spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC 230

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 230

Embed from Getty Images

UFC 230 fór fram í Madison Square Garden um helgina. Daniel Cormier sigraði Derrick Lewis í aðalbardaga kvöldsins en hér eru Mánudagshugleiðingar eftir bardagakvöldið.

Þetta er þriðja árið í röð sem UFC heldur bardagakvöld í einni frægustu höll heims. Alltaf hafa bardagakvöldin verið í nóvember og má segja að fyrri bardagakvöldin í höllinni hafi verið stærri.

Í fyrstu heimsókn UFC í Madison Square Garden voru rúmlega 20.000 áhorfendur í höllinni sem sáu Conor McGregor rota Eddie Alvarez í 2. lotu. Sama kvöld voru tveir aðrir titilbardagar og var þetta gríðarlega stór viðburður sem skilaði 17,7 milljónum dollara í miðasölu.

Ári síðar fór UFC 217 fram þar sem þeir Georges St. Pierre og Michael Bisping mættust í aðalbardaga kvöldsins. Sama kvöld voru einnig tveir aðrir titilbardagar og skilaði bardagakvöldið 6,2 milljónum dollara í miðasölu frá 18.200 áhorfendum.

Miðasala á UFC 230 gekk illa framan af enda vantaði aðalbardaga kvöldsins lengi vel. Bardaga Cormier og Lewis var hent saman þremur vikum fyrir bardagakvöldið og hafði það sín áhrif á miðasöluna. Á endanum voru 17.000 áhorfendur í höllinni en miðasalan skilaði „bara“ 2,8 milljónum dollara í kassann. Sennilega ekki staðið undir væntingum hjá bardagasamtökunum.

Bardaginn sjálfur fór eiginlega nákvæmlega eins og flestir bjuggust við. Svona átti þetta að fara miðað við að allt væri eðlilegt. Daniel Cormier gerði nákvæmlega það sem hann átti að gera og kemur heill úr þessum bardaga. Það er hálf leiðinlegt að hugsa til þess að hann eigi bara einn bardaga eftir á ferlinum í MMA. Cormier mun berjast við Brock Lesnar á næsta ári í hans næstu titilvörn í þungavigt en ef það gengur ekki eftir er hann opinn fyrir þriðja bardaganum gegn Jon Jones. Ef það gengur svo ekki eftir er hann til í að gefa Stipe Miocic annan titilbardaga. Hann mun ekki berjast bæði við Jones og Lesnar, það er bara einn bardagi eftir og svo mun hann hætta.

Cormier á marga aðdáendur en það eru líka margir sem gjörsamlega þola hann ekki. Persónulega hef ég aldrei skilið það. Alltaf fundist hann vera mjög viðkunnalegur og skemmtilegur náungi sem kemur vel fyrir. Hann er einlægur í framkomu sinni og fer ekki leynt með tilfinningarnar ef hann tapar. Auk þess hefur hann gengið í gegnum gríðarlega erfiðleika sem myndu brjóta marga en hér stendur hann enn og má setja hann í flokk með bestu bardagamönnum allra tíma.

Derrick Lewis er ekki góður í gólfinu ef hann endar undir – það var allan tímann vitað en núna var honum refsað fyrir það. Hann bókstaflega stendur bara upp en loksins var einhver sem refsaði honum fyrir þá slæmu tækni. Þegar Lewis reyndi að standa upp í 2. lotu náði Cormier bakinu á honum og var eldsnöggur að læsa hengingunni. Það hefði verið gaman að sjá Lewis sem þungavigtarmeistara og sennilega eitt það skrítnasta í MMA í dag en Cormier minnti alla á að Lewis er takmarkaður bardagamaður þó hann sé bráðskemmtilegur.

Embed from Getty Images

Fall Chris Weidman hefur verið ansi hratt síðan hann var meistari. Fjögur töp í síðustu fimm bardögum og eru öll fjögur töpin eftir ansi slæm rothögg. Hann virðist ekki vera sami bardagamaður og hann var og spurning hvort hann þurfi einhverja breytingu. Hann er orðinn 34 ára gamall og er erfitt að sjá hann verða eitthvað mikið betri skyndilega. Kannski mun hann feta í fótspor Anthony Smith og Thiago Santos og fara í léttþungavigtina þar sem samkeppnin virðist ekki vera eins erfið. Þetta er örugglega sérstaklega frústrerandi þar sem í nokkrum af þessum töpum hefur hann verið að líta ansi vel og en svo rotast illa. Eitthvað þarf að breytast en það er bara spurning hvað.

Jacare Souza var síðan grjótharður allan tímann. Hann hélt áfram að sækja þrátt fyrir að vera líklegast með brotið nef í 1. lotu. Þetta var ekkert fullkominn bardagi hjá Jacare enda var hann í vandræðum framan af. Hann sýndi þó mikið hjarta og nýjar glæsilegar höfuðhreyfingar. Þá var vinstri krókurinn í skrokkinn flottur og spurning hvort við séum að sjá smá þróun á honum standandi. Það var líka gaman að sjá hvað Jacare bar mikla virðingu fyrir Weidman fyrir og eftir bardagann. Ekkert skítkast eða leiðindi, bara tveir frábærir bardagaíþróttamenn sem buðu upp á geggjaðan bardaga.

Israel Adesanya sýndi að hann er kominn til að vera. Derek Brunson ætlaði að binda endi á hæpið í kringum Adesanya en það gekk bókstaflega ekkert upp hjá honum á laugardaginn. Adesanya stoppaði allar fellurnar hans Brunson og átti Brunson ekki séns. Adesanya er bara búinn með fjóra bardaga í UFC, alla á þessu ári, allt sigrar og kemur svo sannarlega til greina sem nýliði ársins.

Þó nokkrir stórir bardagar hafi dottið út og aðalbardaginn verið hálfgerð redding var þetta samt skemmtilegt bardagakvöld. Upphitunarbardagarnir buðu upp á margt og mælum við með að þið kíkið á þá. Næsta bardagakvöld fer svo fram í Denver um næstu helgi þar sem Chan Sung Jung mætir Yair Rodriguez í aðalbardaga kvöldsins.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular