Tvöföld UFC veisla fór fram um helgina. Fyrra bardagakvöldið fór fram á aðfaranótt laugardags í Sydney og það seinna í Uberlandia í Brasilíu. Bardagakvöldin voru nánast algjörar andstæður þar sem allir bardagarnir í Sydney kláruðust með rothöggi eða uppgjafartaki á meðan bardagakvöldið í Brasilíu þótti fremur leiðinlegt.
Óvæntasta atvik helgarinnar var sennilega rothögg Ovince St. Preux á Shogun en St. Preux rotaði gömlu goðsögnina eftir aðeins 34 sekúndur í fyrstu lotu. Enn á ný tapar Shogun og að flestra mati ætti hann að leggja hanskana á hilluna og segja þetta gott. Hann hefur tapað fjórum af síðustu fimm bardögum og virðist vera búinn. Því miður fyrir hann og aðdáendur hans er Shogun líklegast ekkert á þeim buxunum að hætta. Þrátt fyrir að vera aðeins 32 ára gamall hefur hann barist sem atvinnumaður í 12 ár og það tekur sinn toll á líkamann. Auk þess hefur hann farið í tvær stórar hnéaðgerðir.
Meiðsli hafa ávallt spilað stórt hlutverk á hans ferli en einnig eru uppi efasemdir um að hann sé ekki að æfa nógu vel. Þetta er sama gagnrýni og BJ Penn fékk í gegnum ferilinn en það má sjá margt sameiginlegt með þessum fyrrum meisturum. Á undanförnum árum hefur hann umkringt sig eigin þjálfurum og æfingafélögum sem þykja ekki vera á sama stalli og hann í stað þess að æfa í stóru félagi með heimsklassa þjálfurum og æfingafélögum (líkt og BJ Penn). Vissulega hefur hann tekið nokkrar vikur hér og þar með boxþjálfaranum Freddie Roach en það er einfaldlega ekki nóg.
Shogun hefur margoft skipt um þjálfara á ferlinum en einn af fyrrum þjálfurum hans talaði um að hnén væru ekki stærsta vandamálið hans heldur vanti hungur. Eins og áður segir kýs hann frekar að æfa í sínum heimabæ með sínum eigin þjálfurum og ræður nokkurn veginn ferðinni sjálfur. Þar hefur hann það bara mjög gott og lifir nokkuð þægilegu lífi.
Sumir vilja meina að hann hafi orðið saddur eftir að hann tók Pride titilinn árið 2005 en fékk hungrið aftur eftir að hann tapaði sínum fyrsta UFC bardaga gegn Forrest Griffin. Fyrir bardagann var reiknað með auðveldum sigri Shogun og átti bardaginn að vera nokkurs konar kynning á Shogun fyrir aðdáendur UFC. Shogun átti að valta yfir Forrest og fá titilbardaga fljótlega. 10 dögum fyrir bardagann gifti Shogun sig og skellti sér í smá brúðkaupsferð. Sú ákvörðun hlýtur að teljast undarleg en Shogun tapaði bardaganum eftir hengingu og leit illa út. Það verður þó að hafa í huga að þarna byrjuðu hnévandræði hans og fór hann í sína fyrstu hnéaðgerð stuttu eftir bardagann.
Shogun tókst að taka léttvigtarbelti UFC í maí 2010 eftir sigur gegn Lyoto Machida. Honum tókst þó aldrei að verja beltið sitt en er einn af fáum bardagamönnum sem hefur tekið titil í bæði Pride og UFC. Þrátt fyrir slæmt gengi á undanförnum árum verður Shogun ávallt minnst sem einn sá besti í sögunni.
Síðan má mögulega minnast á UFC tók af honum hans sterkustu vopn; stappið og soccerkicks.