spot_img
Wednesday, October 30, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC 236

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 236

UFC 236 fór fram á laugardaginn og var það bara ansi skemmtilegt bardagakvöld. Tveir ótrúlegir bardagar voru á dagskrá en hér eru Mánudagshugleiðingar eftir bardagakvöldið.

Í aðalbardaga kvöldsins sáum við Dustin Poirier vinna Max Holloway eftir dómaraákvörðun í geggjuðum bardaga. Dustin Poirier er algjört skrímsli! Hann sýndi það á laugardaginn og hefur nú unnið fjóra bardaga í röð gegn ekki ómerkari mönnum en Anthony Pettis, Justin Gaethje, Eddie Alvarez og Max Holloway. Þetta er ansi flott ferilskrá.

Poirier var ekki lengi að vanka Holloway og hefur Holloway sennilega aldrei verið eins illa farinn eftir bardaga og núna. Poirier og Holloway háðu stríð sem var spennandi, tæknilegt, heillandi og lygilegt á köflum. Bardaginn hafði allt að geyma það sem maður vill sjá í heimsklassa MMA.

Dustin Poirier fer nú væntanlega í Khabib Nurmagomedov í haust en maður er samt smá hræddur um að Conor McGregor komi og skemmi það með öðrum bardaga gegn Khabib. Annað eins hefur gerst. Poirier á skilið að berjast við Khabib og verður áhugavert að sjá hvað Poirier getur gert gegn Khabib.

Embed from Getty Images

Magnaðri 13 bardaga sigurgöngu Max Holloway er lokið. Holloway á þar með 3. lengstu sigurgöngu í sögu UFC ásamt Demetrious Johnson og Georges St. Pierre. Það var í raun ótrúlegt að sjá hversu mörg þung högg Holloway gat tekið og samt staðið það af sér. Það var alltaf vitað að Holloway væri harður en þessi harka náði nýjum hæðum.

Það verður áhugavert að sjá hver næstu skref Holloway verða. Fer hann aftur niður í fjaðurvigt til að verja beltið eða gerir hann aðra tilraun í léttvigt? Persónulega tel ég að Holloway eigi heima í léttvigt þó hann hafi tapað um helgina. Ef hann tekur smá tíma til að verða að alvöru léttvigtarmanni og fyllir betur út í rammann (eins og Dustin Poirier gerði þegar hann fór úr fjaðurvigt í léttvigt) þá held ég að hann gæti alveg náð sömu hæðum og í fjaðurvigt. Hann þyrfti bara aðeins að aðlagast nýjum þyngdarflokki. Holloway er að skera mikið niður fyrir fjaðurvigtina og hefur þegar verið í vandræðum með niðurskurðinn.

Það er samt skiljanlegt að það verði erfitt að láta fjaðurvigtabeltið af hendi. Ef hann gerir það og heldur upp mun hann berjast fyrir mun minni fjárhæðir í léttvigt þar sem hann myndi ekki fá titilbardaga strax. Með þrengslunum sem eru í léttvigtinni núna með Khabib, Poirier, Tony Ferguson og Conor alltaf á næsta leiti er erfitt að sjá Holloway fá titilbardaga næsta árið. Sennilega mun Holloway verja fjaðurvigtarbeltið næst en að mínu mati er framtíð hans í léttvigt þrátt fyrir tapið.

Embed from Getty Images

Fyrri titilbardagi kvöldsins á milli Israel Adesanya og Kelvin Gastelum var síðan alveg geggjaður. Maður var bara orðlaus! Þetta verður klárlega meðal bestu bardaga ársins þegar árið verður gert upp. Israel Adesanya sýndi þarna að hann er svo sannarlega meðal þeirra bestu í millivigtinni. Maður var eitthvað að efast um það fyrir bardagann enda hafði hann ekki unnið þessa allra bestu ennþá en núna er maður endanlega sannfærður. Hann stóð undir hæpinu og mun vera meðal þeirra bestu næstu ár.

Adesanya þurfti að fara í gegnum mikla erfiðleika til að ná sigrinum og sýndi magnaða tilburði. Gagnárásir hans voru hárnákvæmar og hraðar í seinustu lotum bardagans og felluvörnin stóð fyrir sínu. Gastelum gerði reyndar stór taktísk mistök með því að fara í felluna í 4. lotu þegar hann hafði vankað Adesanya. Það er auðvelt að vera vitur eftir á en það hefði verið gaman að sjá hvað hefði gerst ef Gastelum hefði reynt að klára Adesanya með höggum á þessum tímapunkti.

Nú eru þeir Adesanya og Poirier bráðabirgðameistarar en það er eiginlega hálf kjánalegt. Þeir sýndu báðir svo ótrúlega tæknilega getu, stórkostlegan bardagaanda og alvöru meistarahjarta að þeir eiga að vera meistarar. Þó þeir Robert Whittaker og Khabib Nurmagomedov séu alvöru meistararnir ennþá þá eru Adesanya og Poirier ekkert mikið síðri í mínum augum eftir þetta.

Khalil Rountree sýndi síðan geggjuð tilþrif gegn Eryk Anders og er hann að þróast vel sem bardagamaður. Rountree kýldi Anders fjórum sinnum niður í 2. lotu og var búinn að sparka lappirnar hans sundur og saman. Þetta er eitt af þeim tilvikum þar sem maður hefði ekki haft neitt á móti því að sjá hornið kasta inn handklæðinu eftir 2. lotu. Anders átti bara ekki séns en hann hefur nú tapað fjórum af síðustu fimm bardögum sínum eftir að hafa unnið fyrstu 10 atvinnubardaga sína.

Páskarnir eru næstu helgi og þar er fremur ómerkilegt UFC bardagakvöld á dagskrá í Rússlandi. Þar mætast þeir Alistair Overeem og Alexey Oleinik í aðalbardaga kvöldsins.

Embed from Getty Images

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular