spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaMánudagshugleiðingar eftir UFC: McGregor vs. Siver

Mánudagshugleiðingar eftir UFC: McGregor vs. Siver

conor aldoStórt bardagakvöld fór fram í Boston í gær þegar Conor McGregor sigraði Dennis Siver örugglega. Cerrone sigraði eftir umdeilda dómaraákvörðun og Gleison Tibau hefur sigrað 16 bardaga í UFC. Hér eru Mánudagshugleiðingarnar eftir UFC: Boston bardagakvöldið.

Conor McGregor gerði nákvæmlega það sem búist var við af honum þegar hann sigraði Dennis Siver eftir tæknilegt rothögg í 2. lotu. Hann var reyndar búinn að lofa því að klára Siver á undir tveimur mínútum en á blaðamannafundinum eftir bardagann sagðist hann hafa notið þess að vera í búrinu og vildi ekki flýta sér um of. Siver átti aldrei séns frá fyrstu sekúndu bardagans og var hann farinn að stífna upp og stressast snemma í fyrstu lotunni. Fimmti sigur McGregor í röð í UFC og fjórða rothöggið.

Conor McGregor mun mæta Jose Aldo um fjaðurvigtartitilinn. Bardaginn verður líklegast í maí í Las Vegas í kringum Memorial Day á UFC 187 þann 23. maí. Eftir bardagann stökk McGregor yfir búrið og hljóp að Aldo þar sem hann lét vafalaust ógöfur orð flakka. Aldo brosti bara og hafði gaman af þessu en þetta á eflaust eftir að spilast nokkrum sinnum í kynningarefninu fyrir bardaga þeirra. Áhuginn á bardaga þeirra er strax orðinn mikill og vonandi verða engin meiðsli á bardagamönnunum.

Donald Cerrone sigraði Ben Henderson eftir umdeilda dómaraákvörðun. Flestir töldu að Henderson hefði sigrað en dómararnir voru ekki á sama máli og dæmdu Cerrone sigurin. Ef einhver á skilið að tapa eftir umdeilda dómaraákvörðun, þá er það Ben Henderson. Henderson hefur sjálfur fengið sinn skerf af sigrum eftir umdeildar dómaraákvarðanir og kannski tími til kominn að hann tapi eftir eina slíka.

Gleison Tibau er með 16 sigra í UFC, jafn mikið og Randy Couture, Chuck Liddell og Anderson Silva – pælið aðeins í því! Tibau hefur aldrei komist nálægt titilbardaga en hann hefur verið í UFC í átta ár og á 24 bardaga að baki í UFC. Hann er ekta hliðvörður í léttvigtinni, þ.e. tapar gegn þeim sem eru á topp 15, þeir sem vinna hann komast á topp 15 en þeir sem tapa fara aftar í goggunarröðina. Norman Parke þarf því að fara aftar í goggunarröðina eftir hans fyrsta tap í UFC.

Það var önnur umdeild dómaraákvörðun í gær þegar Cathal Pendred sigraði Sean Spencer eftir einróma dómaraákvörðun. Nánast allir fjölmiðlar eru sammála um að Sean Spencer hafi átt sigurinn skilið og voru Joe Rogan og Dana White sammála um að þetta hefði verið algjört rán. Þrátt fyrir það er Íslandsvinurinn 3-0 í UFC og fékk sigur í gamla heimabæ sínum.

Uriah Hall sigraði Ron Stallings eftir að læknir kaus að stöðva bardagann. Stallings var með ljótan skurð fyrir ofan augað og hefði blætt mikið í auga hans ef bardaginn hefði fengið að halda áfram. Áhorfendur voru ósáttir með ákvörðun dómarans Herb Dean en hafa eflaust skipt um skoðun þegar skurðurinn sást á skjáunum í salnum. Mynd af skurðinum má sjá hér að neðan.

Stallingscut.0

Þetta var skemmtilegt bardagakvöld í Boston en tæplega 14.000 manns voru í höllinni. Næstu helgi er risa bardagakvöld í Svíþjóð þar sem Alexander Gustafsson mætir Anthony Johnson fyrir framan 30.000 manns í Tele2 Arena í Stokkhólmi.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular