Aðfaranótt sunnudags var UFC með þrælfínt bardagakvöld í Calgary í Kanada. Dustin Poirer og Jose Aldo stöðvuðu andstæðinga sína í spennandi bardögum en hér eru Mánudagshugleiðingar eftir bardagakvöldið.
Þrátt fyrir spennandi nöfn og skemmtilega bardaga skilaði kvöldið lægsta áhorfi UFC on Fox kvöldi frá upphafi þar vestanhafs. Eflaust má að hluta til rekja það til tímasetningarinnar en kvöldið var talsvert snemma á ferðinni.
Fær Poirier tiltibardaga?
Dustin Poirier er á þvílíku skriði undanfarið. Í seinustu fjórum bardögum hefur hann keppt við þrjá fyrrverandi meistara og hefur nú klárað þá alla (Pettis, Gaethje og Alvarez). Í venjulegum heimi myndi hann fá titilbardaga um leið en eins og við vitum eru stundum önnur lögmál sem stjórna því hver fær titilbardaga í UFC. Orðrómur er á kreiki um að McGregor fái titilbardaga gegn Nurmagomedov í Rússlandi og ef það er einhver möguleiki á að sá bardagi verði þarf Poirier einfaldlega að bíta í það súra epli að bíða. Það er síðan spurning hvað gerist þegar Tony Ferguson snýr aftur og mögulega mætast Poirier og Ferguson til þess að útkljá hver fær titilbardaga eftir McGregor-Nurmagomedov. Það má segja að UFC sé í hálfgerðri lúxusstöðu með alla þessa áskorendur í léttvigtinni.
Kann Eddie Alvarez ekki reglurnar?
Eftir að fyrri bardagi Alvarez og Poirier var stöðvaður eftir ólögleg hné var Eddie Alvarez mikið í mun að sannfæra fólk um að Poirier hefði gefist upp og verið að leita að ástæðu til að geta stöðvað bardagann. Þ.e. að Poirier hefði alveg getað haldið áfram en væri að nota ólöglegu hnén sem afsökun til að hætta. Á laugardaginn var Eddie í góðri stöðu, ofaná í „mount“ þegar hann ákveður á óskiljanlegan hátt að framkvæma ólöglega 12-6 olnboga.
Hvað sem mönnum finnst um þá reglu er þetta ólöglegt bragð og í annað skipti sem Alvarez reynir ólöglega tækni gegn Poirier. Reynslubolti eins og Alvarez með næstum 40 bardaga á bakinu á að vita betur. Þetta var sömuleiðis í annað sinn sem Poirier græðir á þessu blæti Alvarez en dómarinn, Mark Goddard, lét þá standa aftur upp í miðju búri sem Poirier nýtti sér síðan til að klára Alvarez standandi. Eftir situr spurningin hvort Alvarez sé svona óheiðarlegur eða hvort hann sé bara með svona lélegt bardaga IQ að hann átti sig ekki á því hvað hann er að gera í hita leiksins. Eftir bardagann áskaði Poirier Alvarez síðan um að hafa gefið sér „wet willy“ í bardaganum, sem verður að teljast nokkuð kómískt.
José Aldo minnir á sig
Bardaginn á laugardagskvöld var sá fyrsti sem Jose Aldo keppir í UFC sem er ekki titlibardagi. Það er sturluð tölfræði þar sem hann kom inn í samtökin árið 2009. Þá var Barack Obama ný orðinn forseti Bandaríkjanna og Aldo var taplaus í 10 ár á árunum 2005-2015. Það tók McGregor svo aðeins 12 sekúndur að binda enda á 10 ára sigurgöngu Aldo og síðan hefur hann átt erfitt uppdráttar, barist í tveimur stríðum við Holloway og margir búnir að afskrifa hann. Það leist ekki öllum á blikuna þegar hann virtist ætla að fara í standandi stríð gegn Stephens á laugardaginn en Aldo sýndi og sannaði af hverju hann er álitinn besti fjaðurvigtarmaður í MMA frá upphafi. Það gleymist oft en Aldo er ekki nema 31 árs gamall og þó að hann sé orðinn nokkuð veðraður eftir marga erfiða bardaga höfum við bara séð hann gegn þeim allra bestu undanfarin fjögur ár (Mendes, McGregor, Edgar og Holloway tvisvar). Ég held að það sé enginn spurning að Aldo er enn með bestu fjaðurvigtarmönnum heims og mun áfram setja pressu á efstu menn í þeim þyngdarflokki.
Joanna Jędrzejczyk í undarlegri stöðu þrátt fyrir sigur
Fyrrum meistarinn Joanna Jędrzejczyk (áður kölluð Joanna Champion, en nú Joanna Contender) er í erfiðri stöðu þrátt fyrir að hafa ekki verið í teljandi vandræðum með andstæðing sinn, Teciu Torres, á laugardag. Hún hefur tapað tvisvar gegn núverandi meistara og fæstir sem eru spenntir fyrir þriðja bardaga hennar við Rose Namajunas. Rose virðist líka ætla að taka sér smá hlé frá búrinu og Joanna því í þröngri stöðu og verður bara að vonast eftir að Rose tapi titlinum. Þrátt fyrir það talaði Joanna mikið um það á laugardaginn að hún væri enn númer eitt og að hún væri drottningin í strávigtinni en ekki Rose. Það jaðrar við sjálfsblekkingu en eftir að hafa verið kláruð í fyrsta bardaganum og tapað síðan einróma 49-46 virðast flestir vera sammála um það hver er „drottningin“ í strávigt kvenna.
Næsta bardagakvöld fer fram á laugardaginn þegar UFC 227 er á dagskrá í Kaliforníu.