Þær slæmu fréttir bárust í nótt að Max Holloway muni ekki berjast á UFC 226 um helgina. Holloway neyðist til að draga sig úr bardaganum þar sem hann glímir við einkenni heilahristings.
Fjaðurvigtarmeistarinn Max Holloway átti að mæta Brian Ortega í næstsíðasta bardaga kvöldsins á laugardaginn. Gríðarleg spenna ríkti fyrir bardaganum enda um að ræða tvo bardagamenn í hæsta gæðaflokki.
Holloway hefur hins vegar glímt við einkenni heilahristings og getur því ekki barist á laugardaginn. Holloway sýndi einkenni heilahristings á dögunum og var sendur á sjúkrahús á mánudaginn í frekari skoðun en leið betur daginn eftir. Holloway neitaði að hætta við bardagann en þegar ástand hans versnaði í gær, miðvikudag, var sú ákvörðun tekin að Holloway myndi ekki berjast á laugardaginn.
Ekki er vitað á þessari stundu hvort Ortega fái annan andstæðing í stað Holloway en Frankie Edgar hefur boðist til að stíga inn. Ortega rotaði Edgar í mars á þessu ári en Ortega og hans lið hafa sagt að þeir hafi ekki áhuga á að taka annan bardaga nema það sé titilbardagi.
Holloway hefur átt erfitt ár. Hann byrjaði á að draga sig úr fyrirætluðum bardaga gegn Frankie Edgar á UFC 222 í mars en tók svo bardaga gegn Khabib Nurmagomedov mánuði síðar með sex daga fyrirvara. Holloway gat síðan ekki náð vigt og var fjarlægður úr bardaganum daginn fyrir bardagann.
Yfirlýsingu frá umboðsmanni Holloway má lesa hér.
Breaking: Max Holloway is out of UFC 226. Here is a statement from his management team, exclusive to ESPN. More coming shortly. pic.twitter.com/PO4Zm0DeBC
— Ariel Helwani (@arielhelwani) July 5, 2018