spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC 251

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 251

Embed from Getty Images

UFC 251 fór fram í Abu Dhabi á laugardaginn. Þrír titilbardagar voru á dagskrá en hér eru Mánudagshugleiðingar eftir bardagakvöldið.

Kamaru Usman vann Jorge Masvidal eftir dómaraákvörðun. Sigurinn var frekar öruggur og tókst Masvidal varla að meiða meistarann. Bardaginn var ekkert sérstaklega skemmtilegur og það þarf ekkert að þykjast vera einhver MMA-hipster til að segja að þetta sem Usman gerir sé ógeðslega skemmtilegt. Þetta virkar, Usman er meistari og vinnur, en þetta er ekkert geggjuð skemmtun.

Usman er ekki eini meistarinn sem er að vinna með glímulegri nálgun. Manni fannst samt alltaf Georges St. Pierre, Cain Velasquez, Matt Hughes og fleiri vera að reyna meira að klára þetta. Usman virkar of oft eins og hann sé sáttur með að halda andstæðingnum upp við búrið og stappa á fótum andstæðingsins. Þegar leið á bardagann tókst Usman betur að taka Masvidal niður og þar var hann með ágætis högg í gólfinu. Það vantar samt eitthvað í leikinn hans sem t.d. Khabib Nurmagomedov er með sem gerir þetta meira áhugavertt.

Það má líka velta því fyrir sér hvaða hljóð hefðu heyrst úr stúkunni á laugardaginn ef áhorfendur hefðu verið viðstaddir bardagann. Sérstaklega þar sem Masvidal er gríðarlega vinsæll þessa dagana.

Masvidal tók bardagann vissulega með skömmum fyrirvara en ég er ekkert svo viss um að úrslitin hefðu verið önnur ef fyrirvarinn hefði verið lengri. Usman er einfaldlega besti veltivigtarmaður heims í dag og ég held að hann geti gert nákvæmlega þetta við alla í veltivigtinni eins og staðan er núna. Masvidal sýndi frábæra felluvörn á köflum en náði ekki að ógna nógu mikið standandi sem fær mig til að halda að þetta hefði farið eitthvað mikið öðruvísi með lengri undirbúningi fyrir Masvidal.

Usman er búinn alla 12 bardaga sína í UFC sem er ansi vel gert. 12-bardaga sigurganga hans er núna sú 6. lengsta í sögu UFC. Gilbert Burns fær líklegast næsta tækifæri og verður áhugavert að sjá hvað Usman gerir gegn liðsfélaga sínum þar.

Jorge Masvidal er enn stór stjarna þrátt fyrir tapið. Nýjustu tölur herma að 1,3 milljónir hafi keypt Pay Per View-ið og má reikna með að stór hluti hafi verið aðdáendur Masvidal. Talað er um annan bardaga gegn Nate Diaz en persónulega hef ég engan áhuga á því. Masvidal vann allar loturnar gegn Nate Diaz mjög örugglega þegar þeir mættust í nóvember burtséð frá þessum skurði sem gerði út um bardagann. Bardagi gegn Conor McGregor er eitthvað sem myndi heilla vel. Það væri nokkuð rökrétt skref fyrir alla aðila á þessari stundu. Það er bara spurning hvort UFC tími að henda svo stórum stjörnum í búr en á sama tíma fá 0 kr. í miðasölu fyrir það.

Embed from Getty Images

Alexander Volkanovski sigraði Max Holloway eftir klofna dómaraákvörðun. Þetta var fyrsta titilvörn Volkanovski en ákvörðun dómaranna var umdeild. Að mínu mati vann Holloway en þetta var alls ekkert rán. Þetta var bara mjög jafn bardagi. Holloway vann klárlega fyrstu tvær loturnar og kýldi Volkanovski niður í 1. og 2. lotu. Þetta er samt ekki box þar sem „knockdown“ þýðir sjálfkrafa 10-8 lota. Dómararnir hafa nokkrar sekúndur eftir hverja lotu til að ákveða hver vann lotuna og 10-8 lotur eru sjaldgæfar. Dómararnir eru í raun að skora fimm staka bardaga yfir fimm lotu bardaga. Síðustu þrjár loturnar voru mjög jafnar (Holloway vann fyrstu tvær og Volkanovski 3. og 4. lotu hjá öllum dómurum) en á endanum var það fimmta lotan sem úrskurðaði sigurvegarann.

Gallinn við þennan sigur Volkanovski (og þá ákvörðun UFC að henda Holloway strax aftur í Volkanovski) er sú staðreynd að Holloway er 0-2 gegn ríkjandi meistara. Það verður mjög erfitt fyrir Holloway að sannfæra UFC um að gefa sér annan titilbardaga á meðan Volkanovski er meistari. Holloway er því kominn í ákveðna klemmu í fjaðurvigtinni. Hann gæti endað á að verða einhver hliðvörður á meðan Volkanovski er meistari. Holloway er bara 28 ára gamall og alltof góður til að vera einhver hliðvörður.

Embed from Getty Images

Petr Yan kláraði Jose Aldo með tæknilegu rothöggi í 5. lotu. Bardaginn var einfaldlega frábær og með betri bardögum ársins. Þetta var jafnt, skemmtilegt, tæknilegt og bara flottur fimm lotu bardagi. Endirinn var samt sorglegur þar sem dómarinn Leon Roberts leyfði bardaganum að halda alltof lengi áfram. 11 sinnum kallaði Roberts „Fight back“ en leyfði samt bardaganum að halda áfram. Óskiljanleg ákvörðun hjá Roberts þegar Aldo var augljóslega búinn og átti ekkert eftir. Algjörlega óþarfi að láta goðsögn eins og Aldo taka svona barmsíðar. Þetta var bara ógeðslegt.

Burtséð frá því var þetta frábær frammistaða hjá Petr Yan. Hann var geggjaður og er bantamvigtarmeistari UFC. Frammistöður hans verða bara betri og betri eftir því sem hann klífur hærra. Ég er samt ekki alveg sannfærður um að hann sé besti bantamvigtarmaður heims ennþá. Aldo er flottur en er 2-5 í síðustu sjö bardögum sínum. Þessa dagana eru það Aljamain Sterling og Marlon Moraes sem Yan þarf að sigra til að sýna mér að hann sé besti bantamvigtarmaður heims. Vonandi eru það bardagar sem eru á næsta leiti en eitt er víst að bantamvigtin hefur sennilega aldrei verið jafn spennandi.

Rose Namajunas sigraði Jessica Andrade í hörku bardaga. Mjög skemmtilegur bardagi líkt og sá fyrri. Það er alltaf gaman að sjá Namajunas og verður bardagi gegn Wheili Zhang algjör veisla!

Dagar Paige VanZant í UFC eru sennilega taldir. Hún ætlar að kanna virði sitt á frjálsum markaði og það er eitthvað sem segir mér að Bellator muni bjóða henni betri samning en UFC gerir. Það væri áhugavert ef VanZant færi sömu leið og Sage Northcutt en UFC fékk sinn skerf af gagnrýni fyrir að gefa þeim gefins bardaga á sínum tíma til að byggja þau upp. Nú eru þau mögulega bæði horfin úr UFC.

VanZant fékk svo sannarlega ekki auðveldan bardaga um síðustu helgi enda er Ribas ein sú mest spennandi í flokknum í dag. Sennilega var þetta góð kveðjugjöf frá UFC að senda stórhættulega en tiltölulega óþekkta bardagakonu í búrið með VanZant.

Að lokum verð ég að segja að þrír titilbardagar á einu kvöldi er eiginlega of mikið. Bardagakvöldið byrjaði kl. 22 og var búið kl. 6 um morguninn. Þetta var átta tíma útsending og erfitt að vaka svo lengi hérna megin við Atlantshafið verð ég að segja.

Næsta bardagakvöld UFC er strax á miðvikudaginn þegar þeir Calvin Kattar og Dan Ige mætast í aðalbardaga kvöldsins.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular