Samfélagsmiðlarnir hjá Conor McGregor vekja jafnan athygli. Um helgina birti hann gamla mynd úr bardaga hjá sér en bjóst kannski ekki við að andstæðingurinn myndi svara svona vel fyrir sig.
Conor McGregor mætti Max Holloway í ágúst 2013. Conor sigraði eftir dómaraákvörðun en síðan þá hefur Holloway sigrað 12 bardaga í röð og er ríkjandi fjaðurvigtarmeistari UFC.
Um helgina birtir Conor McGregor þessa mynd úr bardaga þeirra:
Holloway svaraði þó vel fyrir sig og birti mynd úr bardaga Conor og Floyd Mayweather í fyrra. Þar sigraði Floyd eftir tæknilegt rothögg eftir að dómarinn hafði stöðvað bardagann í 10. lotu.
Holloway komst í fréttirnar um helgina en hann neyddist til að draga sig úr bardaga sínum gegn Frankie Edgar í mars. Þetta er í fyrsta sinn sem hann hefur þurft að hætta við bardaga í UFC.
Conor McGregor er enn léttvigtarmeistari UFC en ekki er vitað hvort eða hvenær hann berjist aftur.