Luke Rockhold og Ronaldo ‘Jacare’ Souza verða í aðalbardaganum á UFC bardagakvöldinu í Melbourne þann 26. nóvember. Þetta er í annað sinn sem kapparnir mætast.
Luke Rockhold og Jacare börðust um millivigtartitil Strikeforce árið 2011. Þá var Jacare ríkjandi meistari en Rockhold tók beltið af honum með sigri eftir dómaraákvörðun.
Rockhold varð millivigtarmeistari UFC með sigri á Chris Weidman í desember í fyrra. Hann tapaði svo beltinu sínu til Michael Bisping í júní. Þetta verður því fyrsti bardaginn hans eftir tapið. Jacare vann Vitor Belfort á UFC 198 í maí en þar áður fékk hann sitt fyrsta tap í UFC þegar Yoel Romero sigraði hann eftir dómaraákvörðun.
Sá orðrómur er á kreiki að Chris Weidman og Yoel Romero mætist á UFC 205 í New York. Þetta rennir stoðir undir þann orðróm og getum við búist við tilkynningu fljótlega.
Síðast þegar UFC heimsótti Melbourne sáum við Holly Holm klára Rondu Rousey á UFC 193.