Tuesday, May 21, 2024
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC 203

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 203

stipe-miocic-203UFC 203 fór fram um helgina og er óhætt að segja að bardagakvöldið hafi verið afar skrítið. Það vantar því ekki hugleiðingarnar eftir bardagakvöldið í Mánudagshugleiðingunum.

Bardagakvöldið var skrítið fyrir margra hluta sakir. Í fyrsta lagi voru bardagamenn ítrekað að festast í lyftu á hótelinu og meiddist meira að segja C.B. Dollaway í lyftuslysi! Dollaway þurfti því að draga sig úr bardaga sínum vegna meiðsla sem hann hlaut í lyftu sólarhring fyrir bardagann.

Aðalbardagi kvöldsins var viðureign Stipe Miocic og Alistair Overeem. Bardaginn var stuttur en skemmtilegur og rotaði Miocic Overeem þegar hálf mínúta var eftir af 1. lotu. Fyrr í lotunni hafði Overeem kýlt Miocic niður og reyndi að klára hann með „guillotine“ hengingu en tókst ekki.

Eftir bardagann kvaðst Overeem hafa fundið fyrir tappi frá Miocic. Joe Rogan hálf partinn grillaði Overeem í viðtalinu þegar þeir horfðu á myndbandsupptökur til að reyna að sjá hvenær Miocic tappaði út. Ekkert sást á upptökunni og uppskar Overeem baul frá áhorfendum. Ansi vandræðalegt augnablik þarna.

Joe Rogan sagði það svo í gær að hann myndi ekki taka viðtöl framar við bardagamenn sem voru nýlega rotaðir. Rogan telur að misskilningurinn með tappið stafi fyrst og fremst af rothögginu sem Overeem varð fyrir.

Öll fjögur töpin hjá Overeem í UFC hafa verið eftir rothögg. Hann er nú með tíu töp á ferilskránni eftir rothögg sem er það mesta í UFC á meðal bardagamanna í UFC í dag.

Núna hefur Stipe Miocic varði þungavigtartitil sinn en eins og við vitum er það ekki sjálfgefið en sjö meistarar hafa tapað beltinu sínu í ár. Núna þarf Miocic bara að verja beltið sitt einu sinni enn og þá hefur hann jafnað metið (sem nokkrir deila) yfir flestar titilvarnir í sögu þungavigtarinnar í UFC. Enginn hefur varið titilinn þrisvar í röð í UFC og verður gaman að sjá hvað Miocic gerir næst. Aðeins átta af 19 meisturum þungavigtar UFC hafa varið beltið.

Þeir Miocic og Overeem fengu frammistöðubónus fyrir besta bardagakvöldsins en enginn þungavigtarmaður í UFC hefur fengið jafn marga frammistöðubónusa og Miocic eða sjö bónusa talsins. Framtíðin er björt hjá Stipe Miocic og mun hann hugsanlega mæta Cain Velasquez næst.

Það er þó einn maður sem er á móti þeirri hugmynd og það er Fabricio Werdum. Werdum sigraði Travis Browne í skrítnum bardaga. Einhverjir héldu kannski að Werdum yrði varkárari núna eftir að hafa verið rotaður af Stipe Miocic í maí. Werdum byrjaði hins vegar bardagann á því að hlaupa og hoppa með hliðarspark í andlit Travis Browne og smellhitti! Þetta er í þriðja sinn á ferlinum sem Werdum gerir slíkt í upphafi bardagans.

Snemma í 1. lotunni kýldi Werdum í fingur Browne og fór fingur hans úr lið. Mikil ringulreið átti sér stað í bardaganum þar sem Browne óskaði eftir smá pásu. Dómarinn var lengi að taka ákvörðun og kýldi Werdum í Browne (Browne til mikilla ama) á meðan dómarinn hugsaði málið. Dómarinn hafði ekki stöðvað bardagann og því var Werdum í fullum rétti.

Það má auðvitað ekki biðja um pásu í miðjum bardaga og á dómarinn ekki að gera hlé nema keppandi fá pot í augað eða spark í klofið t.d. Dómarinn hefur kannski haldið að eitthvað væri að hanskanum hjá Browne og þess vegna stöðvað bardagann. En læknirinn kíkti á puttann hjá Browne og leyfði honum að halda áfram en myndirnar sýna að um opið beinbrot var að ræða. Kannski hefði átt að stöðva bardagann á þessum tímapunkti?

Þetta var ekki það eina skrítna við bardagann þar sem aðalþjálfari Browne, Edmund Tarverdyan, kom ekki með nein gagnleg ráð. Það eina sem hann gerði var að öskra hvetjandi blótsyrði á hann. „This motherf-cker ain’t got shit on you“ er ekkert sérstakt ráð eftir að Werdum hafði haft mikla yfirburði í lotunni á undan. Travis Browne hefði þess vegna getað skoðað hvetjandi skilaboð á Instagram eða Pinterest í stað þess að hafa Edmund þarna.

will-smith-instgram-joi-pearson-rolling-out-1

Til að toppa vitleysuna öskraði Edmund að Fabricio Werdum eftir bardagann sem brást við með því að sparka létt í þjálfarann. Það segir eiginlega allt sem segja þarf að enginn er ósáttur við þetta spark hjá Werdum og fannst mörgum að Werdum hefði átt að sparka fastar í Edmund. Edmund er einn óvinsælasti maðurinn í MMA í dag.

Travis Browne er núna 2-3 eftir að hafa farið frá Greg Jackson til Edmund Tarverdyan. Honum hefur hreinlega farið aftur síðan hann fór til Edmund. Browne ætti að æfa einhvers staðar annars staðar og taka kærustuna Rondu Rousey með sér.

CM Punk sannaði það sem allir vissu – hann er ekki nægilega góður fyrir UFC. Mickey Gall fór leikandi létt með hann og kláraði hann eftir 2:14 í 1. lotu. Þessari tilraun UFC er sennilega lokið en CM Punk ætlar að berjast áfram en hans næsti bardagi verður eflaust ekki í UFC. Punk getur þó huggað sig við það að hann fékk að minnsta kosti 57 milljónir íslenskra króna fyrir bardagann.

Mickey Gall var snjall í viðtalinu eftir bardagann og skoraði á Sage Northcutt. Það er bardagi sem á eftir að vekja athygli enda Northcutt umdeildur bardagamaður. Samkvæmt Dana White tók Northcutt vel í áskorunina. Þetta er bardagi sem gæti verið „aðalbardaginn“ á Fight Pass hluta UFC 205 t.d.

Urijah Faber tapaði gegn Jimmie Rivera en þetta er í fyrsta sinn á ferlinum sem hann tapar tveimur bardögum í röð. Faber virtist alls ekki komast í gang gegn Rivera sem mun núna taka hástökk upp styrkleikalistsann. Þess má geta að Rivera var sigurstranglegri hjá veðbönkum fyrir bardagann. Faber potaði illa í augað á Rivera í 3. lotu og sá hann ekki út um annað augað út bardagann. Þess má geta að Faber potaði líka í augað á Francisco Rivera þegar þeir mættust. Faber finnst greinilega gaman að pota í Rivera.

Næsta UFC bardagakvöld fer fram á laugardaginn í Texas þar sem Michael Johnson og Dustin Poirier mætast í aðalbardaga kvöldsins.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular