spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC on Fox: Lawler vs. Dos Anjos

Mánudagshugleiðingar eftir UFC on Fox: Lawler vs. Dos Anjos

UFC hélt bardagakvöld í Winnipeg í Kanada um helgina. Í Mánudagshugleiðingunum förum við yfir það helsta sem gerðist og spáum aðeins í spilin.

Nýtt skrímsli í veltivigtinni

Fyrir bardaga Robbie Lawler og Rafael dos Anjos (RDA) var FOX Sports með spurningakönnun þar sem aðdáendur voru spurðir hver þeir töldu sigurstranglegri. Yfir 70% töldu að Lawler myndi sigra og ljóst að dos Anjos átti ekki upp á pallborðið hjá aðdáendum. 8 af 11 pennum MMAJunkie.com spáðu Lawler sigri og 11 af 12 pennum BloodyElbow.com.

Rafael dos Anjos sigraði Robbie Lawler eftir einróma dómaraákvörðun (50-45). Magnað afrek í ljósi þess að Lawler hefur verið topp bardagamaður síðustu ár á meðan að dos Anjos átti slæmt ár 2016 og fór upp um þyngdarflokk. Þess má geta að Lawler barðist eitt sinn í millivigt og því nokkur stærðarmunur á þeim.

Embed from Getty Images

Um miðja aðra lotuna pressaði hann Lawler upp að búrinu og raðaði inn 48 höggum í röð en það er lengsta höggflétta í sögu UFC. Þetta hefði eflaust verið nóg til að stöðva alla sem heita ekki Robbie Lawler. Það sem var þó sérlega athyglisvert var hvað dos Anjos virkaði alveg jafn ferskur í fimmtu lotunni og greinilegt að bensíntankurinn er í lagi hjá honum í 170 pundunum.

Í þessum bardaga leit hann einfaldlega út eins og nýr bardagamaður eins og hann hefur gert síðan hann fór upp í 170 pund. Það ætti að vera hvatning fyrir aðra bardagamenn sem skera mikið niður fyrir sína bardaga að sjá RDA ganga svona vel og líta vel út, þurfandi ekki að skera eins mikið niður.

Dos Anjos sigraði þennan bardaga með frábærri leikáætlun, mikilli pressu og Lawler náði aldrei að komast af stað – ekki einu sinni í 4. og 5. lotu þar sem hann er yfirleitt bestur. Það er spurning hvort að tíminn sé einfaldlega farinn að segja til sín hjá Robbie Lawler.

Það eru spennandi tímar í veltivigtinni; Santiago Ponzinibbio er búinn að sigra sex bardaga í röð, Colby Colvington hefur sigrað fimm í röð og RDA pakkaði númer tvö á listanum saman og hefur nú sigrað alla þrjá bardaga sína í veltivigtinni. Það eru því margir sem geta gert tilkall í titilbardaga en sennilega er Dos Anjos líklegastur af þessum þremur til að fá tækifærið.

Óvæntur sigur

Josh Emmett átti rosalegt rothögg gegn Ricardo Lamas í næstsíðasta bardaga kvöldsins. Emmett kom inn í staðinn fyrir Jose Aldo, sem fór í titilbardaga gegn Max Holloway á UFC 218, með tiltölulega skömmum fyrirvara. Emmett var ekki á topp 15 í fjaðurvigtinni en rotaði Lamas sem var númer 3 á styrkleikalistanum. Hins vegar náði hann ekki fjaðurvigtarmarkinu og vigtaði rúm tvö pund yfir. Emmett hefur lýst því yfir að hann sé tilbúinn í endurat gegn Lamas, kjósi Lamas það vegna þess að Emmett hafi ekki náð tilsettri þyngd.

Embed from Getty Images

Ponzinibbio potar sig upp styrkleikalistann

Santiago Ponzinibbio heldur áfram að sigra og heldur áfram að valda usla. Hann barðist vel gegn Mike Perry, hélt fjarlægð í fyrstu lotu og það var greinilegt að hann bar virðingu fyrir höggþunga Perry. Eins og svo oft áður potaði Ponzinibbio í augu andstæðings síns en í byrjun annarrar lotu virtist Perry fá putta í augað sem truflaði hann talsvert. Í viðtalinu eftir bardagann benti Ponzinibbio á að hann væri núna með lengstu sigurgöngu í veltivigtinni og grátbað Sean Shelby um að fá að mæta sigurvegara Lawler-Dos Anjos í bráðabirgðar titilbardaga. Það verður að teljast ólíklegt að Shelby verði við þeirri ósk en dos Anjos og Colby Colvington eru ofar á listanum og gera sterkt tilkall til titilbardaga. Jorge Masvidal eða Robbie Lawler væru fínir sem næsti andstæðingur fyrir Ponzinibbio.

Verður aldrei endurnýjun í léttþungavigtinni?

Fyrir ári síðan var Misha Cirkunov talinn eitt mesta efnið í aldraðri léttþungavigtinni. Hinn 29 ára Kanadamaður hafði ekki tapað í um fimm ár, svartbeltingur í BJJ og var eitt mesta efni Kanadamanna í júdó á yngri árum. Volkan Oezdemir stöðvaði hann hins vegar eftir 26 sekúndur og hefur nú fengið titilbardaga gegn Daniel Cormier.

Cirkunov mætti á laugardaginn Glover Teixeira í bardaga sem nær allir töldu að hann myndi sigra. Eftir að hafa litið virkilega vel út fyrri hluta lotunnar náði Teixiera fellunni og þar leit Cirkunov einfaldlega út eins nýgræðingur í gólfinu. Mjög óvænt frá manni sem er bæði með svart belti í BJJ og júdó. Það er farið að hægjast talsvert á hinum 38 ára Teixeira og þetta annað tap í röð hjá Cirkunov í fyrstu lotu mun ekki gera neitt fyrir framtíðarhorfur hans.

Megum samt ekki gleyma því að Texeira gerði mjög vel í gólfinu og er einn af bestu gólfglímumönnunum í léttþungavigtinni (keppt á ADCC og unnið sterka glímumenn á borð við Dean Lister). Hann kláraði Cirkunov með höggum í gólfinu og hljóp að Daniel Cormier sem var að lýsa bardaganum og heimtaði titilbardaga. Ólíklegt að það gerist enda ekki langt síðan hann tapaði fyrir Alexander Gustafsson.

Staðan í léttþungavigtinni er því ansi svört en fyrir utan titilbardaga Cormier og Oezdemir er staðan eftirfarandi:

#1 Alexander Gustafsson er meiddur
#2 Teixeira er 38 ára
#3 Manuwa er 37 ára
#4 Saint Preux er 34 ára
#5 Shogun Rua er 36 ára (en 100 ára í bardagaárum)
#7 Cirkunov hefur tapað tveim í röð í fyrstu lotu.

Þessi endurnýjun í léttþungavigtinni gengur erfiðlega og stóru nöfnin ekkert að yngjast. Oezdemir er ekki líklegur til að valda Cormier miklum vandræðum en það má auðvitað aldrei líta fram hjá manni sem er með 11 af 15 sigrum eftir rothögg í fyrstu lotu.

Í öðrum bardögum sigraði Julian Marquez Darren Stewart með guillotine hengingu í annarri lotu í skemmtilegum bardaga og skoraði á Tyron Woodley, veltivigtarmeistara í svokallaða “beard-off” keppni um besta skeggið í UFC.

Nordine Taleb, fyrrum æfingafélagi Georges St. Pierre, átti ljómandi góða frammistöðu og virðist loksins vera farinn að vera sá bardagamaður sem var talað um að hann ætti eftir að verða. Taleb er auðvitað lífvörður Neymar og rotaði Danny Roberts eftir aðeins 50 sekúndur.

Það sem situr einna helst eftir eftir bardagakvöldið eru slæmar áhorfstölur á UFC bardagakvöldum FOX. Skv. tölum frá FOX horfðu um 1,78 milljónir á bardagana á laugardaginn. Þetta er mikil fækkun frá desember bardagakvöldi FOX í fyrra þar sem 2,69 milljónir horfðu á. Þetta er í rauninni ótrúlegt þar sem að Robbie Lawler þykir afar vinsæll og mikið af tiltölulega þekktum nöfnum á bardagakvöldinu.

Það eru ekki nýjar fréttir þar sem UFC hefur átt á brattan að sækja í áhorfi á árinu 2017. Ronda Rousey er horfin á braut, engin veit hvenær Conor snýr aftur í búrið og ennþá færri vita hvar Jon Jones mun enda. Þetta hefur skaðað áhorfstölur UFC töluvert þó svo að UFC 217 hafi hýft meðaltalið vel upp. Helstu ástæður fyrir þessu þykja vera þær að nýir eigendur UFC hafi skaðað ímynd samtakana með skrítnum ákvörðunum á mörgum vígstöðum.

Allt frá brottrekstri Mike Goldberg að óvanalegum fjölda af bráðabirgðarbeltum og „peningabardögum” hafa hugsanlega dregið úr áhuga harðkjarna MMA áhugamanna til áhorfs. UFC hefur verið að setja upp skringilega bardaga sem hafa það eitt að markmiði að selja og taka ekkert tillit til íþróttalegra annmarka MMA eða styrkleikalista. Það er fín lína sem er verið að dansa og ef fram heldur sem horfir er krísa handan við sjónarhornið.

Þrátt fyrir lélegar áhorfstölur var þetta alls ekki slæmt bardagakvöld á neinn hátt og við fáum núna eina helgi í hvíld áður en við fáum UFC 219 beint í æð þann 30. Desember. Þar mætast Cris Cyborg og Holly Holm í titilbardaga um fjaðurvigtartitil kvenna. Önnur nöfn á bardagakvöldinu eru m.a. Khabib Nurmagomedov, Edson Barboza, John Lineker og Carlos Condit. UFC 219 fer fram 30. desember og verður í beinni á Stöð 2 Sport.

*Guttormur Árni Ársælsson kom einnig að skrifunum í þessum Mánudagshugleiðingum.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular