0

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Thompson vs. Till

Embed from Getty Images

UFC hélt í fyrsta sinn bardagakvöld í Liverpool um helgina. Heimamaðurinn Darren Till var í aðalbardaga kvöldsins gegn Stephen Thompson en hér eru Mánudagshugleiðingar eftir bardagakvöldið.

Stóra stund Darren Till

Áhorfendur létu vel í sér heyra eins og þeir eru frægir fyrir um þessar slóðir og þegar Darren Till gekk í búrið undir laginu Sweet Caroline með Neil Diamond ætlaði þakið gjörsamlega að rifna af Echo Arena. Darren Till er kokhraustur ungur maður sem minnir á margan hátt á Conor McGregor fyrir nokkrum árum. Hann segist ætla að verða bestur í heimi en hvernig sem það fer hleypir hann fersku lofti í UFC sem sárvantar stjörnur. Þessi bardagi var mikil áhætta fyrir alla. Ef Thompson hefði tekið Till  í sundur hefði það verið slæmt bakslag og sálfræðilega erfitt fyrir stórt egó. UFC hefði þurft að fresta upprisu mögulegarar stjörnu með ófyrirséðum afleiðingum. Á sama tíma var bardaginn mikil áhætta fyrir Thomson sem var efstur á styrkleikalista UFC en tók bardaga á móti ungum ofurhuga, sjö sætum neðar. Ekki hjálpaði til að Till náði ekki vigt en það varpaði skugga á bardagann. Mín persónulega skoðun er sú að bardagamaður sem nær ekki vigt ætti ekki að hækka á styrkleikalistum sigri þeir í kjölfarið.

Bardaginn sjálfur var ekki sá skemmtilegasti en þetta var áhugaverð skák og mikil taktík þeirra á milli. Persónulega fannst mér Thompson vinna þrjár lotur af fimm en bardaginn var í raun hnífjafn eins og tölurnar sýna (sjá mynd). Thompson sýndi frábæra tækni en hann þarf einfaldlega að vera vinnusamari ef hann vill tryggja sér sigur í bardögum sem þessum. Till pressaði allan tímann en sennilega hafa lætin í áhorfendum hjálpað til með að hafa áhrif á dómarana en tveir af þremur dómurum gáfu honum fjórar af fimm lotum.

‘Big’ John McCarthy, sem er einn af þeim sem skrifaði reglubókina í MMA, var ekki sammála niðurstöðu dómaranna. Till stjórnaði búrinu meira en það á ekki að hafa áhrif á niðurstöðuna nema allt annað sé jafnt að sögn McCarthy.

Það verður eflaust deilt um þessi úrslit um einhvern tíma en ljóst að hér var ekkert rán um hábjartan dag – hnífjafn bardagi þar sem annar þurfti að tapa.

Hvað sem fólki finnst um úrslitin er ljóst að sigur Till opnar þyngdarflokkinn og býður upp á mjög skemmtilega hluti. Vonandi fær hann ekki titilbardaga strax, enda væri slíkt móðgun við sigurvegarann úr bardaga Rafael dos Anjos og Colby Covington. Ég myndi vilja fá að sjá hann fara á móti einhverjum eins Kamaru Usman, Santiago Ponzinibbio, Gunnari Nelson, nú eða Neil Magny sem nældi sér í sigur þetta kvöld.

Blendnar tilfinningar

Talandi um Neil Magny. Maður komst ekki hjá því að hugsa til þess að Gunnar Nelson hefði getað verið þarna með honum í búrinu. Það er bardagi sem gæti enn orðið að veruleika, við bara krossleggjum fingur. Craig White tók sénsinn og samþykkti frumraun í UFC með stuttum fyrirvara gegn topp tíu andstæðingi. Vel gert hjá báðum að samþykkja bardagann og vel gert hjá Magny að gera það sem hann þurfti að gera. Hann hafði í raun til lítils að vinna en nældi sér í sigur, fékk borgað, minnti á sig og skoraði á Kamaru Usman í leiðinni. Fín helgi hjá Magny svo sem. Kamaru Usman barðist fyrr í maí en heldur því fram að hann hafi brotið báðar hendurnar sínar og óljóst hvenær hann getur barist aftur. Ef hann er of lengi frá gæti bardagi gegn Gunnari ennþá verið möguleiki fyrir Magny.

Embed from Getty Images

Bland í poka

Bardagakvöldið bauð upp á allt mögulegt og var almennt skemmtilegt. Bardagi Jason Knight og Makwan Amirkhani var bestur að mínu mati en frammistaða Tom Breese gegn Dan Kelly eftirminnilegust. Það verður gaman að fylgjast með Breese ef hann kemst á siglingu og mögulega gæti hann veitt Till samkeppni um stærstu framtíðarstjörnuna í Englandi. Darren Till má reyndar eiga það að hann er talsvert betri í kjaftinum. Þetta var nokkuð gott bardagakvöld og við munum alveg örugglega sjá UFC snúa aftur til Liverpool.

Næsta bardagakvöld UFC fer fram á föstdaginn þar sem Jimmie Rivera mætir Marlon Moraes í aðalbardaga kvöldsins.

Óskar Örn Árnason

Comments

comments

Óskar Örn Árnason

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.