spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Cerrone vs. Till

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Cerrone vs. Till

UFC hélt bardagakvöld í Póllandi á laugardaginn. Óvænt úrslit létu sjá sig í aðalbardaga kvöldsins en hér eru Mánudagshugleiðingarnar eftir bardagakvöldið.

Darren Till kláraði Donald Cerrone með tæknilegu rothöggi í 1. lotu í aðalbardaga kvöldsins. Till var fljótur að taka stjórn á bardaganum og var ekki lengi að hitta í andlit Cerrone. Kúrekinn hefur alltaf átt í erfiðleikum með andstæðinga sem pressa mikið og hefur alltaf átt það til að vera lengi í gang. Það nýtti Darren Till sér og gerði það frábærlega vel.

Darren Till þakkaði Cerrone fyrir tækifærið eftir bardagann og það með réttu. Ansi margir í stöðu Cerrone (í 6. sæti á styrkleikalista UFC í veltivigtinni og stórt nafn) hefðu ekki tekið bardaga gegn tiltölulega óþekktum andstæðingi á litlu bardagakvöldi í Póllandi. En það gerði Cerrone og naut Till góðs af því.

Cerrone hafði til lítils að vinna en miklu að tapa. Það hefði alveg verið skiljanlegt ef Cerrone hefði hafnað þessum bardaga en hann er alltaf til í að berjast og er sama um alla styrkleikalista. Þetta er hins vegar frábært fyrir aðdáendur þegar svona gerist því nú fáum við ferskt blóð í titilbaráttuna.

Alltof oft hafna menn bardögum þar sem þeir vilja bara bardaga gegn einhverjum sem er fyrir ofan þá á styrkleikalistanum eða stærra nafn. Ef allir myndu gera það myndi enginn berjast. Það er skiljanlegt að menn horfi á þá sem eru á undan í röðinni en stundum er ágætt að bardagamenn hafi ekki fullt ákvörðunarvald (þó Cerrone hafi ekki haft neitt á móti þessum bardaga) þegar kemur að bardögum sínum.

2017 hefur verið hörmulegt ár fyrir Donald Cerrone í búrinu og er núna búinn að tapa þremur bardögum í röð. Hann byrjaði á að vera rotaður af Jorge Masvidal í janúar, tapaði svo fyrir Robbie Lawler í hörku bardaga á UFC 214 og tapaði nú eftir tæknilegt rothögg um helgina.

Þó Cerrone hafi unnið Matt Brown í lok síðasta árs má ekki gleyma því að hann var kýldur niður í þeim bardaga. Það hafði ekki gerst í langan tíma og tók hann þá slæmu ákvörðun að berjast aftur sex vikum seinna. Það er aldrei góð hugmynd eftir að hafa verið kýldur niður.

Eru dagar Cerrone sem einn af þeim bestu taldir? Hann var á magnaðri fjögurra bardaga sigurgöngu í fyrra og var einn af bardagamönnum ársins en það sama er ekki hægt að segja um árið í ár. Cerrone getur sennilega ennþá unnið flesta bardagamenn í heiminum í dag en kannski er hann ekki lengur einn af topp 5-10 bestu í heiminum. Við höfum áður séð að þegar menn byrja að tapa getur fallið orðið ansi hratt.

Cerrone hefur alltaf verið þekktur fyrir að vilja berjast við hvern sem er, hvar sem er og hvenær sem er. Ef hann væri fæddur 150 árum fyrr myndi hann sennilega stunda það að flakka á milli bæjarfélaga og skora á harðasta gæjann í bænum í smá slag. Bardagaaðdáendur elska það í fari Cerrone og vildu óska þess að fleiri væru eins og hann. En staðreyndin er hins vegar sú að það er einfaldlega ekki skynsamlegt. Líkaminn þolir bara ákveðið mikið. Cerrone er búinn með 43 bardaga í MMA og 29 í sparkboxi. Það er kannski ekkert svo skrítið að hann sé farinn að dala 34 ára gamall.

Það verður gaman að sjá hvað Darren Till gerir eftir þennan sigur og hvern hann fær næst. Till og Mike Perry byrjuðu strax að drulla yfir hvorn annan þegar Till var ennþá í búrinu en gáfnaljósið Mike Perry er nú þegar með staðfestan bardaga við Santiago Ponzinibbio í desember. Till barðist líka í september og gæti kannski viljað fá smá pásu áður en hann fær næsta bardaga. Flestir á toppnum eru með bókaðan bardaga eins og er smá pása kannski bara nauðsynleg áður en hann tekur næstu skref.

Till er flottur strákur sem gæti orðið ágætis stjarna ef hann heldur áfram að klára bardaga. Hann er bara 24 ára gamall og verður forvitnilegt að fylgjast með hans næstu skrefum.

UFC er nú með bardagakvöld allar helgar út árið en næstu helgi fáum við ansi skemmtilegt kvöld í Sao Paulo. Þá mætast þeir Derek Brunson og Lyoto Machida í aðalbardaga kvöldsins en einnig fáum við að sjá Demian Maia og Colby Covington eigast við.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular