Fyrrum millivigtarmeistarinn Michael Bisping er formlega hættur. Þetta tilkynnti hann í hlaðvarpi sínu í gær og mun því ekki taka kveðjubardaga eins og til stóð.
Michael Bisping hefur ýjað að því að hann muni mögulega hætta eða taka einn kveðjubardaga í viðbót ef tilboðið væri gott. Upphaflega vildi Bisping taka kveðjubardaga sinn á Englandi og voru uppi vangaveltur um hvort hann myndi berjast á London bardagakvöldinu í mars eða Liverpool kvöldinu um síðustu helgi.
„Ég er augljóslega búinn að vera að ýja að þessu um dálítinn tíma. Ég gæti barist aftur, ég gæti hætt en ég tilkynni nú að ég sé formlega hættur í MMA,“ sagði Bisping.
Bisping hefur áður sagt að hann væri líklegast hættur en vildi ekki tilkynna það formlega þar sem það myndi taka of langan tíma að ætla að snúa aftur ef svo bæri undir.
Bisping var óvænt millivigtarmeistari eftir sigur á Luke Rockhold í júní 2016. Hann tapaði beltinu til Georges St. Pierre í nóvember í fyrra en þremur vikum síðar tók hann annan bardaga gegn Kelvin Gastelum. Þar var hann rotaður frekar illa og reyndist það vera síðasti bardagi hans á ferlinum.
Bisping hefur verið í vandræðum með hægra augað á sér síðan 2013 og varð svo fyrir öðrum meiðslum á vinstra auganu í bardaganum gegn Gastelum. Þrátt fyrir augnmeiðslin stóð til að taka kveðjubardaga gegn Rashad Evans í London og voru samningaviðræður komnar langt á veg þegar hann ákvað að hætta við. Síðasta sunnudag ákvað hann svo að setja hanskana upp á hillu eftir að hafa séð kvikmyndina Journeyman, kvikmynd um eldri bardagamann sem glímir við veruleg meiðsli eftir höfuðhögg.
Bisping átti frábæran feril og algjör frumkvöðull fyrir MMA á Englandi. Tilkynningu hans má heyra hér að neðan.
https://www.youtube.com/watch?v=w102xwNDysI