saman geggjað gameplan. Wittman nær til Gaethje og getur fengið hann til að fylgja plani eins og við sáum í Ferguson bardaganum. Auk þess held ég að missirinn af föður Khabib verði mikill og skili of emotional Khabib inn í búrið. Gaethje TKO í 4. lotu.

Guttormur Árni Ársælsson: Ég er mjög spenntur fyrir þessum bardaga. Fyrir gólfglímuperra eins og mig eru alltaf jólin að horfa á Khabib gjörsamlega pakka saman hverjum sem hann mætir. Ég held að Khabib muni ekki verða í miklum vandræðum með að ná Gaethje niður og mun refsa honum í gólfinu. Rear Naked Choke eftir klassískt Khabib mauling í þriðju lotu.

Páll Snædal Andrason: Khabib mun mæta til leiks sterkari en nokkurn tímann áður. Þetta mun fara allar loturnar og Khabib mun sigra þær allar mjög örugglega. Þetta umtalaða wrestling hans Gaethje mun ekki hjálpa honum neitt og held ég að Khabib muni taka hann niður í hvert skipti sem hann reynir. Khabib eftir dómaraákvörðun.

Óskar Örn Árnason: Sturlaður bardagi, sérstaklega eftir frammistöðu Gaethje gegn Ferguson. Standandi held ég að Geathje taki Khabib í sundur og Khabib rústar auðvitað á gólfinu. Að því leytinu er þetta ekta striker vs. grappler bardagi þó þetta sé ekki svo einfalt. Allt virðist velta á getu Gaethje til að verjast fellum og mér finnst það bara of stór óvissuþáttur til að geta veðjað á hann. Ég held að hann hristi Khabib af sér kannski fyrstu tvö skiptin en svo heldur Rússinn bara áfram og á endanum verður þetta eins og allir aðrir Khabib bardagar. Ég segi Khabib, TKO í fjórðu lotu.

Sævar Helgi Víðisson: Erfiðasti bardagi Khabib hingað til, hann hefur ekki barist við einhvern með glímu bakgrunn lengi þannig það verður spennandi að sjá hvernig honum gengur að halda Gaethje niðri. Ég reikna þó með því að Khabib ná honum niður snemma í bardaganum og nái að halda honum eitthvað niðri en eftir að þeir verða þreyttari og sleipari mun það ganga verr. Gaethje mun mæta með frábært gameplan þar sem hann mun nýta sér kálfaspörk. Khabib mun byrja vel en síðan tekur Gaethje yfir og vinnur. Gaethje TKO í 3. lotu.

Halldór Halldórsson: Það er langt síðan ég var eins spenntur fyrir einum bardaga og loksins er komið að þessu. Mig langar alveg ofboðslega að trúa því að Gaethje sé með vopnabúrið sem þarf til þess að vera fyrstur til sigra Khabib en það er góð og gild ástæða fyrir því að Khabib er 28-0 í MMA. Það er enginn í UFC með glímugetuna hans Khabib og þó svo að Gaethje náði að stoppa fyrstu, aðru og jafnvel sjöttu fellu Khabib þá er ríkjandi meistarinn einhyrningur sem getur glímt í 25 mínútur. Á endanum á Khabib eftir að ná Gaethje upp við búrið og halda honum þar og koma honum svo í gólfið og raða inn þungum höggum. Svo á Khabib eftir að enduraka leikinn aftur og aftur þar til 25 mínútur eru liðnar og hann stendur uppi sem sigurvegari. Khabib eftir einróma dómaraákvörðun.

Arnþór Daði Guðmundsson: Það er alltaf hype þegar að Khabib stígur inn í búrið þessi misserin. Gæti hann tapað núna? Þetta er bardaginn sem verður erfiður! Málið er að hann pakkar þeim yfirleitt bara saman og stingur í rassvasann og blæs varla úr nös. Manni tekst samt alltaf að finna eitthvað sem gæti steypt honum af stóli. Conor átti að geta valdið honum vandræðum standandi, en gerði það ekki. Justin á að geta staðið jafnfætis Khabib í gólfinu – verður það þannig? Erfitt að segja. Justin gæti hins vegar átt smá tromp í hnefunum. Hausinn segir samt Khabib eftir högg í gólfinu eða classic Rear Naked Choke.

Khabib Nurmagomedov: Guttormur, Páll, Óskar, Halldór, Arnþór
Justin Gaethje: Pétur, Brynjólfur, Sævar

Millivigt: Robert Whittaker gegn Jared Cannonier

Pétur Marinó Jónsson: Ég er mikill Whittaker maður en get vel séð fyrir mér Cannonier bomba hann niður í 1. lotu. Kæmi mér ekki á óvart ef Whittaker verði í bullandi vandræðum í byrjun bardagans. Ég ætla samt að hafa trú á mínum manni og segja að hann verði hraðari, snjallari og bara tæknilega betri í kvöld. Eftir smá bras í byrjun held ég að Whittaker vinni eftir dómaraákvörðun.

Brynjólfur Ingvarsson: Þessi er erfiður, ég held að Whittaker sé nógu góður wrestler til að taka Cannonier niður og stjórna honum í gólfinu en kjósi að gera það ekki. Mér fannst Cannonier vera með góða pressu og skera búrið vel gegn Hermansson og ég held að höggin hans reynist of þung fyrir Whittaker. Þar að auki er Cannonier með mjög gott ground and pound og Whittaker hefur verið sleginn niður frekar oft. Ég held, því miður, að hann verði sleginn niður hérna en nái ekki að koma sér aftur upp og Cannonier klári hann með rothöggi í fyrstu lotu. Cannonier með KO í 1. lotu.

Guttormur Árni Ársælsson: Cannonier er stórhættulegur og búinn að vinna þrjá í röð með tæknilegu rothöggi en þó held ég að Whittaker eigi að vera nógu klókur til að forðast einhverjar stórar sprengjur frá honum. Ég hugsa að Cannonier verði agressívur í fyrstu lotu og Whittaker spili þetta öruggt. Svo fer Bobby Knuckles að ná vopnum sínum í annarri lotu og klárar Cannonier svo loks í þriðju með TKO.

Páll Snædal Andrason: Whittaker átti flottan bardaga við Darren Till eftir að hann missti beltið sitt á móti Adesanya. Ég ætla samt að segja að Cannonier muni rota Whittaker í 2. lotu. Ég afskrifaði hann á móti bæði Anderson Silva og Jack Hermansson en hann kláraði þá báða. Þetta er algjört monster fyrir 185 punda flokkinn enda er hann búin að berjast við meistarann og næstu tvo áskorendur í þyngdaflokknum fyrir ofan (205).

Óskar Örn Árnason: Ég er mikill Whittaker maður og held að hann geti unnið hvern sem er á réttu kvöldi. Á sama tíma er ég skíthræddur við The Killa Gorilla. Ég held að Whittaker muni standa sig vel með leiftursóknum, inn og út. Hann mun sennilega vinna fyrstu lotuna þannig en Cannonier mun þramma hann niður og á endanum koma inn bombu sem gerir út af við Ástralann. Cannonier sigrar, KO í annarri lotu.

Sævar Helgi Víðisson: Þrátt fyrir að Whittaker hafi unnið 10 af síðustu 11 bardögum er hægt að halda því fram hann sé ekki búinn að vera besta útgáfan af sjálfum sér nýlega. Með smá óheppni gæti hann auðveldlega verið búinn að tapa þremur í röð. Það sama er alls ekki hægt að segja um Cannonier sem er búinn að vera mjög sannfærandi í seinustu bardögum og töpin hans í léttþungavigt eru að eldast mjög vel. Þannig ég reikna með að velgengni Cannonier haldi áfram og hann rotar Whittaker snemma. KO í 1. lotu.

Halldór Halldórsson: Ég er á þeirri skoðun að það sé farið að fjara meira og meira undan Whittaker. Ætli meiðsli og bardagarnir við Romero hafi ekki mikið um það að segja. Að því sögðu er hann frábær bardagamaður sem getur keppt við hvern sem er, hann hefur bara ekki sannfært mig upp á síðkastið. Cannonier er hreyfanlegur með gríðarlegan skrokk og þá eigum við eftir að tala um aflið sem hann er með höndunum. Whittaker gefur oftar en ekki færi á sér í hverjum bardaga og ég held að Cannonier eigi eftir að nýta sér þetta færi og rota Whittaker í fyrstu lotu.

Arnþór Daði Guðmundsson: Hvernig ætli Whittaker komi til baka eftir þrjú ár af stríðum? Bardagarnir við Yoel Romero og svo rosalega þungur bardagi sem endaði illa gegn Israel Adesanya hlýtur að taka eitthvað frá manni sem maður fær ekki til baka seinna. Mikið slit á Whittaker. Cannonier er samt búinn að vera á siglingu eins og spíttbátur síðustu árin eftir að hann létti sig niður í millivigt úr þungavigtinni, ef við skiljum frá smá hikst í léttþungavigtinni. Hefur litið vel út, en það er spurning hvort hann eigi eitthvað í Whittaker. Ef þú kemst í gegnum tvo bardaga við Yoel Romero án þess að vera rotaður þá ættiru að komast í gegnum einn á móti Cannonier. Whittaker tekur þennan bardaga á stigum.

Robert Whittaker: Pétur, Guttormu, Arnþór
Jared Cannonier: Brynjólfur, Páll, Óskar, Sævar, Halldór

Þungavigt: Alexander Volkov gegn Walt Harris

Pétur Marinó Jónsson: Walt Harris hefur mikla trú á sér og telur sig vera með eitt besta strikingið í þungavigtinni. Ef svo er á ég allavegna ennþá eftir að sjá það. Volkov er mjög tæknilegur og langur en kannski ekki með mesta powerið. Harris er líklegri til að klára en ég held að Volkov muni stjórna bardaganum með framspörkum og stungum. Volkov eftir dómaraákvörðun.

Brynjólfur Ingvarsson: Ég sá Volkov fyrst þegar hann lét Derrick Lewis rota sig á seinustu 15 sekúndum þess bardaga. Síðan þá hef ég haft litla trú á honum og sé hann brotna hérna undir þungum höggum í bland við fellur, eða verða of sjálfumglaður og kláraður með rothöggi út af því. Harris með TKO í 2. lotu.

Guttormur Árni Ársælsson: Volkov var að vinna bardagann gegn Derrick Lewis þegar hann lét rota sig þegar það voru svona 10 sekúndur eftir og maður veltir fyrir sér hvort það sé eitthvað mental block í gangi þar. Walt Harris er mjög öflugur en þó mistækur. Ég sé fyrir mér að Harris sé með sprengikraftinn sem þarf til að klára Volkov. Walt Harris TKO í 2. lotu.

Páll Snædal Andrason: Eins mikið og ég vona að Walt Harris vinni þennan bardaga þá held ég að Volkov muni spila þetta mjög leiðinlega, haldi fjarlægð og picki í hann hægt og rólega. Volkov mun sigra eftir dómaraákvörðun í hundleiðinlegum bardaga.

Óskar Örn Árnason: Tricky bardagi í þungavigt sem gæti farið á báða vegu. Ég held að Volkov sé tæknilega betri og ætti að geta útboxað Harris. Á hinn bóginn gæti Harris hæglega rotað Volkov hvenær sem er. Ég ætla að veðja á Volkov, held að hann taki þetta á stigum.

Sævar Helgi Víðisson: Volkov er líklega betri á öllum sviðum MMA en Harris fyrir utan það að Harris er með meira power. Þolið hjá Harris er hræðilegt og núna þegar hann er orðinn 37 ára er það ekki allt í einu að fara skána. Harris mun byrja af miklum krafti svona fyrstu 2-3 mín en eftir það er hann alveg búinn á því. Ef Volkov nær að lifa þetta af er hann í mjög góðum málum og getur í rauninni gert það sem hann vill. Hann mun líklega halda fjarlægðinni með stungum og teep spörkum í magann. Síðan á Harris það til að eiginlega gefast upp þegar hann er orðinn þreyttur og kominn í slæma stöðu. Volkov TKO 3. lota

Halldór Halldórsson: Mjög áhugaverður bardagi hér á ferð; sprengikraftur gegn seiglu. Harris er rosalegur skrokkur með gríðarlegt afl og sprengju í hrömmunum sem geta slökkt á hverjum sem er hvenær sem er. Volkov hefur samt séð slíkt áður og oftast leyst það vel með vel drilluðum grunnatriðum. Ég hallast að því að Volkov muni stýra hraðanum í þessum bardaga, halda fjarðlægðinni vel og koma inn góðum höggum þegar færi gefst. Volkov eftir dómaraákvörðun.

Arnþór Daði Guðmundsson: Volkov átti smá erfiðan dag og ábyggilega nokkra daga eftir það eftir bardagann gegn Derrick Lewis. Fékk smá uppreisn æru áður en hann fékk rautt spjald á móti Curtis Blaydes sem virðist geta unnið alla nema Francis Ngannou. Ég held bara að Volkov sé nógu fljótur til að forðast Harris í búrinu og ná inn einni og einni stungu og sigra í frekar tíðindalitlum bardaga á stigum.

Alexander Volkov: Pétur, Páll, Óskar, Sævar, Halldór, Arnþór
Walt Harris: Brynjólfur, Guttormur,

Millivigt: Jacob Malkoun gegn Phil Hawes

Pétur Marinó Jónsson: Malkoun er félagi Whittaker og hefur ekki unnið neitt brjálæðislega góða gæja. Hann er bara 4-0 og er þetta stórt stökk fyrir hann. Hann er víst frekar góður glímumaður en Hawes er mjög kraftmikill wrestler sjálfur. Hawes er betri íþróttamaður, með meiri sprengikraft og of gott wrestling til að leyfa Malkoun að taka sig niður held ég. Ég held að Hawes roti Malkoun í 2. lotu.

Brynjólfur Ingvarsson: Þekki lítið til þessara stráka en Hawes er reynslumeiri og ég held að hann taki þetta á reynslunni. Hawes eftir dómaraákvörðun.

Guttormur Árni Ársælsson: Hver? Ha? Aldrei heyrt um þessa gaura. Segjum Hawes eftir dómaraákvörðun. Bardaginn þar sem þú hoppar að pissa, nærð í nýjan bjór og poppar snöggvast.

Páll Snædal Andrason: Ástralinn Jacob er 4-0 og keppir á móti manni með 8-2 feril og 100% finish rate, 6 rothögg og 2 sigra með uppgjafartaki. Þekki hvoruga þeirra en eftir að hafa horft á vigtunina er ég nokkuð viss um Hawes muni klára hann í 1. eða 2. lotu.

Óskar Örn Árnason: Veit ekki mikið um þessa kappa en munurinn á þeim virðist vera reynslan. Malkoun er ósigraður en bara eftir 4 bardaga. Hawes er með tvö töp en í 10 bardögum. Tek reynslumeiri gaurinn. Hawes, TKO í fyrstu.

Sævar Helgi Víðisson: Phil Hawes er með góðan glímu bakgrunn og hefur verið á UFC radarnum í einhvern tíma en samt tekist að klúðra stóru prófunum. Hann var í TUF 23 og þar var helst talað um hann sem einn af helstu æfingafélögum Jon Jones og var smá hype í kringum hann. Síðan er Malkoun helst þekktur fyrir að þjálfa og æfa með Whittaker. Með litla tilfinningu fyrir þessum bardaga en reikna þó með að Hawes taki þetta. Phil Hawes með KO í 1. lotu.

Halldór Halldórsson: Hérna eru menn sem báðir eru að berjast sinn fyrsta bardaga í UFC og hef ég ekki séð neitt frá þeim. Eftir að hafa lesið mig aðeins til um þessa stráka fæ ég það á tilfinninguna að Hawes sé nægilega góður standandi til þess að stýra þessum bardaga og þess vegna vel ég hann. Hawes eftir dómaraákvörðun.

Arnþór Daði Guðmundsson: Ég er frekar lost hérna eins og aðrir. Næ mér í bjór og létti á mér. Hawes fær vinninginn hér.

Phil Hawes: Pétur, Brynjólfur, Guttormur, Páll, Óskar, Sævar, Halldór, Arnþór
Jacob Malkoun:

Fluguvigt kvenna: Lauren Murphy gegn Liliya Shakirova

Pétur Marinó Jónsson: Shakirova hefur ekki barist við neitt brjálæðislega góða andstæðinga og fer hérna í topp 10 andstæðing í fluguvigt kvenna. Það er stórt stökk og finnst mér vanta ansi mikið upp á hjá Shakirova til að hún eigi erindi í svona bardaga. Lauren Murphy verður betri allan tímann en nær ekki að klára. Murphy með sigur eftir dómaraákvörðun.

Brynjólfur Ingvarsson: Shakirova er að koma inn með mjög stuttum fyrirvara og Murphy er með þrjá góða sigra í röð. Ég spái Murphy sigri en Shakirova er stórt spurningamerki eins og er og verður spennandi að sjá hvernig hún passar inn í fluguvigt kvenna.

Guttormur Árni Ársælsson: Shakirova kemur inn í frumraun sína í UFC með viku fyrirvara í stað Cynthia Calvillo, gegn reynslumiklum andstæðing sem er búin að vinna þrjá í röð. Murphy hefði að öllum líkindum fengið titilbardaga með sigri á Calvillo en óljóst hvort sigur gegn Shakirova muni gera það sama fyrir hana. Ég held þó að Murphy sé talsvert sterkari og sigri á stigum.

Páll Snædal Andrason: Ég veit hversu góð Murphy er en eftir að hafa skoðað Liliyan aðeins þá hef ég trú á því að hún vinni á dómaraúrskurði. 30-27 Liliyan.

Óskar Örn Árnason: Ekki veit ég hvernig þessi bardagi komst á main cardið, en oh well. Það er eiginlega vonlaust að spá Shakirova, hún er að berjast í UFC í fyrsta sinn og hefur engan stóran sigur á bakinu. Murphy er reynd UFC bardagakona með 3 sigra í röð. Easy. Murphy tekur þetta á stigum.

Sævar Helgi Víðisson: Lauren Murphy er ólseig og hefur sannað sig í UFC og þó svo að hún sé komin á seinni hluta ferilsins er hún ennþá að bæta sig á milli bardaga. Shakirova er síðan frekar óskrifað blað en ef maður skoðar stelpurnar sem hún hefur verið að berjast við þá eru þær alls ekki á UFC kaliberi. T.d. var stelpan sem hún barðist við í seinasta bardaga 1-1 þegar hún var sjálf 7-1. Ég held að styrkurinn hjá Murphy skyli henni sigri hérna. Lauren Murphy eftir dómaraúrskurð.

Halldór Halldórsson: Sharikova er að koma inn í þennan bardaga með rétt rúmum viku fyrirvara fyrir Cynthia Calvillo. Þetta verður frumsýning Sharikova í UFC og er ágætis ógn í henni þegar hún skýtur í fellur. Murphy er að því sögðu með mun meiri reynslu og mikla yfirburði standandi. Ef felluvörnin hjá Murphy heldur er ég nokkuð viss um að Sharikova muni ekki sjá til sólar í þessum bardaga sérstaklega í ljósi þess að hún er að koma inn með skömmum fyrirvara. Murphy TKO í 2. lotu.

Arnþór Daði Guðmundsson: Murphy ætti að eiga nóg inni til þess að klára þennan bardaga með sigri. Reynslan getur fleytt manni langt og hún gerir það hér.

Lauren Murphy: Pétur, Brynjólfur, Guttormur, Óskar, Sævar, Halldór, Arnþór
Liliyana Shakirova: Páll

Léttþungavigt: Magomed Ankalaev gegn Ion Cutelaba

Pétur Marinó Jónsson: Mér er sama þó hinn bardaginn hafi endað á umdeildan hátt, ég held bara að Magomed sé miiiiiklu betri. Auk þess hef ég ekki mikið álit á Cutelaba. Held að hann sé frekar illa gefinn sauður og ekki sá skynsamasti – hvort sem það er í búrinu eða utan búrsins. Ankalaev klárar þetta aftur, en í þetta sinn verður ekkert umdeilt og þetta tekur aðeins lengri tíma. Magomed TKO í 1. lotu.

Brynjólfur Ingvarsson: Hef tröllatrú á Ankalaev og held að hann sé of góður alls staðar og með of fjölbreytta árás. Hann raðar inn samsetningum á meðan Cuțelaba reynir að svara með stökum höggum og þegar líður á bardagann safnast upp skaði hjá Cuțelaba meðan Ankalaev verður lítið búinn að éta af höggum. Ankalaev TKO í 2. lotu.

Guttormur Árni Ársælsson: Ankalaev er virkilega spennandi prospect, svona new breed af bardagakappa sem virðist vera góður í öllu. Þessir tveir mættust í febrúar á þessu ári þar sem Ankalaev sigraði eftir mjög svo umdeilt stoppage hjá dómaranum Kevin Macdonald sem vildi meina að Cuțelaba væri rotaður standandi. Það voru allir sammála um að það væri rugl svo UFC bókaði nýjan bardaga. Þeir áttu að mætast í ágúst en bardaganum var tvisvar frestað þar sem Cuțelaba fékk Covid-19 tvisvar. Það er því stórt spurningamerki hvaða áhrif það hefur á hann. Það hefur líka gengið upp og ofan hjá Cuțelaba sem er núna 4-4 í UFC með töp gegn Glover Teixeira og Jared Cannonier á meðan Ankalaev er bara með eitt tap á ferlinum og hefur unnið fjóra seinustu. Ankalaev klárar þetta með TKO í þriðju.

Páll Snædal Andrason: Þetta verður áhugaverður bardagi! KO of the night!!! Ankalaev mun steinrota Cutelaba í lok 1. lotu. Ef ekki þá held ég samt sem áður að hann sé sterkari en Cutelaba á öllum sviðum.

Óskar Örn Árnason: Loksins fáum við að útkljá þetta mál. Ég held að það sé nokkuð ljóst hvor þeirra sé betri. Ankalaev sýndi það í byrjun á þeirra fyrsta bardaga en Cutelaba er hundur og gæti alveg komið með eitthvað óvænt. Líklegasta niðurstaðan er samt sigur Ankalaev. Ankalaev, KO í fyrstu lotu.

Sævar Helgi Víðisson: Magomed er mun betri bardagamaðurinn hérna. Þrátt fyrir það mun Cuțelaba mæta guns blazing eins og hann gerði í fyrsta bardaganum þar sem hann lenti samt nánast engu. Magomed mun komast í gegnum byrjunina og tekur síðan yfir. Magomed með uppgjafartak, 3. lota.

Halldór Halldórsson: Enduratið sem enginn vissi að hann vildi sjá. Eftir allt sem á undan er gengið er ég orðinn mjög spenntur að sjá hvað gerist. Þessi bardagi á eftir að stýrast af glímugetu Ankalaev. Ég á samt von á því að við gætum séð áhugaverða hluta gerast standandi en ef Ankalaev nær að forðast stóru högginn frá Cutelaba á hann að geta keyrt þennan bardaga heim nokkuð sannfærandi. Ankalaev á eftir að ná fram vilja sínum með glímunni allar þrjár loturnar og vinna á dómaraúrskurði.

Arnþór Daði Guðmundsson: Geggjuð byrjun á aðalhlutanum. Sýnist bara hreinlega á öllu að Ankalaev sé sterkari bardagamaður og ætti að ná að veðra af sér storminn og klára þennan bardaga með því að vera bara jafngóður í öllu. Ná að útkljá þetta loksins án vafa.

Magomed Ankalaev: Pétur, Brynjólfur, Guttormur, Páll, Óskar, Sævar, Halldór, Arnþór
Ion Cutelaba: ..

Heildarstig ársins:

Óskar: 31-9
Pétur: 28-12
Guttormur: 28-12
Halldór: 15-10
Arnþór: 7-8

Pétur Marinó Jónsson
Latest posts by Pétur Marinó Jónsson (see all)

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.