UFC var með lítið bardagkvöld á laugardaginn í Rochester í New York. Rafael dos Anjos sigraði Kevin Lee í aðalbardaga kvöldsins en hér eru Mánudagshugleiðingar eftir bardagakvöldið.
Rafael dos Anjos kláraði Kevin Lee með „arm triangle“ hengingu í 4. lotu. Bardaginn var mjög skemmtilegur fyrir glímuáhugamenn og áttu báðir sína spretti.
Sigurinn var mikilvægur fyrir dos Anjos en hann hafði tapað tveimur bardögum í röð fyrir bardagann. Hann heldur stöðu sinni sem einn af topp bardagamönnunum í veltivigtinni á meðan Kevin Lee er í meiri óvissu.
Þetta var þriðja tap Lee í síðustu fjórum bardögum. Í öllum bardögunum hefur hann orðið verulega þreyttur þegar líður á bardagann. Töpunum gegn Ferguson og Iaquinta má kannski kenna erfiðum niðurskurði um en nú var hann í veltivigt. Hann eyddi mikilli orku í að reyna að ná fellunum gegn dos Anjos og kannski þarf hann bara að aðlagast nýjum þyngdarflokki. Það er nú ekki langt síðan dos Anjos var í léttvigt eins og Kevin Lee og held ég að mikill stærðarmunur hafi ekki haft mikið að segja um úrslitin.
Ég held frekar að Kevin Lee sé bara ekkert svo góður. Hann er mjög góður bardagamaður, bara ekki nógu góður til að vinna topp fimm bardagamenn í dag. Hann er með frekar takmarkaða færni í búrinu og er ekki nógu góður í því sem hann er góður í til að vera með þeim allra bestu.
Hann er samt bara 26 ára gamall og hefur tíma til að taka framförum. Hann er orðið ágætis nafn í UFC og kemur vel fyrir. Úrslitin hafa bara ekki fallið með honum svo hann geti tekið næsta skref.
Annars náðu þau Ian Heinisch og Felicia Spencer í nokkuð óvænta sigra með frábærum frammistöðum. Michel Pereira sýndi síðan að hann er ekki bara skemmtilegur bardagamaður heldur getur hann unnið góða bardagamenn á borð við Danny Roberts. Pereira er kannski ekki að fara að verða einhver meistari en það verður alltaf gaman að horfa á hann. Mæli með að kíkja á þann bardagamann.
Næsta bardagakvöld verður í Svíþjóð þann 1. júní þegar Alexander Gustafsson mætir Anthony Smith í aðalbardaga kvöldsins.