UFC 234 fór fram í Ástralíu um helgina. Eftir að aðalbardaginn datt út fengum við Israel Adesanya og Anderson Silva í aðalbardaga kvöldsins en hér eru Mánudagshugleiðingar eftir bardagakvöldið.
Robert Whittaker átti auðvitað að berjast í aðalbardaga kvöldsins en aðeins nokkrum klukkutímum fyrir bardagann kom í ljós að hann var með slæmt kviðslit og þurfti umsvifalaust að fara í skurðaðgerð. Það var mikið áfall fyrir aðdáendur þegar aðalbardaginn datt út með svo skömmum fyrirvara og í annað sinn sem Ástralinn getur ekki barist í aðalbardaganum á heimavelli.
Whittaker verður frá í 4-6 vikur og þarf svo væntanlega lengri tíma til að koma sér í gott stand áður en hann getur farið að leita að bardaga. Það þýðir að hann er ekkert að fara að berjast fyrr en í sumar.
Aftur er komið vesen í millivigtina með fjarveru meistarans. Whittaker hefur eiginlega ekki ennþá barist alvöru titilbardaga í UFC. Hann mætti Yoel Romero á UFC 213 um bráðabirgðarbeltið (e. interim title) á meðan Michael Bisping mætti Georges St. Pierre um alvöru beltið nokkrum mánuðum síðar. Whittaker var svo gerður að alvöru meistara þegar að St. Pierre lét beltið af hendi.
Whittaker mætti Romero svo aftur ári síðar á UFC 225 en þá náði Romero ekki vigt og var þetta því bara titilbardagi fyrir Whittaker. Núna voru allir búnir að ná vigt en Whittaker gat því miður ekki barist.
Fyrir helgina gaf Dana White það út að sigurvegarinn í viðureign Israel Adesanya og Anderson Silva myndi fá titilbardaga. Eftir sigur Israel Adesanya er spurning hvað UFC ætlar að gera í millivigtinni. Er Adesanya til í að bíða eftir að Whittaker mæti Gastelum og mæta svo sigurvegaranum þar? Það gæti verið löng bið. Við getum samt verið öll sammála því að Gastelum eigi ennþá skilið að fá titilbardaga þó Adesanya haldi því fram að hann sé áskorandi nr. 1.
Kannski mun UFC henda upp bráðabirgðartitli á milli Adesanya og Gastelum. Við vitum það samt öll að bráðabirgðartitilinn hefur jafn mikla þýðingu og plat beltið sem Gastelum var með á laugardaginn. En menn fá betur borgað fyrir bráðabirgðartitilbardaga heldur en venjulega bardaga þrátt fyrir að það sé bara platbelti í húfi. Tíminn mun leiða í ljós hvað UFC ætlar að gera en millivigtin þarf að bíða eftir meistaranum í dágóðan tíma.
Anderson Silva leit síðan bara nokkuð vel út í bardaganum gegn Adesanya. Hann var að gera ágætis hluti og held ég að flestir hafi bara haft gaman af þessu. Það fengu allir að gera sitt og Anderson var ekki illa rotaður. Það eru samt komin ansi mörg töp á bardagaskorið hjá goðsögninni. Hann vonast til að berjast næst í Brasilíu í maí á stóru kvöldi og ætti það að ganga eftir nema hann falli skyndilega á lyfjaprófi.
Annars var bardagakvöldið frekar fámennt af stórum nöfnum en bardagarnir voru skemmtilegir. Lando Vannata vann sinn fyrsta bardaga í rúm tvö ár í UFC gegn Marcos Rosa Mariano. Ekki veit ég samt hvernig Mariano, sem var 6-4 sem atvinnumaður þegar UFC samdi við hann, fékk samning við UFC.
Montana De La Rosa átti mjög góða frammistöðu gegn Nadia Kassem. De La Rosa var bara margfalt betri og kannski má spyrja sig hvort Kassem eigi heima í UFC. Hún var 4-0 þegar hún fékk samning við UFC en enginn af hennar andstæðingum þá hafði svo mikið sem unnið einn bardaga á ævi sinni og hafa ekki ennþá gert. Hún er 1-1 í UFC og var þetta hennar fyrsta tap á ferlinum. Hún gæti alveg átt fína framtíð í íþróttinni en spurning hvort Invicta sé ekki betri staður fyrir Kassem á þessari stundu á meðan hún safnar í reynslubankann.
De La Rosa er hins vegar einhver sem á skilið að berjast við hærra skrifaða andstæðinga enda hefur hún unnið alla þrjá bardaga sína í UFC og klárað þá alla með uppgjafartaki. Ansi vel gert og gæti hún skapað sér smá nafn í nýrri fluguvigt kvenna.
Næsta bardagakvöld UFC er á sunnudaginn þegar UFC heimsækir Pheonix í Arizona. Þar mætast þeir Cain Velasquez og Francis Ngannou í aðalbardaga kvöldsins.