0

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Machida vs. Anders

Um helgina fór fram lítið UFC bardagakvöld í Belém í Brasilíu. Bardagakvöldið var hvorki spennandi á pappír né allt of skemmtilegt að horfa á. Lítum aðeins til baka áður en við eyðum minningunum endanlega af harða drifinu.

Aðalbardagi kvöldsins skartaði goðsögninni Lyotoa Machida sem er ennþá nokkuð stór stjarna í heimalandinu þrátt fyrir að hafa átt erfitt uppdráttar undanfarið. Machida er á endapunkti ferilsins, orðinn 39 ára gamall og hafði fyrir þetta kvöld tapað fjórum af síðustu fimm bardögum. Þessi töp voru að vísu öll gegn mjög góðum andstæðingum en síðasta tapið, rothögg gegn Derek Brunson í fyrstu lotu í október síðastliðinn, var sérstaklega slæmt.

Það kom því ekki á óvart að hinn ósigraði Eryk Anders væri talinn líklegri til sigurs hjá veðbönkunum. Anders er nokkuð nýr í þessum bransa en hann hóf ferilinn árið 2015 og hafði barist tvisvar í UFC áður en hann fékk þetta gullna tækifæri í Brasilíu. All kom þó fyrir ekki, Machida reyndist erfiðari viðureignar en búist var við og á endanum fékk hann bardagann dæmdan sér í vil eftir fimm lotur. Best væri ef Machida nýtti þetta tækifæri til að hætta á sigri, í aðalbardaga í Brasilíu. Hann fær ekki mikið betra tækifæri. Við vitum hins vegar öll að það er aldrei að fara að gerast.

Embed from Getty Images

Aðal umræðuefnið eftir þetta bardagakvöld var í raun dómgæsla en ekki neinn ákveðinn bardagi. Í bardaga Valentinu Schevchenko og Priciliu Cachoeira blöskraði mörgum barsmíðaranar sem hin síðarnefnda mátti þola. Samkvæmt Fightmetric tók Cachoeira á sig 95 högg í tveimur lotum en kom bara frá sér tveimur. Dómari bardagans, Mario Yamasaki, hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir að stöðva ekki blóðbaðið enda var öllum ljóst að Cachoeira ætti ekki möguleika. Það beinir svo í framhaldi sjónum að UFC en þessi bardagi var ójafn frá upphafi og hefði aldrei átt að vera settur saman. Vonandi læra menn af þessum mistökum.

Burtséð frá þessum ójafna bardaga var þetta fyrsti bardagi Shevchenko í fluguvigt kvenna. Hún er þar með ansi líkleg til að fá titilbardaga í þessum nýja þyngdarflokki. Nákvæmlega ekki neitt hefur heyrst í meistaranum, Montano Nicco, síðan hún vann beltið í desember og er spurning hvort það sé ekki kominn tími til að hennar fyrsta titilvörn fari fram.

Kvöldið í heild sinni var gott fyrir heimamenn en Sérgio Moraes vann Tim Means á stigum og Iuri Alcantara sigraði Joe Soto með rothöggi í fyrstu lotu. Besti bardagi kvöldsins var án efa viðureign Thiago Santos og Anthony Smith sem báðir gæti verið góð illmenni í James Bond mynd. Það var að lokum Santos sem afgreiddi Smith með tæknilegu rothöggi. Santos hefur nú unnið fjóra bardaga í röð, alla með rothöggi, og gæti með þessu áframhaldi strítt þeim bestu í millivigt.

Óskar Örn Árnason

Comments

comments

Óskar Örn Árnason

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.