spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: St. Preux vs. Okami

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: St. Preux vs. Okami

UFC var með bardagakvöld í Tokyo í Japan á föstudagsnóttina. Í aðalbardaga kvöldsins mættust þeir Ovince St. Preux og Yushin Okami.

Yushin Okami kom inn í þennan bardaga, hafandi barist í veltivigt undanfarin ár, með skömmum fyrirvara eftir að Shogun Rua meiddist. Okami var búinn að tappa út eftir tæpar tvær mínútur og hafði eiginlega ekkert að gera þarna gegn Ovince St. Preux (OSP) í léttþungavigt.

Það sást strax að hann var mun minni. Hann byrjaði á því að reyna fellu og dró svo OSP niður í smá „half-guard“ leik. Það gekk nákvæmlega ekkert. OSP kláraði hann með Von Flue hengingu sem er fáranlegt þar sem þetta er í þriðja sinn sem hann klárar bardaga með þessari sjaldgæfu hengingu. Fimm sinnum hefur mönnum tekist að ná þessu í UFC og á hann þrjá af þessum sigrum. Spurning um að breyta nafninu á hengingunni í Von Saint Preux henging?

OSP er líka fáranlega góður að ná þessari hengingu. OSP notaði hausinn til að ýta vinstri hönd Okami upp. Í kjölfarið gerði Okami þau mistök að grípa utan um haus OSP í augnablik en um leið klemmdi OSP vinstri hönd Okami (sjá á mynd að neðan) með hægri hönd sinni. Okami náði ekki vinstri höndinni til baka fyrr en bardaganum var lokið eða eftir að OSP hafði svæft hann.

Þessi sigur gerir í raun lítið fyrir OSP með tilliti til titilbardaga en fínt fyrir hann að fá annan sigur röð eftir þrjú töp í röð þar á undan. Okami fær væntanlega annað tækifæri í sínum þyngdarflokki, veltivigtinni, fyrir að bjarga aðalbardaga kvöldsins með svo skömmum fyrirvara.

Bardagi Claudia Gadelha og Jessica Andrade var frábær og einfaldlega blóðugt stríð. Strávigt kvenna er dálítið að vera eins og fluguvigtin að því leyti að skemmtilegustu og bestu bardagarnir eru milli þeirra sem tapað hafa fyrir ríkjandi meistara.

Andrade er núna 4-1 í strávigtinni og búin að vinna þá sem talin var vera sú næstbesta í strávigtinni. Hún þarf þó að gera aðeins meira til að fá annan séns gegn meistaranum Joanna Jedrzejczyk.

Claudia Gadelha var gjörsamlega búin á því þegar 2. lota var rúmlega hálfnuð. Kannski var hún að glíma við meiðsli í undirbúningnum og gat því ekki æft almennilega en þetta er ekki í fyrsta sinn sem hún gasar svona út. Kannski er niðurskuðurinn svona erfiður og ætti hún kannski að skoða það að fara upp í nýstofnaða fluguvigt kvenna. Hún tók líka nokkrar vafasamar ákvarðanir í bardaganum eins og að vera stöðugt að glíma við Andrade þrátt fyrir að vera að standa sig frekar vel í standandi viðureign. Glíman þreytti hana bara enn meira en það eru svo sem ekki margar sem vilja standa og skiptast á höggum við Andrade.

Gökhan Saki átti mjög skemmtilegan bardaga gegn Henrique da Silva og sigraði eftir rothögg í 1. lotu. Svona bardaga viljum við bara sjá hjá Saki – skemmtilegar standandi orustur gegn minni spámönnum. Hinn 33 ára Saki (með 96 sparkbox bardaga að baki) er sennilega ekki að fara klifra upp stigann í léttþungavigtinni þó stuttur sé stiginn. Vonandi heldur UFC sterkum glímumönnum frá honum í bili eða þar til hann hefur unnið nokkra bardaga í röð. Hann er sennilega ekki að fara að verða meistari í UFC en mikið óskaplega er gaman að horfa á hann!

Núna kemur viku frí hjá UFC áður en UFC 216 fer fram þann 7. október. Þar mætast þeir Tony Ferguson og Kevin Lee um bráðabirgðarbeltið í léttvigtinni.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular