spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Bisping vs. Gastelum

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Bisping vs. Gastelum

UFC var með ansi skemmtilegt bardagakvöld í Sjanghæ síðastliðinni laugardag. Þeir Michael Bisping og Kelvin Gastelum mættust í aðalbardaga kvöldsins en hér eru Mánudagshugleiðingar eftir helgina.

Bardagakvöldin í Asíu eru alltaf á svo þægilegum tíma hér í Evrópu. Fátt betra en að byrja laugardaginn á nokkrum bardögum. Mætti vera oftar.

Michael Bisping tók þennan bardaga með aðeins nokkurra daga fyrirvara og barðist hann því tvo bardaga með þriggja vikna millibili í nóvember. Flestum fannst þetta of snemmt fyrir Bisping fyrir bardagann og enn fleiri gagnrýnisraddir heyrðust í kjölfarið á rothögginu sem hann varð fyrir.

Það var eitthvað við Bisping í þessum bardaga sem var öðruvísi. Það var eins og hann væri þarna bara til að fá góða ávísun. Hann var ekki eins æstur og upptrekktur líkt og vanalega og svo var sorakjafturinn hans ekki til staðar í aðdraganda bardagans. Í huganum er hann sennilega smá hættur en hans næsti bardagi verður hans síðasti á ferlinum. Kveðjubardaginn mun fara fram í mars á næsta ári í London.

Kannski er mars jafnvel aðeins of snemmt fyrir Bisping eftir þetta rothögg. Eftirá að hyggja var þetta ekki góð ákvörðun hjá Bisping að taka þennan bardaga gegn Gastelum. Hann var kýldur niður gegn GSP fyrir aðeins þremur vikum síðan og var svo aftur mættur í búrið. Þrátt fyrir að vera kýldur niður fékk Bisping ekkert æfinga- og keppnisbann sem er athyglisvert. Læknar mátu það sem svo að hann væri í lagi eftir bardagann gegn GSP en ætti ekki að vera að minnsta kosti 30 daga keppnisbann þegar menn eru kýldir niður? Bisping sér þó ekki eftir neinu í dag og stendur og fellur með þessari ákvörðun sinni. Þjálfarar hans hefðu kannski átt að banna Bisping að taka þennan bardaga en Bisping hefði sennilega ekki hlustað á það.

Núna hefur Bisping hlotið nokkuð þung högg í síðustu átta bardögum. Kelvin Gastelum rotaði hann, Georges St. Pierre, Dan Henderson, Anderson Silva, C.B. Dollaway og Luke Rockhold kýldu hann allir niður. Bisping hefur núna verið sleginn niður 12 sinnum í UFC og er það met í bardagasamtökunum. Met sem enginn vill eiga.

Með sigrinum fer Kelvin Gastelum pottþétt á topp 5 á styrkleikalista millivigtarinnar. Hann leit bara vel út í bardaganum og óskaði eftir bardaga gegn bráðabirgðarmeistaranum Robert Whittaker í Ástralíu. Óljóst er hvað millivigtarmeistarinn Georges St. Pierre gerir næst en bardagi Whittaker og Gastelum væri flott viðureign. Athyglisvert er að sjá að þrír bardagamenn á topp 5 í millivigtinni núna eru allt fyrrum bardagamenn í veltivigtinni; Kelvin Gastelum, Robert Whittaker og Georges St. Pierre.

Nokkur skemmtileg tilþrif litu dagsins ljós á kvöldinu. Li Jingliang náði flottum sigri á heimavelli fyrir framan konu sína og barn. Alex Caceres komst upp með að sparka þrisvar sinnum í klof Wang Guan í viðureign þeirra og fékk alltaf bara viðvörun. Þá átti Zabit Magomedsharipov magnaða frammistöðu þegar hann kláraði Sheymon Moraes með anaconda hengingu í 3. lotu. Ein besta frammistaða kvöldsins og er þetta nafn sem vert er að fylgjast vel með í náinni framtíð.

Næstu helgi fara svo tvö bardagakvöld fram. Á föstudaginn er TUF Finale og á laugardaginn er UFC 218 þar sem þeir Max Holloway og Jose Aldo mætast í aðalbardaga kvöldsins.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular