spot_img
Wednesday, October 30, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: dos Santos vs. Ivanov

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: dos Santos vs. Ivanov

UFC var með fínasta bardagakvöld í Boise í Idaho í Bandaríkjunum á laugardaginn. Junior dos Santos sigraði Blagoy Ivanov í aðalbardaga kvöldsins en hér eru Mánudagshugleiðingar eftir bardagakvöldið.

Bardagi Junior dos Santos og Blagoy Ivanov var ekki besti þungavigtarbardagi allra tíma. Þetta var alls ekki slæmur bardagi en fátt markvert gerðist í bardaganum sem hægt er að tala um. Þetta var fínn sigur fyrir Junior dos Santos eftir erfitt tímabil en ekkert mikið meira en það. Dos Santos langar að fá þriðja bardagann gegn Stipe Miocic en líklegast væri skemmtilegra að sjá hann í ferskum bardaga gegn Curtis Blaydes eða Alexander Volkov. Báðir eru á fínu skriði og eru komnir nokkuð nálægt titilbardaga. Ivanov ógnaði ekki mikið í þessum 25 mínútna bardaga en átti nokkur ágætis högg sem smellhittu. Hann hefði þó getað gert meira yfir þessar 25 mínútur og var orðinn frekar kraftlaus í 4. lotu.

Sage Northcutt er núna 6-2 í UFC eftir tæp þrjú ár í bardagasamtökunum. Það fór ekki mikið fyrir bardaga hans gegn Zak Ottow fyrir helgi og er það kannski bara það sem hann þarf á þessu stigi. Hann er langt frá því að vera topp 15 bardagamaður í UFC enn sem komið er en er hægt og rólega að bæta í reynslubankann. Hann mun alltaf fá sinn skerf af athygli þegar hann berst en þarf kannski ekki að fá allt sviðsljósið þegar hann berst. Kannski er þetta rétta leiðin til að þróa hann. Gefa honum smá vinnufrið til að bæta sig hægt og rólega og þá erum við jafnvel með ansi efnilegan bardagamann.

Sage var í miklu basli í 1. lotu en hélt ró sinni og kom sterkur til baka í 2. lotu. Hann heldur vonandi áfram að bæta sig hjá Team Alpha Male og þá er aldrei að vita nema kurteisasti maðurinn í UFC fái að blanda geði við stóru strákana í veltivigtinni.

Chad ‘Money’ Mendes átti glæsilega endurkomu þegar hann rotaði Myles Jury í 1. lotu. Nauðsynlegur sigur fyrir hann og spurning hvort þessi 33 ára Bandaríkjamaður eigi ennþá erindi í topp 5 strákana í fjaðurvigt. Alexander Volkanovski átti magnaða frammistöðu þegar hann sigraði Darren Elkins og hefði að öllum líkindum klárað bardagann með rothöggi ef Elkins væri ekki svona ómannlega harður. Volkanovski er enn einn Ástralinn sem er að sýna sig og sanna á stærsta sviðinu í UFC og gæti verið framtíðar áskorandi í fjaðurvigtinni. Volkanovski vildi fá bardaga gegn Chad Mendes og væri það bara nokkuð áhugaverð viðureign.

Næsta bardagakvöld UFC fer fram í Hamburg í Þýskalandi á sunnudaginn en þar mætast þeir Mauricio ‘Shogun’ Rua og Anthony Smith í aðalbardaga kvöldsins.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular