spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMark Hunt segir frá hræðilegri æsku: „Pabbi var miskunnarlaus“

Mark Hunt segir frá hræðilegri æsku: „Pabbi var miskunnarlaus“

Mark_Hunt-1200Mark Hunt er lifandi goðsögn í bardagaheiminum og átt stormasaman feril. Bardagi hans við ‘Bigfoot’ Silva er af mörgum talinn einn besti þungavigtarbardagi sögunnar og um helgina mætir hann Bigfoot í annað sinn á UFC 193. Hunt sagði frá erfiðum æskuárum sínum í nýútkominni bók.

Fáir menn í heiminum hafa sama höggþunga og Hunt og enn færri þola barsmíðar eins og Hunt. „Hluti af hæfileikum mínum sem bardagamaður felst í að vera mannlegur boxpúði,“ segir Hunt sjálfur og hlær. „Ég finn ekki fyrir sársauka eins og flestir.“ Þeir sem hafa séð Hunt berjast vita að þetta eru engar ýkjur. Saga Hunt gefur til kynna að þessi eiginleiki eiga ekki síður við andlegu hlið hans. Þessi hæfileiki hefur í það minnsta ekki bara reynst honum vel á ferli hans sem bardagamaður. Mark þurfti svo sannarlega á þessum hæfileika að halda í æsku.

Börnunum misþyrmt

Í nýrri bók um ævi Hunt, „Born to Fight“, er sagt frá heiftarlegu heimilisofbeldi sem hann og fjölskylda hans bjó við. Mark átti tvo eldri bræður, Steve og John, og eldri systur, Victoria. Faðir þeirra beitti strákana andlegu og líkamlegu ofbeldi en systir hans þurfti að þola kynferðislega misnotkun frá sex ára aldri þar til hún flutti að heiman 18 ára gömul.

Hunt minnist þess að hafa verið bundinn og húðstrýktur með grein þar til húðin rifnaði af bakinu. „Það þýddi að ég fór ekki í skólann í þrjár vikur, svo það var í lagi,“ segir Hunt og hlær. „Pabbi var miskunnarlaus. Einu sinni batt hann mig með hendur fyrir ofan haus í bílskúrnum og barði mig með kústskafti. Ég slapp síðan og þá fóru bræður mínir á eftir mér. Þeir sögðu mér að drullast aftur út í skúr því annars myndum við allir fá að finna fyrir því.“

Hunt segist ekki muna eftir miklu varðandi kynferðisofbeldi föður síns en hann man eftir að sjá föður sinn hverfa inn í herbergi systur sinnar á hverju kvöldi og hann man eftir sterku lyktinni af sápunni sem faðir hans notaði til að þvo sér eftir á. „Ég þoli enn ekki að finna lyktina af þessari sápu,“ segir Hunt.

Victoria, systir hans, segir að misnotkunin hafi átt sér stað næstum daglega og ef hún neitaði honum tæki hann reiði sína út á bræðrum hennar. Bæði móðir hennar og mormónakirkjan sem þau voru hluti af vissu af misnotkuninni en gerðu ekkert. Þegar skólastarfsmaður gerði lögreglunni loks viðvart sagði móðir hennar við dóttur sína: „Ég skal kaupa handa þér hjól ef þú fellir kæruna niður.“ Þegar faðir hennar slapp út vegna skorts á sönnunargögnum hélt kynferðisofbeldið áfram og hann hótaði að drepa hana ef hún „opnaði munninn aftur“.

Að finna leið til að lifa

Victoria segist hafa þraukað fyrir bræður sína sem höfðu engan annan til að sjá almennilega um sig. Þeir áttu allir mjög erfitt, Steve var með geðklofa, John lokaði sig af í herberginu sínu dögum saman og Mark lagði aðra krakka í einelti. „Slagsmál á götunni voru mín leið til að fá útrás fyrir reiðina sem ég fann til gagnvart foreldrum mínum,“ útskýrir Hunt. „Heimilið var aldrei öruggur staður. Mér fannst ég öruggari á götunni. Ég var smáglæpamaður og gerði mjög margt rangt, ég viðurkenni það. Ef ég gæti myndi ég biðja fólkið sem ég braut á afsökunar. Við vorum öll bara að reyna að lifa af í þessari skítaholu. Við vorum eins og flækingshundar.“

Mark segir að fjölskyldan hafi aldrei jafnað sig eða leyst úr málunum. „Ég heilsa upp á þau af og til en ég hef aldrei sagt þeim að mér þyki vænt um þau. Það er erfitt að segja svoleiðis hluti í minni fjölskyldu,“ segir hann. „Systir mín er sterk. Ég finn til með henni en við höfum aldrei sest niður og rætt það sem gerðist.“

Mark segir að líf hans hafi tekið nýja stefnu þegar hann kynntist eiginkonu sinni Julie Haren og eiga þau saman fjögur börn. Julie hvatti Mark til að leita sér sálfræðimeðferðar, sem hann gerði, og það breytti lífi hans.

Bræðrum Mark Hunt hefur ekki vegnað jafn vel. John bróðir hans framdi sjálfsmorð snemma á þessu ári og Steve þjáist af geðklofa og býr með systur þeirra og fjölskyldu hennar. Faðir hans lést úr krabbameini árið 2005.

spot_img
spot_img
spot_img
Oddur Freyr Þorsteinsson
Oddur Freyr Þorsteinsson
Greinahöfundur á MMAFréttir.is
RELATED ARTICLES

1 COMMENT

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular