spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaMikael tapaði fyrir Evrópumeistaranum

Mikael tapaði fyrir Evrópumeistaranum

Mikael Leó Aclipen er úr leik á Heimsbikarmótinu í MMA. Mikael tapaði í morgun fyrir Otabek Rajabov með uppgjafartaki í 2. lotu.

Þetta er í fyrsta sinn sem IMMAF (alþjóðlega MMA sambandið) heldur heimsbikarmót en mótið fer fram í Prag, Tékklandi. Þeir Mikael Leó og Aron Franz Bergmann kepptu á mótinu fyrir Íslands hönd en Aron féll úr leik í fyrstu umferð á miðvikudaginn.

Mikael sigraði sterkan Úkraínumann á miðvikudaginn í 16-manna úrslitum í bantamvigt og sigraði síðan Slóvaka í gær eftir frábæra frammistöðu. Í dag mætti hann Otabek Rajabov frá Tajikistan í undanúrslitum mótsins. Rajabov er ríkjandi Evrópumeistari og ósigraður sem áhugamaður í MMA.

Mikael reyndi strax að koma bardaganum niður en Rajabov varðist fellunum vel og náði inn góðum hnéspörkum í Mikael. Mikael hélt Rajabov upp við búrið þar sem hann reyndi fellur en Rajabov komst frá búrinu og náði góðu kasti. Mikael komst aftur á fætur og hélt áfram að reyna við felluna en áfram varðist Rajabov vel. Rajabov náði síðan fellu alveg í lok lotunnar.

Í 2. lotu reyndi Mikael áfram að taka Rajabov niður en Rajabov svaraði með kasttilraunum sem settu Mikael úr jafnvægi. Mikael reyndi sjálfur köst og náði einu sinni að setja Rajabov á rassinn eftir fellu en Evrópumeistarinn komst strax upp. Rajabov var hættulegur standandi og henti í hraðar fléttur í lotunni en Mikael virtist missa jafnvægið á einum tímapunkti í skamma stund.

Rajabov náði að komast ofan á í gólfinu og náði fljótt bakinu. Rajabov fór undir hökuna og læsti „rear naked choke“ hengingunni en Mikael reyndi eins og hann gat að koma sér úr hengingunni. Rajabov hélt áfram að kreista, hélt hengingunni vel og þurfti Mikael að lokum að tappa út. Rajabov er því kominn í úrslit eftir sigur á Mikael og var hann einfaldlega betri bardagamaðurinn í dag.

Mikael þarf því að sætta sig við bronsið eftir þrjá bardaga á þremur dögum. Rajabov fer í úrslit þar sem hann mætir Murad Ibragimov frá Barein og verður að segjast að Rajabov sé ansi líklegur til að bæta öðru gulli við verðlaunasafnið.

 Mikael heldur heim á sunnudaginn og getur borið höfuðið hátt eftir fyrstu þrjá MMA bardagana sína á ferlinum.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular