0

Missir Cathal Pendred starfið sitt eftir helgina?

Cathal Pendred

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Cathal Pendred tapaði fyrir Tom Breese á bardagakvöldinu í Dublin um helgina. Þetta var annað tapið hans í röð en á hann í hættu á að missa starfið sitt í UFC?

Cathal Pendred hefur nú tapað tveimur bardögum í röð eftir að hafa sigrað fyrstu fjóra bardaga sína í UFC. Sigrarnir fjórir voru þó ekkert sérstaklega sannfærandi og þótti skemmtanagildið ekki hátt í bardögunum.

Pendred kom í UFC eftir að hafa verið þátttakandi í 19. seríu The Ultimate Fighter. Hann sigraði einn bardaga og tapaði einum og fékk bardaga á bardagakvöldinu í Dublin. Þar átti hann magnaða frammistöðu þar sem hann var nánast rotaður í 1. lotu en kom til baka og tókst að hengja Mike King í 2. lotu. Ótrúlegur bardagi sem var valinn besti bardagi kvöldsins.

Síðan þá hefur hallað undan fæti. Hann sigraði Gasan Umalatov í leiðinlegum bardaga þar sem Pendred kvartaði yfir sóknarleysi Umalatov. Pendred sigraði eftir dómaraákvörðun og voru margir á því að sigurinn hefði getað dottið röngu megin fyrir Pendred. Hann var auk þess kýldur niður í 1. lotu rétt eins og í bardaganum gegn King.

Umdeildasti bardaginn var gegn Sean Spencer í Boston þar sem Pendred sigraði eftir afar umdeilda dómaraákvörðun. Líkt og svo oft áður var Pendred kýldur niður í bardaganum en með ótrúlegri þrautseigju náði hann að lifa af. Bardaginn var mun jafnari en lýsing Joe Rogan gaf til kynna en eftir bardagann varð Pendred einn óvinsælasti bardagamaðurinn í UFC. Hann þótti ekki skemmtilegur, vann á umdeildan máta, var hægur og var þrívegis nálægt því að rotast. Pendred fannst hann hafa gert nóg til að sigra Spencer og voru þau ummæli olía á eldinn hjá gagnrýnendum hans.

Þrátt fyrir óvinsældir hans var Pendred engu að síður 3-0 í UFC. Hann mætti svo Augusto Montano sem gerði ekkert nema flýja undan Pendred. Sá bardagi þótti ekki skemmtilegur en þar var helst við Montano að sakast.

Pendred tapaði sínum fyrsta bardaga í UFC í júlí gegn John Howard. Þar var Howard einfaldlega betri bardagamaður og gat Pendred ekki kvartað yfir tapinu. Hann var því 4-1 í UFC á fyrsta ári sínu í stærstu bardagasamtökum heims. Alls ekki slæmt á pappírum en þarna voru samt tveir umdeildir sigrar, einn afar leiðinlegur bardagi og svo var hann kýldur niður í þremur af fjórum sigrum sínum.

Nú er öldin önnur. Pendred var rotaður af Tom Breese í 1. lotu og gæti hann átt von á því að vera rekinn úr UFC. 4-2 í UFC er hreint ekki slæmt bardagaskor en UFC hefur verið að fækka bardagamönnum sínum. Í síðustu viku voru 23 bardagamenn leystir undan samningi og er talið að 7-10 munu fylgja í kjölfarið á næstu dögum. Undir eðlilegum kringumstæðum ætti Pendred að vera nokkuð öruggur með starf sitt en óvinsældir hans setja hann í erfiða stöðu. Þó MMA sé íþrótt hugsar UFC auðvitað um skemmtanagildið og þar skorar Pendred ekki hátt að margra mati.

Sjá einnig: Niðurskurður í UFC – 17 leystir undan samningi

Hvert einasta viðtal eða grein um hann á erlendum miðlum fær fjöldan allan af neikvæðum ummælum. Það er leiðinlegt þar sem Pendred er afskaplega viðkunnanlegur náungi. Hann veit að hann er ekki fullkominn bardagamaður og tekur hatrinu gegn sér ekki inn á sig. Hann sagðist meira að segja vera ánægður með að vera kallaður G.O.A.T. (Greatest of all time) í hæðni á Reddit spjallborðinu. Þeir eru að minnsta kosti að tala um hann, sem er gott að hans mati.

Pendred talaði um fyrir bardagann um helgina að hann ætlaði sér að taka sex mánaða pásu frá MMA eftir bardagann í Dublin. Þessa sex mánuði ætlar hann að nýta til að æfa einungis box. Það gæti verið akkúrat það sem hann þarf en kannski fær hann ekki að sýna það í UFC.

Jake Shields, Yushin Okami og Jon Fitch voru allir látnir fjúka úr UFC þegar bardagasamtökin sáu færi á því. Líkt og Pendred voru þeir allir fremur óvinsælir bardagamenn og gæti Pendred því farið sömu leið.

Vonandi fær hann eitt tækifæri í viðbót í UFC en miðað við söguna gæti hann hafa barist sinn síðast bardaga í bili í UFC.

Cathal Pendred

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is

-Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ)
-BS í sálfræði
-Lýsi UFC á Stöð 2 Sport
-MMA fíkill
Pétur Marinó Jónsson

Comments

comments

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.