0

Bjarki Ómarsson: Besta kvöld lífs míns

Bjarki Ómarsson vann sinn fyrsta atvinnubardaga síðastliðinn laugardag. Bjarki var mjög ánægður með sigurinn en veit að það er margt sem hann getur bætt.

Bjarki Ómarsson mætti Mehmosh Raza í fjaðurvigt á FightStar bardagakvöldinu á laugardaginn. Bjarki sigraði eftir klofna dómaraákvörðun í frábærum bardaga en Raza var með töluvert meiri reynslu í atvinnubardögum (4-1 fyrir bardagann). Þetta var fyrsti bardagi Bjarka í um það bil 18 mánuði og leið honum afar vel í búrinu.

„Mér leið bara mjög vel, fann ekki fyrir ring rust eða neitt þannig. Þreytan sem kemur alltaf upp í bardaga, ég var smá búinn að gleyma því og svo var þetta aðeins erfiðara þar sem loturnar voru lengri,“ segir Bjarki.

Mynd: Snorri Björns.

Dómararnir voru ekki sammála um hver væri sigurvegari bardagans en tveir dómarar gáfu Bjarka sigurinn á meðan sá þriðji gaf Raza sigurinn.

„Þegar bardaginn var búinn hélt ég smá að hann hefði unnið. Ég var kannski að stjórna bardaganum í fjórar mínútur í lotunni en hann bara eina mínútu en þá var ég búinn að gleyma öllu því góða sem ég gerði. Ég spurði Gunna [Nelson] strax eftir bardagann hvort ég væri að fara að vinna og hann var ekki í vafa um það. Mér brá smá þegar ég var krýndur sigurvegari.“

„Ég horfði síðan aftur á bardagann í gær [sunnudag] og reyndi að horfa bara sem áhorfandi. Þá fannst mér ég klárlega vinna bardagann. Ég rústaði 1. lotu, vann 2. lotu en hann gæti kannski hafa tekið hana og ég tók svo 3. lotu. Sem áhorfandi gaf ég þessum Bjarka Ómarssyni allar þrjár loturnar.“

„Ég var svolítið að brjóta mig niður í bardaganum. Alltaf þegar hann náði að gera eitthvað smá hugsaði ég að hann væri að vinna bardagann en það var ekki endilega þannig. Ég þarf að vinna aðeins í því. Ég ætlaði mér að dominate-a bardagann og braut mig þá smá niður þegar það var ekki að takast.“

Bjarki er núna 1-0 sem atvinnumaður og veit að hann getur gert betur en hann gerði á laugardaginn þó frammistaðan hafi verið mjög góð. „Ég er sáttur með að vinna en ekkert alltof sáttur með frammistöðuna. Hann var mjög góður, mun betri en ég hélt og það kom mér á óvart. Ég var alveg búinn að undirbúa mig fyrir stríð en samt ekki. Ég hélt smá að ég myndi taka þetta bara örugglega. Ég var sáttur með fullt af hlutum en ósáttur með margt. Ég er ekki sáttur með að ég skyldi hafa verið að eltast svona mikið við fellurnar en var ánægður með höggin og olnbogana hjá mér í gólfinu.“

Mynd: Snorri Björns.

Bjarki kveðst ekki hafa vanmetið Raza en dregur samt mikinn lærdóm að þessu. Hann einfaldlega verður alltaf að vera tilbúinn andlega í stríð. „Ég hugsaði eftir bardagann að ég þyrfti að passa mig að gera þetta ekki aftur, að vanmeta hann pínulítið. Ég hélt ekki að þetta yrði auðveldur bardagi og algjört rúst, en það var smá þannig hugsun hjá mér. Ég hefði klárlega tapað ef ég hefði verið kærulaus en þetta er samt eitthvað sem ég þarf að vinna í. Ég þarf bara alltaf að undirbúa mig eins og ég sé að fara á móti Robbie Lawler í fimm lotu stríð.“

Bjarki sýndi góða takta á öllum vígstöðum bardagans en eins og áður segir sótti hann of mikið í fellurnar að sínu mati. „Ég fór að reyna að taka hann svona mikið niður þar sem það gekk svo vel í 1. lotunni. Þá náði ég honum niður og gat notað olnbogana og fann ég bara að ég væri með hann þarna. Mér fannst ég stjórna honum svo vel þarna og hélt að ef ég myndi kannski ná honum aftur niður myndi ég geta klárað þetta. Ég fann að olnbogarnir mínir voru að hafa áhrif á hann og ég hélt að ef ég kæmist aftur í góða stöðu í gólfinu þar sem ég gæti notað olnbogana myndi hann brotna.“

Síðasta mínútan í bardaganum var ansi fjörug en þar henti Bjarki í alls kins spörk til að reyna að klára bardagann. „Ég var ekki viss hvernig dómararnir væru að dæma bardagann þannig að ég hélt ég yrði að klára bardagann til að vinna. Ég henti í allt og fann að tvö háspörk hittu vel, annað í kjálkann. Ég vonaði svo innilega að hann myndi detta niður en það gerðist ekki, hann var alveg grjótharður. Ég sá að hann fann fyrir þessum háspörkum hjá mér. Nokkur spörk í viðbót og hann hefði kannski dottið niður en þetta er harðasti gæji sem ég hef farið á móti. Þetta voru ekki laus spörk.“

Mynd: Snorri Björns.

Eftir 15 mínútna bardaga var Bjarki gjörsamlega búinn á því. Hann gat varla gengið til baka í búningsklefann og mátti ekkert vera að því að taka á móti faðmlögum frá vinum og aðstandenum. „Valentin [Fels, þjálfari] hélt mér eiginlega bara uppi á leið aftur í klefann. Þegar ég kom í klefann var ég með hausverk og mjög flökurt. Mig langaði bara að æla og hélt ég þá að ég væri með heilahristing. Daði [Jónsson, læknir] kíkti á mig, spurði mig nokkurra spurninga og gaf mér svo einhvern barnadjús. 40 sekúndum seinna leið mér strax betur og hausverkurinn alveg farinn.“

„Daði sagði að þetta hefði bara verið mikið blóðsykursfall og lýsti því fyrir mér hvað var að gerast. Hann sá enginn einkenni heilahristings en ég var bara gjörsamlega búinn á því eftir þetta, aldrei á ævinni verið eins þreyttur. Það er fyrst núna [mánudagskvöld] sem ég er að verða hress aftur,“ segir Bjarki og hlær.

Mynd: Snorri Björns.

Fyrsti atvinnubardaginn stóðst allar væntingar Bjarka og gott betur. „Þetta var besta kvöld lífs míns. Ógeðslega erfitt en svo ógeðslega gaman. Mig er búið að dreyma um þetta svo lengi. Að berjast þarna, fyrir framan alla þessa Íslendinga sem komu, fyrir framan pabba, systur mína og mág og bestu vini mína, það var geðveikt!“

Af Íslendingunum fimm sem kepptu á FightStar kvöldinu á laugardaginn var Bjarki Ómarsson sá eini sem vann. „Ég setti smá auka pressu á mig þegar ég sá að þetta var ekki að ganga nógu vel hjá okkur. En maður á ekki að láta það hafa áhrif á sig hvernig öðrum er að ganga.“

Bjarki mun nú taka því rólega yfir jólin en segist vera tilbúinn að taka næsta bardaga í mars á næsta ári. „Þetta voru ekki bestu æfingabúðirnar mínar ef ég á að segja eins og er. Andstæðingarnir voru svo oft að detta út og lengi vel var ég ekki með bardaga. Næst kem ég betur undirúinn til leiks og með betra þol.“

Bjarki er þar með sjöundi Íslendingurinn sem berst atvinnubardaga. Þetta var bara fyrsti atvinnubardaginn af mörgum og verður gaman að fylgjast með honum á næsta ári.

Pétur Marinó Jónsson

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is

-Æft bardagaíþróttir í 6 ár (fjólublátt belti í BJJ)
-BS í sálfræði
-Lýsi UFC á Stöð 2 Sport
-MMA fíkill
Pétur Marinó Jónsson

Comments

comments

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í 6 ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply