spot_img
Monday, December 23, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Swanson vs. Ortega

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Swanson vs. Ortega

UFC heimsótti Fresno í Kaliforníu um helgina. Þar sáum við Brian Ortega klára Cub Swanson glæsilega í aðalbardaga kvöldsins og koma sér þannig ansi nálægt toppnum.

Brian Ortega kláraði Cub Swanson með „guillotine“ hengingu í 2. lotu. Ortega var einnig nálægt því að klára bardagann í 1. lotu þegar hann læsti „D’Arce“ hengingu en bjallan bjargaði Cub Swanson. Ef lotan hefði ekki klárast hefði Ortega sennilega klárað bardagann þá.

Um leið og hann komst nálægt Cub ógnaði Ortega með uppgjafartökum. Hann sýndi enn og aftur hversu ótrúlega hættulegur hann er og kom Swanson alltaf í vandræði. Swanson er sjálfur enginn aukvissi enda svart belti í brasilísku jiu-jitsu sjálfur en réði ekkert við Ortega í gólfinu.

Ortega hefur nú klárað alla sex bardaga sína í UFC og þar af tvo í röð með „guillotine“ hengingu. Hann hefur sýnt að hann er alvöru bardagamaður og afar hættulegur. Allir bardagar hans hafa líka verið mjög skemmtilegir og má þar helst nefna stríðið hans gegn Renato Moicano í sumar.

Ortega er nú kominn í röð þeirra bestu í fjaðurvigt UFC og verður eflaust kominn á topp 5 þegar nýr styrkleikalisti kemur út. Hann vill fá titilbardaga og segist vera tilbúinn að bíða eftir slíkum. Þó hann sé með sex sigra í röð er bara einn af þeim gegn topp 10 andstæðingi. Sagan segir líka að það er aldrei skynsamlegt að ákveða að bíða eftir titilbardaga. Auk þess viljum líka fá að sjá þennan mann berjast sem oftast!

Embed from Getty Images

Framtíð Cub Swanson er nú í hálfgerðri óvissu en þetta var hans síðasti bardagi á samningi hans við UFC. Cub tók áhættu með því að bíða með að endurnýja samninginn sinn og sú áhætta borgaði sig ekki í þetta sinn. Cub er orðinn 34 ára gamall og UFC sér eflaust ekki ástæðu til að gefa honum ríflega kauphækkun. Hann er sennilega búinn með sín bestu ár, er ólíklega að fara að bæta sig á þessu stigi og er sennilega ekki að fara að skora á meistarann á næstunni. Cub er þó alltaf mjög skemmtilegur á að horfa (enda verið þrisvar sinnum í röð í besta bardaga kvöldsins) og hvar sem hann endar mun hann skemmta áhorfendum.

Uppgjafartak Ortega var með þeim glæsilegri á árinu en eitt af rothöggum ársins fengum við einnig að sjá á laugardaginn. Marlon Moraes steinrotaði Aljamain Sterling með hnésparki sem smellhitti. Þetta var með grimmustu rothöggum sem maður sér. Moraes er nú með tvo sigra í röð gegn sterkum andstæðingum og spurning hvort fyrrum World Series of Fighting meistarinn sé að blanda sér í titilbaráttuna í bantamvigtinni?

Næsta UFC bardagakvöld fer fram í Kanada á laugardaginn þegar Rafael dos Anjos mætir Robbie Lawler í aðalbardaga kvöldsins.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular