spot_img
Saturday, December 21, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC 196

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 196

nate conorÞað er ekkert lítið sem hægt er að skrifa um UFC 196 sem fram fór á laugardaginn. Conor McGregor tapaði fyrir Nate Diaz og Miesha Tate er nýr bantamvigtarmeistari kvenna.

Það mátti sjá frá fyrstu sekúndu að Conor McGregor ætlaði að klára Nate Diaz sem fyrst. Hann óð inn og sveiflaði hættulegasta vopni sínu, vinstri höndinni, að Diaz en missti marks óvenjulega oft. Hann sótti og sótti en uppskar ekki eins og hann vonaði – Diaz tók hverju einasta höggi.

Það skiptir ekki máli hversu góðu formi menn eru í, það geta allir kýlt sig út snemma í bardaga og það var það sem McGregor gerði. Hann virtist þreyttur eftir 1. lotuna og eftir að hann varð vankaður af Diaz var þetta eiginlega búið.

Kannski var McGregor of sjálfsöruggur fyrir bardagann. Hann hafði tröllatrú á að hann gæti rotað Diaz (sem er með aðeins eitt tap á ferlinum eftir rothögg og þar var ekki beint slökkt á honum) og hélt að hann væri með nægilega mikinn kraft til að klára þetta strax. McGregor tókst að lenda nokkrum mjög þungum höggum sem hefðu kannski rotað aðra menn en Diaz át þetta allt og það kom McGregor í opna skjöldu.

McGregor fór ekki í skrokkinn eins mikið og áður enda var hann bara á hausaveiðum. Hann ætlaði að rota Diaz og það varð honum að falli.

conor ufc 196 done

Margir hafa gagnrýnt glímugetu McGregor þar sem Diaz komst auðveldlega í yfirburðarstöðu í 2. lotu. Margir gleyma því samt McGregor sópaði svartbeltingnum Diaz auðveldlega í 1. lotu. McGregor er klárlega ekki jafn góður í gólfinu og standandi en það er ekki eins og hann sé nýliði þarna.

Það er erfitt að glíma við jafn góðan glímumann og Diaz er þegar þú ert mjög vankaður og örþreyttur. Gagnrýnin á að einhverju leiti rétt á sér eins og hversu auðveldlega Diaz (sem er ekki þekktur fyrir að vera með frábærar fellur) tókst að ná McGregor niður eftir að hafa gripið spark. En þetta er bara einn af mörgum þáttum í MMA sem Conor McGregor mun halda áfram að vinna í á næstu árum.

Það er eitthvað mikið að þegar jafn góður „striker“ eins og McGregor fer í fellu. Það er nokkuð ljóst. Hann sýndi ekki sömu greind í búrinu eins og oft áður og hefði jafnvel getað „clinchað“ við hann í stað þess að standa og éta öll þessi högg. Alltaf auðvelt að sitja hér og gagnrýna, annað að vera í búrinu á stað og stund.

Það er svo spurning hvaða áhrif þetta mun hafa á McGregor í framtíðinni. Hann er ennþá fjaðurvigtarmeistarinn og mun líklegast verja beltið sitt á UFC 200 í júlí. Hann segist ekkert vera þreyttur og langar bara að halda áfram.

McGregor er stærsta stjarna UFC og er áhuginn á honum gríðarlegur. Sá áhugi á kannski eftir að minnka örlítið eftir þetta tap en alls ekki mikið. Chael Sonnen tapaði margoft en alltaf var mikill áhugi á honum þar sem hann var svo góður í kjaftinum. McGregor er betri í kjaftinum en Sonnen og á þetta tap eflaust ekki eftir að hafa mikil áhrif á hann viðskiptalega séð.

Eins og við sýndum í gær var McGregor auðmjúkur eftir bardagann og hafa margir dáðst að því hve vel hann tekur tapinu. Það er kannski það besta við tapið. Það sýnir að hann ætli að læra af þessu og ætlar að passa sig að gera ekki sömu mistökin aftur. Kannski verður McGregor bara enn betri næst?

UFC 196: McGregor v Diaz

Hvað gerir Nate Diaz?

Nate Diaz átti sinn stærsta sigur á ferlinum. Það má færa rök fyrir því að þetta sé stærsti sigur Diaz bræðranna frá upphafi. Þarna var Nate Diaz að sigra bardagamann sem var í þriðja sæti á styrkleikalista UFC yfir bestu bardagamenn heims, pund fyrir pund.

Þetta var líka í fyrsta sinn sem Diaz er í aðalbardaganum á stóru bardagakvöldi. Þetta var því gríðarlega þýðingarmikill sigur fyrir hann og er nafn hans orðið talsvert þekktara en áður. Hann er ekki lengur bara litli bróðir Nick Diaz. Hann er kannski aldrei að fara að vera í einhverjum morgunkornsauglýsingum með sinn sorakjaft en fær nú fleiri stóra bardaga eins og hann hefur svo oft beðið um.

Það er líka spurning hver næstu skref hans verða. Dana White virtist hrifinn af þeirri hugmynd að láta Diaz mæta Robbie Lawler um veltivigtartitilinn. Sú hugmynd er eiginlega fráleit. Vissulega gæti það verið skemmtilegur bardagi en Diaz hefur ekki barist í veltivigt síðan árið 2011 og tapaði þá tveimur bardögum í röð. Þetta er jafn slæm hugmynd og að ætla að leyfa McGregor að berjast um veltivigtartitilinn þrátt fyrir að hafa aldrei barist þar. Það er ekki eins og það sé skortur á áskorendum í veltivigtinni.

Það er spurning hvað UFC gerir með hann. Enginn veit hvað honum langar að gera og gæti hann þess vegna hafnað bardaga gegn t.d. Eddie Alvarez þrátt fyrir að sigur gegn honum myndi gefa titilbardaga. Hann gæti þess vegna hætt eða ákveðið að fara upp í veltivigt eða lent í enn einum samningsdeilum við UFC. Hann gæti tekið upp á að gera hvað sem er og það er eitt af því sem gerir hann svona skemmtilegan í augum margra.

Það sem er kannski mikilvægast núna er að hann standist lyfjaprófið.

Við látum vera að tala um bardaga Holm og Tate núna en á morgun munum við fara vel yfir stöðuna í bantamvigt kvenna.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular