spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC 238

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 238

UFC 238 fór fram á laugardaginn og var bardagakvöldið mjög skemmtilegt. Henry Cejudo skráði nafn sitt í sögubækurnar og Valentina Shevchenko átti magnað rothögg.

Henry Cejudo kláraði Marlon Moraes í 3. lotu í aðalbardaga kvöldsins. Cejudo er þar með fluguvigtar- og bantamvigtarmeistari UFC. Cejudo var í miklu brasi til að byrja með og var Moraes að negla í lappirnar hans. Hann var samt bara nokkuð rólegur og tók svo yfir í 3. lotu.

Cejudo hefur undanfarið verið duglegur að lýsa því yfir að hann sé núna besti bardagaíþróttamaður (e. combat sports athlete) allra tíma. Cejudo er núna tvöfaldur UFC meistari og tók gull á Ólympíuleikunum í ólympískri glímu árið 2008. Það má deila um hver sé sá allra besti en ljóst að sennilega hefur enginn unnið stærstu titlana í fleiri en einni bardagaíþróttagrein. Þessi titill, besti bardagaíþróttamaður allra tíma, er nokkuð sem fáir voru að spá í þar til Cejudo fór að tala um þetta.

Embed from Getty Images

Cejudo fær mikla athygli fyrir fremur bjánalega og hallærislega tilburði utan búrsins en kannski er það aðeins að skemma fyrir honum. Fólk nennir honum ekki og virðist frekar vera að afskrifa hann þegar hann segist vera besti bardagamaður heims, pund fyrir pund, þrátt fyrir að hann eigi fullt erindi þar. Ef hann væri ekki svona leiðinlegur fengi hann kannski meiri virðingu sem bardagamaður?

Cejudo stakk síðan upp á bardögum við goðsagnir á borð við Dominick Cruz, Urijah Faber og Cody Garbrandt fyrir sinn næsta bardaga. Cejudo er ekki að fara að mæta neinum af þeim næst lofa ég að fullyrða og var líka Dana White, forseti UFC, fljótur að skjóta það niður. Síðan er dálítið skrítið að setja Garbrandt í sama flokk og Cruz og Faber.

Spurningin er samt hvaða belti ætlar Cejudo að verja næst? Enginn af tvöföldu meisturunum (Conor McGregor, Daniel Cormier og Amanda Nunes) hefur tekist að verja bæði belti á sama tíma. Cormier lét léttþungavigtarbeltið af hendi, Conor var sviptur báðum titlum en Nunes er enn með bæði beltið og er með titilvörn í bantamvigtinni á dagskrá í júlí. Það er ekki mikið um að vera í fluguvigtinni og verður áhugavert að sjá hver næstu skref verða.

Embed from Getty Images

Valentina Shevchenko gerði síðan það nákvæmlega það sem búist var við af henni gegn Jessica Eye en gerði það betur en búist var við. Rothöggið hennar verður sennilega eitt af rothöggum ársins þegar árið verður gert upp.

Spurning hvort næstu bardagar hennar verði svona eins og fyrstu titilvarnir Joanna Jedrzejczyk þegar strávigtin var að taka á sig mynd? Þ.e. mjög einhliða bardagar meistaranum í vil. Valentina virðist vera með mikla yfirburði í fluguvigtinni og spurning hvort hún verði með algjöra yfirburði næstu tvö árin. Maycee Barber er efnileg til að mynda en á langt í Shevchenko enn sem komið er.

Tony Ferguson vann sinn 12. bardaga í röð þegar hann sigraði Donald Cerrone. Það var mikill hasar í bardaganum og stóðst bardaginn væntingar þó endirinn hafi verið dálítið svekkjandi. Ferguson sýndi þó yfir þessar 10 mínútur að hann var klárlega betri bardagamaður.

Léttvigtin er svo flókin alltaf að Tony Ferguson getur ekki gert neitt annað nema að bíða eftir bardaga Khabib Nurmagomedov og Dustin Poirier. Hann gæti auðvitað tekið bardaga gegn Justin Gaethje eða annað slíkt en þarf þess alls ekki. Hann er fyrir löngu búinn að tryggja sér titilbardaga og þarf bara að bíða. Það væri þó alveg dæmigert fyrir Ferguson ef Khabib meiðist og hann þurfi að bíða enn lengur því ekki hefur Ferguson barist oft á síðustu árum.

Bardagakvöldið var frábær skemmtun enda var gríðarlegur fjöldi af hæfileikaríkum keppendum á kvöldinu. Það er frí næstu helgi hjá UFC en þann 22. júní er UFC með bardagakvöld í Suður-Karólínu.

Embed from Getty Images
spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular