Max Holloway er óvænt kominn inn í stað Tony Ferguson gegn Khabib Nurmagomedov á UFC 223 nú á laugardaginn. Holloway kemur inn með nokkurra daga fyrirvara og var sjálfur nýlega meiddur.
Þeir Tony Ferguson og Khabib Nurmagomedov áttu að mætast í aðalbardaganum nú um helgina um léttvigtartitilinn. Í fjórða sinn hefur bardagi þeirra fallið niður og kemur fjaðurvigtarmeistarinn Max Holloway inn.
Ferguson er sagður hafa meiðst síðasta föstudag eftir óhapp en bardagi Holloway og Khabib var tilkynntur í gær, 1. apríl.
„1. apríl! Nei, bara grín. Umboðsmaðurinn hringdi í mig og sagði að Tony væri meiddur og þeir vildu fá mig í staðinn gegn Khabib. Hvernig gat ég hafnað svona tækifæri? Svona tækifæri koma bara einu sinni á lífsleiðinni,“ sagði Holloway við KHON2 fréttastöðina í Havaí.
Holloway getur þar með orðið annar bardagamaðurinn í sögu UFC til að vera meistari í tveimur þyngdarflokkum á sama tíma. Conor McGregor var sá fyrsti til þess árið 2016 en hann var ríkjandi fjaðurvigtarmeistari þegar hann tók léttvigtarbeltið af Eddie Alvarez.
Holloway er sjálfur að stíga upp úr meiðslum en hann átti að mæta Frankie Edgar á UFC 222 þann 3. mars. Mánuði fyrir bardagann meiddist hann á fæti og þurfti að draga sig úr bardaganum en þetta var í fyrsta sinn sem hann hefur þurft að hætta við bardaga í UFC. Í viðtalinu segir Holloway að hann hafi fengið grænt ljóst frá lækni að byrja að sparra aftur fyrir tveimur vikum síðan.
„Ég er hér til að berjast, ég sé ekki um að raða bardögunum saman. Ég á enn ókláruð mál í fjaðurvigtinni en eins og ég hef sagt áður við UFC, það þarf bara eitt símtal og ég er til. Þeir hringdu í réttan mann. Hér er ég, með sex daga fyrirvara. 7. apríl verður frábært kvöld.“