UFC 254 fór fram um síðustu helgi og var gjörsamlega frábær skemmtun. Khabib lagði hanskana á hilluna og léttvigtin er galopin en hér eru Mánudagshugleiðingar eftir helgina.
Mikil spenna var fyrir bardagakvöldið og þó nokkrir stórir bardagar hafi dottið upp fyrir stóð bardagakvöldið undir væntingum. Aðeins þrír af 12 bardögum kvöldsins fóru allar loturnar og sáum við mörg frábær tilþrif. Þetta var stórt kvöld, mikill áhugi á kvöldinu og var þetta sennilega eitt stærsta bardagakvöld ársins.
Khabib Nurmagomedov var með stjörnuframmistöðu í sigrinum gegn Justin Gaethje í aðalbardaga kvöldsins. Það voru eflaust ekki margir sem bjuggust við að Khabib myndi láta sig falla á bakið og klára Gaethje með „triangle“ hengingu. Það má segja að það hafi verið viðeigandi endir á ferli Khabib enda kláraði hann sinn fyrsta atvinnubardaga með „triangle“ hengingu líka.
Í mínum huga var Justin Gaethje sá eini sem myndi eiga einhverja von gegn Khabib. Maður getur alveg hætt að spá andstæðingum hans einhverri velgengni eftir þetta því Khabib nær þeim öllum niður og nær alltaf að gera sitt. Gaethje gerði vel í fyrstu lotu (og vann þá lotu) en hann virtist ekki geta haldið sama tempói og Khabib. Pressan varð alltaf meiri og meiri hjá Khabib og Gaethje hafði ekki undan við að komast frá honum. Miðað við hvernig Khabib er í dag mun enginn vinna hann. Kannski ef það er einhver samblanda af Israel Adesanya, Gordon Ryan og já, Khabib. Kannski..
Embed from Getty ImagesVið þurfum heldur ekkert að pæla í hver gæti átt séns í Khabib því hann er hættur eins og hann lýsti yfir eftir bardagann. Ólíkt sumum bardagamönnum þá trúi ég honum þegar hann segist vera hættur. Það var greinilega hrikalega erfitt fyrir Khabib að berjast án föðurs síns sem féll frá í sumar. Tíminn græðir sárin og allt það en ég held að það sé ekkert sem fær Khabib til að vilja berjast áfram. Hann á nóg af peningum, er 29-0 og lofaði mömmu sinni að hætta að berjast eftir þennan bardaga.
Það gerir mig sorgmæddan. Mér finnst leiðinlegt að hugsa til þess að maður sjái hann aldrei berjast aftur. Hann er líka ennþá ógeðslega góður og sá langbesti í heiminum. Mér finnst smá eins og jólin hafi verið að klárast nema þau koma ekki á næsta ári. Það er svo spennandi að sjá hvað hann gerir í búrinu gegn heimsklassa andstæðingum – að sjá hæfileikaríka bardagamenn vera svo ráðalausir gegn honum, það er engu líkt að sjá það. Hann er líka orðinn risa stjarna í dag og mikill áhuga á honum. Það er því mikill missir að missa hann úr sportinu. Maður samgleðst honum fyrir að hætta á meðan hann er ennþá frábær en ég myndi ekkert hata það ef hann myndi taka tvö góð ár í viðbót.
Eftir svona sigur kemur alltaf upp sama GOAT umræðan; hver er sá besti frá upphafi? Það er tilefni í aðra langa grein en fyrir mitt leiti er þetta besti bardagamaður sem ég hef séð en er kannski ekki með allra bestu ferilskrána.
Khabib gæti gert mun meira í þessari íþrótt, þess vegna farið upp í veltivigt og tekið beltið af Usman að mínu mati, en það er bara ekki það sem hann vill gera. Frábærum ferli Khabib er lokið. 29-0, 13-0 í UFC og einn sá besti sem hefur sett á sig hanskana.
Fyrir vikið er léttvigtin galopin. Menn eins og Conor McGregor, Dustin Poirier, Justin Gaethje, Dan Hooker, Tony Ferguson og auðvitað nýliðinn Michael Chandler munu gera tilkall til titilsins. Það verður spennandi að sjá hvað UFC ætlar að gera með léttvigtina núna. UFC gæti hent í geggjað útsláttarmót með fyrrnefndum keppendum og mönnum eins og Charles Oliveira, Paul Felder, Diego Ferreira og Islam Makhachev en UFC er aldrei að fara að henda í þannig mót. Ég giska á að bardagi Conor og Poirier þann 23. janúar verði titilbardagi.
Embed from Getty ImagesRobert Whittaker átti frábæra frammistöðu gegn Jared Cannonier í næstsíðasta bardaga kvöldsins. Whittaker hefur sýnt það í síðustu tveimur sigrum (gegn Till og Cannonier) að hann er langt frá því að vera búinn og hefur náð ágætis endurkomu á þessu ári. Hann er ennþá einn af þeim bestu í flokknum en nú er spurning hver fær næsta titilbardaga.
Ef Jared Cannonier hefði unnið Whittaker hefði verið nokkuð borðleggjandi að henda Cannonier í meistarann Israel Adesanya. Eftir sigur Whittaker er staðan orðin ögn flókin. Það er ekki langt síðan Adesanya pakkaði Whittaker saman og er kannski full snemmt að setja þann bardaga aftur saman. Whittaker vill auk þess taka sér gott frí til áramóta og býst við að berjast næst í lok febrúar eða mars. Það verður því áhugavert að sjá hvað UFC ætlar sér að gera með Adesanya? Þeir Jack Hermansson og Darren Till mætast í desember og gæti sigurvegarinn þar fengið titilbardaga. Svo gæti Adesanya jafnvel bara farið í einhvern ofurbardaga við Jon Jones? Það er í það minnsta ekki augljóst hver næsti titilbardagi í millivigtinni verður.
Eins og áður segir var þetta virkilega skemmtilegt bardagakvöld. Þrír nýliðar áttu frábærar frammistöður á kvöldinu. Phil Hawes steinrotaði Jacob Malkoun eftir aðeins 18 sekúndur. Hawes hefur lengi verið talinn mikið efni og tími til kominn að hann láti ljós sitt skína meðal þeirra bestu. Shavkat Rakhmonov kláraði Alex Oliveira með „guillotine“ hengingu í 1. lotu og leit mjög vel út. Þá var Miranda Maverick mjög hættuleg gegn Liana Jojua í frumraun sinni en hún gæti farið langt í fluguvigt kvenna.
Annars var þetta þrælskemmtilegt bardagakvöld en næstu bardagakvöld verða öll í minni kantinum. Næstu helgi mætast þeir Anderson Silva og Uriah Hall í aðalbardaga kvöldsins en þetta verður kveðjubardagi Anderson Silva.
Embed from Getty Images