spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Thompson vs. Pettis

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Thompson vs. Pettis

UFC var með bardagakvöld í Nashville á laugardagskvöldið. Í aðalbardaga kvöldsins sáum við Anthony Pettis rota Stephen Thompson en hér eru Mánudagshugleiðingar eftir bardagakvöldið.

Anthony Pettis tókst það sem Tyron Woodley, Darren Till, Jorge Masvidal, Rory MacDonald, Jake Ellenberger og fleirum tókst ekki að gera – að rota Stephen Thompson. Eftir 58 bardaga í kickboxi og 19 í MMA var Thompson rotaður í fyrsta sinn í bardaga.

Það var samt magnað hversu vel Thompson tók tapinu. Hann grínaðist á spítalanum með rothöggið og fór svo sannarlega ekki í grafgötur með tapið. Það er í raun ótrúlegt hversu vel hann tók tapinu og er örugglega erfitt að finna einstakling sem líkar illa við Thompson. Toppdrengur!

Nú er Anthony Pettis skyndilega kominn í veltivigt og gæti fengið stóran bardaga þar næst. Hann hefur nú unnið bardaga í UFC í fjaðurvigt, léttvigt og veltivigt sem er ansi merkilegt. Ég efast samt um að hann muni gera eitthvað mikið í veltivigtinni. Hann var að tapa þangað til hann vann. Pettis lenti fimm höggum í höfuðið á Thompson allan bardagann en þar af voru þrjú þegar hann kláraði bardagann.

Pettis er skemmtilegur en ég sé hann ekki vinna marga topp 5 andstæðinga, hvorki í léttvigt né veltivigt. Hann er ennþá óstöðugur, þolir illa pressu og mun verða tekinn niður af næsta glímumanni sem hann mætir. Hann gerði samt nokkuð vel í þessum bardaga með því að nota lágspörkin vel og mögulega hægði það nógu mikið á Thompson til að högg Pettis smellhitti.

Það verður áhugavert að sjá hans næstu skref og mögulega gæti hann valdið smá uppnámi í veltivigtinni. Thompson var fyrir helgi nr. 3 á styrkleikalistanum í veltivigtinni og gæti Pettis mögulega endað á topp 5 í veltivigtinni á næsta lista þó það standist enga skoðun. Hann gæti líka rænt mögulegum stórum bardögum gegn t.d. Jorge Masvidal sem myndi skilja menn eins og Leon Edwards eftir með sárt ennið. Það er dálítið pirrandi út frá íþróttalegu sjónarmiði fyrir menn eins og Edwards en svona er nú þessi íþrótt stundum. Hann er samt ekki búinn að loka hurðinni á léttvigtina og gæti þess vegna fengið stóran bardaga gegn Conor McGregor í sumar.

Með innkomu Pettis munu sennilega margir falla um eitt sæti og þar á meðal Gunnar Nelson. Gunnar mun þá sitja í 15. og síðasta sætinu á styrkleikalistanum.

Embed from Getty Images

Eftir að Tyron Woodley tapaði beltinu var allt galopið fyrir Thompson að komast aftur í titilbardaga. Tapið setur hann þó langt aftur enda hefur hann núna aðeins unnið einn bardaga af síðustu fimm! Thompson er 36 ára gamall og verður athyglisvert að sjá hver næstu skref hans verða.

Curtis Blaydes náði síðan mjög öruggum sigri gegn Justin Willis. Mér fannst þetta sérstaklega skemmtilegt frammistaða enda fer Willis ákaflega í taugarnar á mér. Hann er ekki skemmtilegur bardagamaður, var með mikið skítkast fyrir þennan bardaga og reyndi að sannfæra fjölmiðla um að hann væri framtíðar stjarna fyrir UFC ef hann fengi aðeins meiri kraft í kynningarstarfinu. Willis hélt því fram að hann gæti orðið eitthvað svaka nafn sem myndi selja miða og Pay Per View en var svo langt frá því að standa undir stóru orðunum á laugardaginn. Hann sagðist ætla að verða þungavigtarmeistari og svo sannfæra UFC um að opna ofurþungavigt (ekkert þyngdartakmark) en eftirspurnin eftir ofurþungavigt er við frostmark.

Mér finnst allt við hann bara vera áberandi kjánalegt enda er hann mjög óspennandi bardagamaður. Það var bara allt kjánalegt við hann. Hann fékk tækifæri gegn topp fimm þungavigtarmanni og átti aldrei séns. Þegar menn eru með mikinn kjaft og líta stórt á sig verða þeir að standa undir því en það gerði Willis svo sannarlega ekki.

Maycee Barber náði síðan ágætis sigri gegn JJ Aldrich. Þetta gekk þó ekki vandræðalaust enda var Barber kýld niður í 1. lotu. Barber komst yfir erfiðleika og fer þetta beint í reynslubankann hjá þessari tvítugu stelpu. Barber ætlar sér að verða yngsti meistari í sögu UFC (Jon Jones á metið núna) en þarf að bæta sig hratt ef hún ætlar að eiga séns í Valentinu Shevchenko. Það er samt gaman að henni og sjáum til hvort hún nái að bæta sig nógu hratt til að verða meistari á næstu tveimur árum.

Næsta bardagakvöld er ansi spennandi á pappír. Þá mætast þeir Edson Barboza og Justin Gaethje í aðalbardaga kvöldsins og er það bardagi sem enginn má missa af!

Embed from Getty Images

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular